Tenglar

5. janúar 2014 | vefstjori@reykholar.is

Sérstillum búnaðinn inn á hjartslátt Reykhóla

Garðar Stefánsson og Søren Rosenkilde og hafmeyjan í Breiðafirði.
Garðar Stefánsson og Søren Rosenkilde og hafmeyjan í Breiðafirði.

Saltgerðarmennirnir Garðar Stefánsson og Søren Rosenkilde hjá Norðursalti (Norður & Co.) á Reykhólum hafa ekki farið varhluta af byrjunarörðugleikum frekar en aðrir frumkvöðlar sem nota nýja hönnun og nýja tækni.

 

„Við reiðum okkur á tæknina til að fá sem allra mest afköst ásamt því að gæðin séu eins mikil og nokkur kostur er. Þarna höfum við lent í ýmsum vandamálum, eins og með heita vatnið og saltsuðupönnurnar. Við lentum í því rétt fyrir formlega opnun að önnur pannan gaf sig vegna galla. Það þurfti að hanna pönnurnar upp á nýtt og auðvitað olli þetta töfum. Við þurftum að senda þær suður sitt í hvoru lagi til að við gætum þó haldið framleiðslunni áfram með annarri,“ segir Garðar.

 

„Við erum enn að fást við að stilla vatnstankinn. Heita vatnið hér á Reykhólum hefur alveg sérstakan karakter. Hitastigið er breytilegt, þrýstingurinn er breytilegur, vatnsmagnið rokkar til og frá og þar að auki er loft í vatninu. Í þessu öllu erum við búnir að lenda en núna erum við búnir að leysa úr þessu að mestu leyti,“ segir hann.

 

„Frá því að þetta ferli hófst hérna fyrir meira en ári síðan eða haustið 2012 er ýmislegt búið að gerast. Þetta hefur verið mjög skemmtilegur tími, ótrúlegir hlutir hafa gerst á skömmum tíma. Vissulega hefur ekki allt gengið snurðulaust eða áfallalaust eins og ég sagði, en við höfum horfst í augu við vandamálin, tekið á þeim og unnið úr þeim. Þessi tími hefur þannig verið bæði erfiður og skemmtilegur. Það er mjög viðamikið að koma á fót fyrirtæki og kannski ekki alveg bein braut. Þetta kemur inn á svo ótalmarga þætti.“

 

Þeir félagar segja að framtíðin sé björt. „Við lögðum allt í undirbúninginn en gerðum okkur alls ekki fulla grein fyrir þeim vandamálum sem komu upp, en það er bara eðlilegt þegar farið er af stað með svona algerlega nýja tækni. Sitthvað hefur verið öðruvísi en við bjuggumst við, en þessar sérstöku aðstæður hérna á Reykhólum bjóða einmitt upp á alveg einstaka framleiðslu. Við sérstillum búnaðinn inn á hjartslátt Reykhóla, heita vatnið sem staðurinn dregur nafn sitt af. Núna liggur fyrir að þegar við verðum búnir að fá kerfið til að fúnkera til hlítar, búnir að ná að stilla það rétt, þá fáum við meiri afköst en við reiknuðum með í byrjun. Flögusaltið okkar hérna á Reykhólum er einstakt, bæði vegna efnasamsetningarinnar í sjónum og vegna þess hvernig heita vatnið hérna er. Okkar sýn er að vera „öðruvísi“ fyrirtæki sem nálgast hlutina á annan hátt en almennt gerist, umhverfisvænt fyrirtæki sem býður vörur sínar á góðu verði. Og ekki síður að allt fái að njóta sín, hvort sem það er starfsfólkið eða hönnunin á umbúðunum eða annað.“

 

Garðar og Søren segjast vera þakklátir fyrir allan kraftinn á Reykhólum, ekki bara í heita vatninu í iðrum jarðar heldur líka í fólkinu. „Við höfum fundið einstakan stuðning frá fólkinu á Reykhólum og sveitarstjórnarfólki og bændum í héraðinu sem hafa bankað upp á hjá okkur og allir hafa viljað rétta okkur hjálparhönd. Líka höfum við fengið mikla hjálp frá Þörungaverksmiðjunni, ekki bara heita vatnið heldur líka faglegan stuðning. Öll þessi velvild frá samfélaginu hér er okkur óskaplega mikilvæg,“ segir Søren Rosenkilde.

 

Þeir félagar fara á tvær kaupstefnur í Þýskalandi á næstunni. Sú fyrri er Alþjóðlega græna vikan (Internationale Grüne Woche) sem haldin verður í Berlín dagana 17.-26. janúar. Græna vikan í Berlín er helguð matvælum, landbúnaði og garðyrkju og á heimasíðu hennar segir að hún sé sú stærsta í heiminum sinnar tegundar. Seinni kaupstefnan heitir BIOFACH2014 og verður í Nürnberg í Suður-Þýskalandi um miðjan næsta mánuð. Þar fá eingöngu lífrænar eða vistvænar vörur aðgang. „Þýskaland er mjög spennandi markaður þar sem unnið hefur verið í áratugi að þróun vistvænnar, lífrænnar og sjálfbærrar framleiðslu, segir Søren. „Margir bæði í Danmörku og hér á Íslandi þekkja þýsku bio-vörurnar, lífrænu framleiðsluna í Þýskalandi. Við teljum okkur vera með vöru sem passar vel í þessu samhengi.“

 

Næst á dagskrá hjá þeim félögum þegar búið verður að slípa burt alla hnökra varðandi flögusaltið er að koma af stað garum-framleiðslunni sem hér hefur verið greint frá. „Við komum henni í gang um leið og við erum búnir að auka framleiðslugetuna á saltinu og koma henni í meiri rútínu. Við erum með uppskriftina að sósunni alveg á hreinu enda er hún aldagömul, við erum búnir að grafa eftir þessu í gömlum heimildum. Lykillinn að góðri garum-sósu er að makríllinn fái að brotna nógu vel niður í saltinu,“ segir Garðar Stefánsson.

 

Þeir Garðar og Søren skruppu vestur á Reykhóla núna eftir áramótin, eins og færðin var nú skemmtileg og veðrið til ferðalaga. Myndin var tekin í kaffistofunni hjá Norðursalti og jólatréð á sínum stað. Hafmeyjan gægist fram á milli þeirra félaga.

 

Nýtt fólk á Reykhólum frá Brasilíu og Danmörku

 

saltpakki

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Mars 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31