Tenglar

11. september 2014 | vefstjori@reykholar.is

Segir slæma vegi hamla framförum

Þetta kort fylgir fréttaskýringunni í Morgunblaðinu.
Þetta kort fylgir fréttaskýringunni í Morgunblaðinu.
1 af 2

Slæmar samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum hamla framþróun þar og samstarfi á milli sveitarfélaga á svæðinu. Torsótt getur verið að sækja grunnþjónustu og löngu tímabært að taka samgöngumál á svæðinu föstum tökum. Þetta segir Ólafur Sæmundsson, formaður Patreksfirðingafélagsins, sem ásamt Guðmundi Bjarnasyni, formanni Arnfirðingafélagsins, sendi öllum þingmönnum bréf fyrir skömmu þar sem skorað var á þá að beita sér fyrir vegabótum við Vestfjarðaveg nr. 60 milli Bjarkalundar og Melaness þannig að hann liggi í gegnum stuttan kafla í Teigsskógi í Þorskafirði.

 

Þetta kemur fram í fréttaskýringu Önnu Lilju Þórisdóttur í Morgunblaðinu í dag undir ofanritaðri fyrirsögn. Þar segir einnig meðal annars:

 

Þessi vegagerð hefur verið bitbein í mörg ár, hún er sögð raska skóglendi, málið hefur verið á borðum fjölmargra ráðherra og endað fyrir Hæstarétti. Sveitarstjórnir á svæðinu hafa lagt áherslu á að lagður verði láglendisvegur um svæðið. Í sumar sendi Vegagerðin Skipulagsstofnun tillögu að matsáætlun, þar sem m.a. kemur fram að vegurinn yrði lagður í gegnum 2,15 km kafla í gegnum skóginn, en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir talsvert lengri kafla í gegnum skóginn.

 

Að sögn Hreins Haraldssonar vegamálastjóra hefur svar við tillögunni enn ekki borist frá Skipulagsstofnun, en þess sé líklega að vænta innan tíðar. Hreinn segir samgöngubætur á sunnanverðum Vestfjörðum afar mikilvægar og að þessi tiltekni kafli sem hér um ræðir sé eini hluti Vestfjarðavegar sem eftir sé að hefja framkvæmdir við. Áætlað sé að vegagerð í Kjálkafirði og Kerlingarfirði ljúki á næsta ári, en koma eigi umferð á veginn þar núna í vetur, þó að slitlag verði ekki komið þar á.

 

„Þetta er sá kafli í vegakerfinu sem er síðastur á dagskrá og satt best að segja átti að vera búið að klára þetta,“ segir Hreinn um Vestfjarðaveginn. Einnig segir hann meðal annars: Við hjá Vegagerðinni erum 100% sammála heimamönnum um að þessar vegabætur hefði þurft að fara í miklu fyrr.“

 

„Málið hefur verið á byrjunarreit í 12 ár og ástæðan er að friðunarsjónarmið í Teigsskógi hafa haldið málinu í gíslingu,“ segir Ólafur. „Vegur um Teigsskóg uppfyllir öll skilyrði sem eru gerð um umferðaröryggi, snjómokstur og viðhald. Hann er á láglendi og kostnaður við rekstur vegarins yrði í lágmarki. Umhverfissinnar hafa lagt til jarðgöng, sem kosta 3 milljörðum meira en að leggja þennan veg. Fyrir þá peninga væri t.d. hægt að tvöfalda nokkrar brýr eða kaupa ný tæki á hjartadeild Landspítalans. Eru trjáplöntur, krækiberjalyng og þessir tveir sumarbústaðir í Teigsskógi virkilega 3.000 milljóna króna virði? Fyrir utan það að vegurinn myndi taka óverulegan hluta af skóginum.“

 

Spurður um hvort viðbrögð hafi borist við áðurnefndu bréfi segir Ólafur nokkra þingmenn hafa svarað, flestir séu þeir nýir á þingi og þeir hafi sýnt málinu talsverðan áhuga. „Ég held að flestir vilji að umferðaröryggi í þessum landshluta sé það sama og annars staðar á landinu.“

 

Nú er um tvo hálsa að fara á þessari umræddu leið, Ódrjúgsháls og Hjallaháls. Að sögn Ólafs er skilti við þann fyrrnefnda, þar sem segir að brattinn sé 16%. „En reglugerðir um evrópska vegi segja að þeir megi ekki vera meira en 8% og bílar eru framleiddir með það í huga. Annars eru sumir veganna á svæðinu frá miðri síðustu öld,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið í dag.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31