Setta í Skógum fór suður en fékk ekki gleraugu
Sesselja Helgadóttir í Skógum í Þorskafirði (Setta í Skógum) er ein af átta konum sem sagt er frá (eða rætt við) í bókinni Vestfirskar konur í blíðu og stríðu, 2. bindi, sem nýkomin er út hjá Vestfirska forlaginu og Finnbogi Hermannsson fyrrverandi útvarpsmaður í Hnífsdal skráði. Eins og fram hefur komið verður Reykhóladeild Lions með bækur Vestfirska forlagsins til sölu á Jólamarkaðinum í Króksfjarðarnesi um helgina sér til fjáröflunar. Eftir það verða þær til sölu í Hólakaupum á Reykhólum í þágu Lions án þess að verslunin taki krónu af söluverðinu.
Sesselja fæddist að Seljalandi í Gufudalssveit árið 1875, dóttir hjónanna Kristjönu Þórðardóttur og Helga Björnssonar bónda og hreppstjóra í Berufirði í Reykhólasveit. Hún var elst fjögurra systkina og var í foreldrahúsum fram undir tvítugt. Eftir að Helgi faðir hennar lést eftir margra ára heilsuleysi árið 1895 fluttu þær mæðgur í Hvallátur á Breiðafirði þar sem bjuggu hjónin Ólína Jónsdóttir og Ólafur Bergsveinsson. Sesselja og Ólína voru systkinadætur.
Þarna í Breiðafirðinum dvöldu þær mæðgur í fjórtán ár. Fluttu þá upp á landið og vann Sesselja á ýmsum stöðum fyrir kindafóðrum en hún hafði alltaf í huga að koma sér upp fjárstofni og byrja að búa á einhverju kotinu. Komið er fram á árið 1927 þegar þær mæðgur flytja að Skógum í Þorskafirði sem nafn þjóðskáldsins Matthíasar hefur haldið á lofti og alltaf síðan hefur verið ljómi yfir bæjarnafninu. Kristján bóndi á Kollabúðum hafði hálfa Skógana en vorið eftir hefst búskaparsaga Sesselju í Skógum í Þorskafirði. Þar með fékk hún sjálfstæðisþrá sinni fullnægt, að vera sinn eiginn húsbóndi með sinn eiginn fjárstofn. Um veturinn deyr móðir hennar og varð Sesselja þar með einbúi í Skógum og var það í tæpan aldarfjórðung.
Sesselja bjó í Skógum árið um kring nánast alveg fram til 1951. Eftir það nytjaði hún jörðina en átti vetursetu á ýmsum bæjum í hreppnum. Hafði hún kindur sínar með sér og fóðraði þær á eigin heyi.
Árið 1971 var síðasta sumar Sesselju Helgadóttur í Skógum en nokkrum árum áður var hún flutt til mágkonu sinnar Jóhönnu Magnúsdóttur og barna hennar á Skáldstöðum í Reykhólasveit. Sesselja varð hundrað ára og hálfu betur. Hún lést á Sankti Franciskusspítalanum í Stykkishólmi sumarið 1976.
Setta í Skógum gerði tvær reisur til Reykjavíkur um ævina svo vitað væri. Árið 1957 frétti Magnús Bjarnfreðsson ritstjóri vikublaðsins Fálkans af komu Sesselju og var hún þá komin á níræðisaldur. Magnús átti við hana viðtal og merkileg ljósmynd var tekin af gömlu konunni þar sem hún hampaði 200 ára gamalli Vídalínspostillu. Kona nokkur í Reykjavík hafði falað postilluna af henni og hún hugðist láta hana og veitti kaupanda sjálfdæmi um verðið. Ætlaði svo að gefa andvirðið til byggingar Hallgrímskirkju því hún hafði löngum styrkt kristileg mál, svo sem kristniboðið í Konsó, ætti hún eitthvað aflögu.
Erindi Sesselju Helgadóttur til Reykjavíkur í þetta sinn var að fá sér gleraugu. Hálfníræð manneskja hlaut að þurfa gleraugu! Augnlæknar höfuðborgarinnar fundu hins vegar akkúrat ekkert að sjóninni hjá Sesselju og fór hún eins gleraugnalaus vestur og hún kom suður.
Aftur fór Sesselja suður þegar Sjónvarpið var nýbyrjað að senda út og hefur það verið árið 1966 eða litlu síðar. Svanfríður Guðrún Gísladóttir frænka hennar sem búsett er í Súðavík var þá í Reykjavík og hitti Sesselju. Minnist hún þess þegar Setta sá sjónvarp í fyrsta skipti í húsi í Reykjavík, var spurul og mjög spennt að fylgjast með, manneskjan um nírætt. Sesselja var vel til fara og við þetta tækifæri var hún í ljómandi fallegum ermalöngum kjól og vel til höfð, segir frænka hennar.
Meðfylgjandi myndir af Settu og kotinu hennar voru teknar árið 1951 eða fyrir réttum sextíu árum, þegar hún hætti að búa í Skógum árið um kring.
22.11.2011 Lionsfólk í Reykhólahreppi selur Bækurnar að vestan
Jólamarkaðurinn í Króksfjarðarnesi
Þrymur Sveinsson, fstudagur 25 nvember kl: 18:33
Til er ágætis viðtal við Settu í bók Árna Óla Blárra tinda blessað land útg. 1949. Þá komu Árni og Jón í Mýrartungu til hennar. Út kom fróðlegt viðtal. Sérlega þar sem hún lýsir þeim þjáningum sem pabbi hennar leið eftir að hann slasaðist.