5. janúar 2010 |
Segir hrepparíg vera á undanhaldi á Vestfjörðum
Samvinna er lykillinn að árangri, segir Þorgeir Pálsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. Hann segir Vestfirðinga nú loks bera gæfu til að vinna saman að stórum verkefnum þótt fjöll og firðir skilji að. Félagið hefur komið mörgum misstórum atvinnuskapandi verkefnum á laggirnar síðustu ár og mörg þeirra eru ekki bundin við ákveðna þúfu. Þó að samvinna sé einfalt fyrirbæri er hún ekki alltaf sjálfsögð, sér í lagi þegar rótgróinn hrepparígur er þrándur í götu. Hann er þó á undanhaldi á Vestfjörðum að sögn Þorgeirs, sem segir hlutina hafa gengið vel síðustu árin.
„Verkefnum fjölgar sem ná þvert yfir alla Vestfirði og fyrirtækin taka þátt í verkefnum með það fyrst og fremst í huga hvað er vit í að gera, finnst mér. Við erum með verkefni núna sem telja allt að þrjátíu fyrirtæki og einstaklinga þvert á allar línur, þannig að mér finnst það mjög jákvætt merki um aukinn samstarfsvilja fyrirtækja." Þorgeir segir slíkt samstarf sé lykilinn að árangri og það sé öllum til góða.
Þetta kom fram í Svæðisútvarpinu.