Segir ríkisrefinn orsök fækkunar rjúpu
„Rjúpnastofninn fór að dala í takt við fjölgun tófunnar,“ sagði Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn við Ísafjarðardjúp. „En það er eins og að nefna snöru í hengds manns húsi að minnast á ref sem skaðræðisdýr hvort sem er í rjúpu eða öðru fuglalífi.“ Heimaslóðir Indriða voru mikið rjúpnaland en það hefur mikið breyst. „Ég hef ekki séð rjúpu með unga í allt sumar og í haust á þessum mögnuðu rjúpnaslóðum í kjarrlendinu hér í kringum mig og norðan Djúps,“ sagði Indriði.
Þetta kemur fram í frétt Guðna Einarssonar blaðamanns í Morgunblaðinu í gær. Þar segir einnig meðal annars:
„Rétt fyrir 1980 var talið að hér væru um 2.000 refir. Núna held ég að það sé verið að velta því fyrir sér hvort þeir séu 14-16 þúsund. Allir sem koma eitthvað nálægt grenjavinnslu og vetrarveiði vita hvílík ógnarleg fjölgun hefur orðið á ref alls staðar á landinu,“ sagði Indriði.
Hann telur að meint streita af völdum skotveiða á rjúpuna sé lítil miðað við áhrif refsins. „Hlíðarnar hér eru flúraðar á haustin af tófuslóðum eftir að kominn er snjór og ríkisrefurinn kominn norðan af Hornströndum. Rjúpurnar fá ekki neinn einasta frið, hvorki til að safna í sarpinn eða hvíla sig.“