Segir brýna þörf á vegabótum um allt land
Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir aukinn fjölda ferðamanna ekki einu skýringuna á þeirri miklu umferðaraukningu sem mældist í síðasta mánuði. Umferð um vegi landsins aukist samhliða auknum hagvexti. Aldrei hefðu eins margir bílar ekið um mæla Vegagerðarinnar allt frá upphafi mælinga.
Þetta er meðal þess sem fram kom í samtali við vegamálastjóra í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í gær.
„Það þarf að ráðast í framkvæmdir fyrr en menn ætluðu, bara vegna umferðaraukningar, það hangir alveg saman. Því miður erum við búin að missa síðustu ár,“ segir Hreinn og vísar þar til niðurskurðar í vegaframkvæmdum og viðhaldi eftir hrun.
„En það hefur því miður ekki verið aukið við að neinu marki eftir að hagur okkar fór að batna og á sama tíma hefur umferðin aukist svona mikið. Þannig að það er virkilega komin upp mikil þörf á vegabótum, ekki bara í kringum höfuðborgina heldur úti um allt land. Sama hvort við erum að tala um umhverfisöryggismál eða slæma malarvegi.“
Nær útilokað að halda malarvegunum við (Sæmundur Kristjánsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Búðardal).