Tenglar

3. desember 2011 |

Sextán athugasemdir vegna fjögurra lóða

Margir líta eflaust hýru auga til fjögurra lóða sem Reykhólahreppur áætlar að úthluta í náttúruperlunni Flatey á Breiðafirði. Þar eru fyrir vel varðveitt hús sem sýna þorpsmynd 19. aldar, hús sem mörg hver hafa gengið í gegnum endurnýjun lífdaga og eru afar falleg. Lóðirnar fjórar eru við svokallaðan Tröllenda, vinstra megin við veginn sem genginn er frá höfninni í átt að þorpinu, meðal annars gegnt sumarhúsi stjórnarráðsins sem byggt var á áttunda áratug liðinnar aldar.

 

Þannig byrjar frétt í nýjasta Fréttatímanum. Framhald hennar fer hér á eftir í heild.

 

Deiliskipulag svæðisins hefur verið samþykkt en þar er gert ráð fyrir að lóðirnar verði um þúsund fermetrar að stærð. Strangar kröfur eru gerðar um útlit húsanna og taka ber mið af þeirri byggð sem fyrir er. Sveinn Ragnarsson, formaður skipulags-, bygginga-, húsnæðis- og hafnarnefndar Reykhólahrepps, reiknar með því að meðal annars verði skilyrt standandi timburklæðning eða bárujárnsklæðning í einhverri mynd. Skipulagsnefnd hefur lagt til við hreppsnefnd að farin verði útboðsleið við úthlutun lóðanna í Flatey og sett lágmarksverð á hverja lóð. „Þær verða örugglega töluvert dýrar miðað við sambærilegar byggingarlóðir annars staðar,“ segir Sveinn. Árum saman hafa menn spurst fyrir um byggingarlóðir í Flatey og áhuginn hefur aukist nú eftir að úthlutun lóðanna fjögurra spurðist út.

 

En ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið. Eftir að skipulagið var auglýst bárust sextán athugasemdir vegna lóðaúthlutunarinnar, frá einstaklingum sem eignir eiga í Flatey, Vatnsveitu Flateyjar, Fornleifanefnd ríkisins, Breiðafjarðarnefnd og Framfarafélagi Flateyjar.

 

„Það er full sterkt að orða það þannig að um andmæli gegn framkvæmdunum sé að ræða en athugasemdirnar eru flestar nokkuð samhljóða, til dæmis áhyggjur af vatnsbólum og frárennsli auk kröfu um sterka eftirfylgni með framkvæmdum. Þessar athugasemdir er ekki hægt að leggja til hliðar, þær verður að taka til skoðunar og það er það sem við erum að gera núna. Húseigendur sem fyrir eru leggjast alls ekki gegn því að þarna komi byggð en neysluvatn er takmörkuð auðlind og gætilega þarf að fara með frárennsli. Þeir vilja því að skýr grein sé gerð fyrir því að vatn sé takmarkað,“ segir Sveinn.

 

Hann segir vatnsveitu vera í Flatey en sveitarfélagið sé ekki beinn aðili að henni. Þegar fólk er flest á sumrin er vatn flutt með flóabátnum Baldri út í Flatey.

 

„Aðalatriðið er,“ segir Sveinn, „að ígrundað sé áður en byrjað verður á framkvæmdum hvernig ljúka á málinu. Ég þori því hvorki að svara því játandi né neitandi hvort þessi hús muni rísa. Málið verður að skoða. Komi fram við þá skoðun að vandamál, til dæmis við frárennsli, verði ekki leyst nema með mjög dýrum aðgerðum er ósennilegt að í framkvæmdirnar verið ráðist.“

 

Sveinn segir að skipulagsyfirvöld í Reykhólahreppi hafi verið bjartsýn á það, eftir samþykkt deiliskipulags, að hægt yrði að ganga frá útboðum lóðanna síðla vetrar eða næsta vor, „en ég held,“ segir hann, „að það muni dragast lengur en það.“

 

Fréttatíminn (á vefnum má m.a. lesa blaðið í heild, bæði sem e-blað og á pdf-formi)

 

Athugasemdir

Guðrún Marta Ársælsdóttir, sunnudagur 11 desember kl: 14:34

Góðan dag!

Við undirrituð, getum ekki lengur orða bundist sem HÚSEIGENDUR og ÍBÚAR í Flatey. Í frétt í Fréttatímanum 2.-4.desember sl. er haft eftir Sveini Ragnarssyni í undirfyrisögninn "að íbúar í Flatey leggist ekki gegn nýbyggingum". Seinna í fréttinni er eftirfarandi haft eftir honum; "Húseigendur sem fyrir eru leggjast alls ekki gegn því að þarna komi byggð". Nú erum við bæði HÚSEIGENDUR OG ÍBÚAR í Flatey og vitum ekki betur en að við höfum sent inn athugasemdir vegna fyrirhugaðrar sumarhúsabyggðar á Tröllaenda, VIÐ FULLYRÐUM að allir ÍBÚAR Flateyjar leggjast alfarið gegn byggingu sumarhúsa á þessu svæði. Við bendum á að öll vatnsmál eru kostuð af einkaaðilum í eynni hvort sem það er brunnagerð eða vatnsflutningar með Ferjunni.
Því finnst okkur hart að sveitarstjórn okkar skuli leyfa sér að setja þessi miklivægu mál í uppnám með því að ætla að leyfa byggingu meðal annars, 290 FERMETRA SUMARHÚSS á aðalvatnssöfnunarsvæði fyrir Byggðarenda, Læknishús og Sjávarslóð. Brunnvatn er eina vatnið sem þessi hús hafa.

Flatey þolir ekki meiri ágang . Það er farið að stórsjá á fuglalífi eyjarinnar sökum umferðar og getum við í því tilliti bent á að á Tröllenda var til skamms tíma þéttasta hrossagauksvarp í Evropu. Í sumar komu ungar úr tveimur hreiðrum á svæðinu. Á þessu svæði er viðkvæmt andavarp við tjarnir og mikið mófuglalíf sem þarf að vernda.
Viljum við því biðja sveitarstjórn að stíga varlega til jarðar og hugsa til framtíðar þessarar náttúruperlu sem Flatey er.

Virðingarfyllst.
Guðrún Marta Ársælsdóttir
Baldur Ragnarsson
Byggðarenda Flatey

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31