Sérmerking vestfirskra matvæla kynnt á Reykhólum
Fundir til kynningar á matvælaverkefninu Veisla að vestan sem Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða (Atvest) hefur staðið fyrir undanfarna daga hafa gengið vel og hafa um 60 manns komið á þá. Til stendur að hafa tvo slíka fundi til viðbótar á næstunni, á Reykhólum og í Árneshreppi. Hannað hefur verið merki fyrir Veislu að vestan sem notað verður í allri markaðssetningu, sem og til að merkja vestfirsk matvæli til að gera þau sýnilegri í verslunum og á veitingastöðum. Allir geta tekið þátt í verkefninu en til að nota merkið og taka þátt í sameiginlegri markaðssetningu þarf viðkomandi fyrirtæki að vera með gilt starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða.
Veisla að vestan er þróunarverkefni í matartengdri ferðaþjónustu. Tilgangur þess er fyrst og fremst að vekja athygli á vestfirskum matvælum, sem mun leiða af sér aukinn sýnileika og aukna veltu þeirra fyrirtækja sem vinna með vestfirskt hráefni.
Fjöldi fyrirtækja skráði sig til þátttöku og eru mjög spennandi verkefni framundan næstu misseri, segir í tilkynningu frá Atvest. Meðal verkefna sem eru framundan er markaðssetningarvinna í samvinnu við Markaðsstofu Vestfjarða, en þátttakendum í Veislu að vestan verða gerð góð skil á heimasíðu stofunnar.
Þá mun Veisla að vestan taka þátt í kokkakeppni sem nefnist Íslenskt eldhús 2009, en hún verður haldin á ferðasýningunni sem fer fram dagana 8.-10. maí í Laugardagshöll. Markmið keppninnar er að kynna það besta sem hver landshluti hefur að bjóða í mat og vekja athygli á mikilvægi þess að fólk læri að meta hvað Ísland hefur að bjóða sem matarkista. Þar munu landshlutarnir keppa sín í milli og að sjálfsögðu mun verða stuðst við það hráefni sem þátttakendur í Veislu að vestan vinna með.
Hafi fyrirtæki áhuga á að taka þátt í þessu er þeim bent á að hafa samband við Ásgerði Þorleifsdóttur, verkefnisstjóra hjá Atvest, í síma 450 3053 eða í netfangið asgerdur@atvest.is.