Samstarf sveitarfélaganna
Einn þáttur samstarfs Reykhólahrepps og nágranna í Dölum og á Ströndum, er samvinna tómstundafulltrúa sveitarfélaganna. Þar er tenging félagsmiðstöðvanna sem hafa aðstöðu í skólunum hver á sínum stað, í Búðardal, á Reykhólum og á Hólmavík. Einnig er námskeiðahald fyrir unglingana og ýmis konar uppákomur sem efla tengsl og félagsþroska.
Tómstundafulltrúarnir, þau Jón Egill Jónsson frá Dalabyggð, Jóhanna Ösp Einarsdóttir frá Reykhólahreppi og Íris Ósk Ingadóttir frá Strandabyggð funda reglulega, og var meðfylgjandi mynd tekin á fundi þeirra á Reykhólum á dögunum. Fulltrúi Dalabyggðar komst reyndar ekki að þessu sinni.
Til að fræðast nánar um þetta starf hafði umsjónarmaður síðunnar samband við Jóhönnu Ösp, sem veitti góðfúslega upplýsingar um hvernig þetta gengur fyrir sig;
-Samstarf hófst markvisst haustið 2016 og þá voru hittingar í félagsmiðstöðvunum þrisvar á haustönninni og svo þrisvar á vorönn. Við reynum að hittast á hverjum stað einu sinni á hverri önn með 8.-10. bekk.
Við höfum haft sameiginleg námskeið fyrir ungmenni, fengið utanaðkomandi aðila með fræðslu og deilt kostnaði.
Við vorum með ungmennahelgi í febrúar s. l. þar sem saman voru komin um 40 ungmenni. Þá vorum við með samskiptafræðslu, kynfræðslu, hinseginfræðslu og sjálfsstyrkingu ásamt allskonar smiðjum.
Að lokum sagði Jóhanna,
„Við hittumst reglulega, tómstundafulltrúarnir og berum saman bækur okkar varðandi hversu oft við erum með opið í félagsmiðstöðinni, hvaða verkefni falla undir okkar deild og fáum hugmyndir að skemmtilegu starfi.
Við erum að skipuleggja þrjá viðburði í apríl, einn fyrir yngsta stigið, einn fyrir miðstigið og einn fyrir unglingadeildina.“
Þetta er skemmtilegt samstarf og mikill auður af þessum störfum í samfélögunum.