20. apríl 2010 |
Samvinnufundur Strandabyggðar og Reykhólahrepps
Í desember bauð sveitarstjórn Strandabyggðar sveitarstjórn Reykhólahrepps til fundar um ýmis sameiginleg hagsmunamál þessara sveitarfélaga. Vegna óviðráðanlegra orsaka gat ekki orðið af fundinum fyrr en í síðustu viku, þegar hann var haldinn á Café Riis á Hólmavík. Umræðuefnin voru fjölmörg. Meðal annars var rætt um samstarf sveitarfélaganna varðandi sorpmál og atvinnumál. Einnig möguleiki á að koma upp framhaldsdeild líkt og á Patreksfirði, sem fundinn væri staður t.d. milli Reykhóla og Dalabyggðar. Jafnframt voru ræddir möguleikar á samvinnu um rekstur tónlistarskóla í framtíðinni.
Rætt var hugsanlegt samstarf um uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. Fjallað var um aukið samstarf um sauðfjárveikivarnir og fjallskil. Sameiningarmál sveitarfélaga og hvernig bregðast skuli við áætlunum ríkisstjórnar í þeim efnum voru rædd og var ákveðið að bjóða Dalabyggð til viðræðna.
Af hálfu Strandabyggðar sátu fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri, Valdemar Guðmundsson oddviti, Rúna Stína Ásgrímsdóttir varaoddviti, Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson og Jón Stefánsson.
Frá Reykhólahreppi fóru Óskar Steingrímsson sveitarstjóri, Gústaf Jökull Ólafsson oddviti, Egill Sigurgeirsson varaoddviti, Karl Kristjánsson, Rebekka Eiríksdóttir og Sveinn Ragnarsson.