Tenglar

29. apríl 2016 |

Segir vegakerfið koma í veg fyrir landsbyggðarþróun

Frá þjóðveginum um Fellsströnd í Dalabyggð. Ljósm. Skessuhorn.
Frá þjóðveginum um Fellsströnd í Dalabyggð. Ljósm. Skessuhorn.

Að mati Helgu Arnarsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), er það áhyggjuefni að fjárfesting ríkisins í vegaframkvæmdum hafi ekki verið í takti við fjölgun ferðamanna undanfarin ár. „Slakt vegakerfi kemur í veg fyrir alla landsbyggðar-þróun enda eru samgönguinnviðir lífæð ferðaþjónustu og forsenda byggðaþróunar,“ segir Helga, en útlit er fyrir að fjárfesting færist í meira mæli út á landsbyggðina næstu ár.

 

„Þá má ekki gleyma öryggisþættinum sem við erum farin að hafa verulegar áhyggjur af. Það er því óskiljanlegt að áætlað fjármagn sem hluti af vergri landsframleiðslu til uppbyggingar samgöngumannvirkja hefur ekki verið lægra síðan árið 1953.“

 

Þetta er meðal þess sem fram kemur í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag. Þar er jafnframt vitnað í úttekt SAF á fjárfestingu í ferðaþjónustu, þar sem áætlað er að hún hafi verið rúmlega 62 milljarðar króna í fyrra, eða um fimmtungur af heildaratvinnufjárfestingu ársins. Þá er gert ráð fyrir því að fjárfesting í ferðaþjónustu nemi um 20 milljörðum króna í hótel- og gistirými í ár.

 

Mest var fjárfestingin á síðasta ári í hótel- og veitingahúsarekstri, eða um 27 milljarðar króna, og í flugrekstri, eða um 16 milljarðar króna. Þá voru fjárfestingar í bílaleigubílum og hjá fjölbreyttum hópi ferðaskipuleggjenda í mismunandi afþreyingarstarfsemi um 19,5 milljarðar króna.

 

Á síðasta ári kom tæplega 1,3 milljón erlendra ferðamanna til Íslands eða nærri 30% fleiri en árið áður. Búist er við enn frekari fjölgun í ár.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31