Samtakamáttur þriggja sveitarfélaga virkjaður
Sveitarstjórnir Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar hafa ákveðið að taka höndum saman um að stuðla að eflingu atvinnulífs og þar með byggðar á svæði sínu. Sveitarfélögin hafa um árabil haft með sér samstarf af margvíslegum toga. Samgöngubætur um Arnkötludal hafa styrkt svæðið betur sem heild og skapað tækifæri til enn frekari samvinnu, sem skilað gæti byggðunum meiri árangri en ella.
Sveitarfélögin standa jafnframt frammi fyrir þeim sameiginlegu áskorunum að bæta þjónustu, samgöngur og fjarskipti og aðra grunngerð til að búa sem best í haginn fyrir fyrirtæki og íbúa.
Til þess að geta bætt grunngerðina þarf hins vegar ákveðinn styrk atvinnulífs og samfélags. Því er hér um ákveðna þversögn að ræða, sem kallar á margþætta nálgun. Sveitarstjórnirnar telja heppilegt að taka höndum saman í þeirri vinnu og hafa því ákveðið að gera sameiginlega svæðisskipulagsáætlun, sem miðar að því að styrkja grunngerð um leið og samtakamáttur er efldur, sameiginleg mynd af svæðinu gerð skýrari og tækifæri til atvinnuþróunar á svæðinu sem heild dregin fram.
Svæðisskipulagsáætlun er gott verkfæri í þessum tilgangi, þar sem í henni er sett fram sýn sveitarfélaganna á framtíðarþróun og markmið sem miða að þeirri sýn. Þannig er tryggt að allir sigli í sömu átt. Stefnumótunin fer fram með samtali sveitarfélaganna og íbúa þess, sem er til þess fallið að styrkja samheldni og sjálfsmynd svæðisins og efla samtakakraftinn.
Í svæðisskipulagsvinnunni verður lögð áhersla á að draga upp mynd af auðlindum til sjávar og sveita og sérkennum í landslagi, sögu og menningu, í þeim tilgangi að styrkja ímynd svæðisins og auka aðdráttarafl þess gagnvart ferðamönnum, nýjum íbúum, fyrirtækjum og fjárfestum. Á grunni þeirrar myndar verður mörkuð stefna sem skilgreinir sameiginlegar áherslur sveitarfélaganna í atvinnu-, samfélags- og umhverfismálum og síðan skipulagsstefna sem styður við þær áherslur. Svæðisskipulagið myndar þannig ramma fyrir aðalskipulag hvers sveitarfélags og einfaldar vinnslu þess.
Leitast verður við að setja gögn um svæðið þannig fram, að þau geti nýst fyrirtækjum í ferðaþjónustu og öðrum atvinnugreinum til vöruþróunar og markaðssetningar og sem kveikjur að nýjum verkefnum og fyrirtækjum. Væntingar eru einnig til að auðveldara verði að sækja fjármagn til svæðisbundinna verkefna og annarra verkefna sem falla að sameiginlegri langtímasýn svæðisins, með því að unnt verði setja einstök verkefni í stærra samhengi í tíma og rúmi.
Sveitarfélögin hafa skipað svæðisskipulagsnefnd og ráðið ráðgjafarfyrirtækið Alta til að aðstoða sig við þetta verkefni, sem unnið verður á næstu tveimur árum. Á næstunni verður settur upp upplýsingavefur um verkefnið, þannig að íbúar og aðrir geti fylgst með framgangi þess og kynnt sér gögn sem verða til við vinnsluna. Þar mun vinnuferlinu lýst, þar með talið hvernig staðið verður að samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila þar sem tækifæri verður til að koma á framfæri hugmyndum og sjónarmiðum. Vefurinn verður aðgengilegur frá vefsíðum sveitarfélaganna. Frekari upplýsingar um verkefnið á þessu stigi veita sveitarstjórar.
Sjá einnig:
Svæðisskipulagsnefnd þriggja sveitarfélaga stofnuð
Samantekt um samráðsfund – óskað eftir viðbrögðum
Fyrsta skrefið til sameiningar sveitarfélaga?
Efnt til fundar um sameiningarmál
Mjög naumur meirihluti vill sameiningu