Samþykkt um búfjárhald komin á vefinn
Samþykkt um búfjárhald í Reykhólahreppi, sem samþykkt var í sveitarstjórn og síðan staðfest í ráðuneyti atvinnuvega og nýsköpunar núna í desember, er komin hér inn á vefinn (pdf-skjal). Hlutverk hennar er að tryggja skipulag, stjórnun og eftirlit með búfjárhaldi í lögsagnarumdæmi Reykhólahrepps. Sveitarstjórn, í samráði við skipulags-, bygginga-, húsnæðis- og hafnarnefnd, sem fer með málefni landbúnaðar skv. erindisbréfi, annast framkvæmdina.
Með búfjárhaldi í samþykkt þessari er átt við nautgripa-, hrossa-, sauðfjár-, svína-, kanínu-, loðdýra-, geita- og alifuglahald, sbr. lög um búfjárhald. Fram kemur meðal annars, að búfjárhald utan lögbýla er óheimilt án leyfis sveitarstjórnar Reykhólahrepps.
Samþykktina má sækja með því að smella hér og jafnframt er hana að finna undir Stjórnsýsla ► Samþykktir og reglugerðir í valmyndinni hér vinstra megin.