Síðasti samráðsfundur ríkisvaldsins og Vestfirðinga
Góður árangur hefur verið af samráðsvettvangi um eflingu atvinnu og byggðar á Vestfjörðum. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu forsætisráðuneytis og Fjórðungssambands Vestfirðinga, en eins og kunnugt er ákvað ríkisstjórnin í vor að grípa til margþættra aðgerða á Vestfjörðum. Aðgerðir tóku mið af opinberum aðgerðum og hluta til af stefnumótun vestfirskra sveitarfélaga í atvinnu- og byggðamálum. Undanfarna mánuði hafa verið haldnir þrír fundir á samráðsvettvangi þar sem fulltrúar ríkisstjórnar og heimamanna hafa hist og unnið að verkefnunum í sameiningu. Fjórði og síðasti fundurinn er í dag.
Ríkistjórnin setti sér eftirfarandi markmið með verkefnunum:
Að bregðast við samdrætti á Vestfjörðum með forgangsröðun verklegra framkvæmda hins opinbera. Bregðast við alvarlegu atvinnuástandi á Flateyri. Jöfnun búsetuskilyrða og aðgerðir í velferðarmálum. Efla menntun, rannsóknir og opinbera starfsemi. Heildarfjárhæð til þessara aðgerða er metin um 5,4 milljarðar króna. Um fjórir milljarðar var fé af samgönguáætlun 2009-2012 sem var forgangsraðað með tilliti til verkefna á Vestfjörðum. Einn milljarður kom í forgangi úr Ofanflóðasjóði, 350 milljónir voru nýtt fé til vegamála og rúmlega 100 milljónir dreifðust á 12 verkefni á sviði velferðar, mennta- og byggðamála. Auk þess var unnið að málum er snúa að jöfnun flutningskostnaðar og húshitunarkostnaðar, þau rædd og leidd í farveg.
„Lauslega áætlað má reikna með að þessi verkefni muni til samans leiða af sér á næstu tveimur árum um 240 tímabundin störf. Meginhluti þessara starfa eru tímabundin jarðvinnuverkefni og átaksverkefni vegna atvinnuástands, en þó má gera ráð fyrir því að 10 framtíðarstörf skapist m.a. með því að festa í sessi og efla starfsemi stofnana á svæðinu. Reynsla af sambærilegum aðgerðum gefur til kynna að þær muni hafa ákveðin margfeldisáhrif og jákvæð langtímaáhrif á efnahag og samfélög á Vestfjörðum“, segir á vef forsætisráðuneytisins.
„Samráðsvettvangur í samskiptum ráðuneyta og sveitarfélaga er nýr af nálinni og hefur sá samvinnuháttur sem þar hefur verið iðkaður mælst vel fyrir og vonin er sú að vinnulagið hafi í för með sér bætt og breytt samstarf sveitarfélaga og ráðuneyta í gegnum landshlutasamtök. Horft verður til að reynsla af þessu vinnulagi verði nýtt við framkvæmd sóknaráætlunar landshluta og framkvæmd markmiða sem sett eru fram í stefnumarkandi skjali stjórnvalda, Ísland 2020“, segir á vef forsætisráðuneytisins.
Verkefnin eru eftirfarandi, horft til markmiða ríkisstjórnar og sveitarfélaga.
I. Aðgerðir vegna efnahagslegs samdráttar og efling innviða
Markmið aðgerðanna er að hafa jákvæð skammtímaáhrif með tímabundinni fjölgun starfa auk áhrifa af umsvifum verktaka, en jafnframt jákvæð langtímaáhrif með bættum samkeppnisskilyrðum efnahagslífs og samfélaga á Vestfjörðum.
Ofanflóðavarnir á Vestfjörðum
Undirbúningi framkvæmda vegna tveggja verkefna við ofanflóðavarnir hefur verið hraðað þannig að framkvæmdir geti hafist vorið 2012. Annars vegar varnir undir Gleiðarhjalla á Ísafirði og hins vegar gerð varnargarðs á Patreksfirði. Verkefnin fela í sér u.þ.b. 70 ársverk á verktíma. Verkefni á ábyrgð umhverfisráðuneytis.
Áætlað framlag vegna ofanflóðaverkefna er um 1 milljarður króna og dreifist á árin 2012 og 2013.
Vegaframkvæmdir á Vestfjörðum, samþykkt á samgönguáætlun 2009-2012
Nýbyggingar
• Vestfjarðavegur um Skálanes, framkvæmdin er hafin og áætlað að ljúki að mestu á þessu ári.
• Vestfjarðavegur Eiði-Þverá, framkvæmdin er í umhverfismati og skipulagsferli, að óbreyttu er þess vænst að útboð verði undir lok ársins og framkvæmdir geti hafist á árinu 2012.
• Strandavegur í Steingrímsfirði, skipulagsferli lokið og vænst er að hluti framkvæmdar geti hafist síðar á þessu ári og ljúki á árinu 2012.
Aðrar vegaframkvæmdir á Vestfjörðum
Til viðbótar við þau verkefni sem eru á samgönguáætlun var samþykkt að sett verði af stað ný verkefni fyrir 350 milljónir króna. Samkvæmt faglegu mati Vegagerðar verður ráðist í verkefni um fækkun fjögurra einbreiðra brúa á Barðaströnd og í botni Álftafjarðar. Framkvæmdir eru að hefjast á hluta þessara verkefna en þeim verður ekki endanlega lokið fyrr en um mitt ár 2012.
Áætluð framlög til þessara samgönguverkefna er áætlaður um 4,3 milljarðar króna sem dreifist á árin 2011-2013.
II. Aðgerðir vegna alvarlegs atvinnuástands á Flateyri
Átaksverkefni á ýmsum sviðum, vinnumarkaðsúrræði
Sett voru upp átaksverkefni innan Vinnumálastofnunar á Ísafirði, með áherslu á störf á Flateyri. Framkvæmd verkefnisins var á forræði Vinnumálastofnunar og bæjarstjórnar Ísafjarðar og hefur þegar verið gengið frá liðlega 20 samstarfssamningum til nokkurra mánaða við einstaklinga á Flateyri. Verkefnið er samstarfsverkefni Fjórðungssambands Vestfirðinga og velferðarráðuneytis.
Aukaframlag til Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða
Bætt verði við tveimur 120 stunda fræðslunámskeiðum á Flateyri og einu 120 stunda fyrir Íslendinga, samtals 360 kennslustundir. Námskeiðin hefjast í september og þeim lýkur í nóvemberlok. Verkefnið er samstarfsverkefni Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og mennta- og menningarmálaráðuneytis.
Öldrunarþjónusta, samstarf, heimahjúkrun o.fl.
Ráðist hefur verið í samstarfsverkefni um öldrunarþjónustu einkum á Flateyri. Verkefnið er samstarfsverkefni velferðarráðuneytis og sveitarfélaganna og fjármagnað í gegnum Heilbrigðisstofnunina á Ísafirði.
III. Jöfnun búsetuskilyrða og aðgerðir í velferðarmálum
Samstarf um byggingu hjúkrunarheimilis á Ísafirði og endurbyggingu hjúkrunarheimilis í Bolungarvík skoðað m.t.t. leiguleiðar: Unnið er að útfærslu verkefnisins af hálfu velferðaráðuneytisins og hlutaðeigandi sveitarfélaga. Stefnt að því að niðurstaða náist eins fljótt og kostur er.
Öldrunarheimilið Barmahlíð, Reykhólasveit
Starfsemi varin og rýmum ekki fækkað. Horfið hefur verið frá því að fækka hjúkrunarrýmum á Barmahlíð á Reykhólum og fjöldi dvalar- og dagvistarrýma verður óbreyttur. Verkefnið var samstarfsverkefni Reykhólahrepps og velferðarráðuneytis.
Raforkumál
Samráðsvettvangur stjórnvalda og sveitarfélaga á Vestfjörðum rýnir skýrslu um „Orkuöryggi á Vestfjörðum – Áhrif á samkeppnisstöðu og atvinnuþróun“ og fylgir eftir með aðgerðum til úrbóta. Verkefni á ábyrgð iðnaðarráðuneytis og Orkustofnunar.
Húshitunarkostnaður
Unnið hefur verið með samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum að lækkun og jöfnun húshitunarkostnaðar. Verkefni er á vegum iðnaðarráðuneytis.
Flutningskostnaður
Sett verður fram áætlun um jöfnun flutningskostnaðar innan ramma nýrrar efnahagsáætlunar. Tillögur liggi fyrir við fyrstu endurskoðun áætlunarinnar í haust. Verkefnið er á ábyrgð efnahags- og viðskiptaráðuneytis.
IV. Efling menntunar, rannsókna og opinberrar starfsemi
Samstarf háskóla-, þekkingar- og fræðasetra á Vestfjörðum
Tveggja ára þróunar- og uppbyggingarverkefni á sviði menntunar og rannsókna sem hefur að markmiði að efla mannauð, samþætta og styrkja grunnstoðir og vinna að nýsköpun. Þegar hefur verið auglýst eftir umsóknum. Verkefnið er samstarfsverkefni Fjórðungssambands Vestfirðinga og mennta- og menningarmálaráðuneytis.
Tryggt verði áframhaldandi gott framboð á námi á framhaldsskólastigi á Vestfjörðum
Tryggður verði áframhaldandi rekstur framhaldsdeildar Fjölbrautaskóla Snæfellinga á Patreksfirði auk þess sem stoðir Menntaskólans á Ísafirði verði styrktar. Verkefnið er samstarfsverkefni viðkomandi skólastofnana og mennta- og menningarmálaráðuneytis.
Skráning gagna fyrir Þjóðskjalasafn Íslands
Héraðsskjalasafn Ísafjarðar og Þjóðskjalasafn Íslands hafa um árabil átt árangursríkt samstarf um skráningarverkefni. Verkefnið lagðist af í upphafi árs en ákveðið var að leggja til verkefnisins sex milljónir og ákvað Ísafjarðarbær í kjölfarið að bæta við verkefnum og með því er gert er ráð fyrir að ráða megi í tæp þrjú stöðugildi.
Látrabjargsstofa
Sett verður á fót Látrabjargsstofa (Látrastofa) og þar með hrint af stað verkefni sem frestað var árið 2009 vegna efnahagsástands. Starfsmaður hefur þegar hafið störf, hefur hann umsjón og eftirlit með svæðinu sem kennt er við Látrabjarg – Rauðasand. Þessi nýja staða gefur einnig aukið færi á að hrinda af stað verkefni um mótun framtíðarsýnar og skipulags svæðisins í samstarfi við heimamenn. Verkefnið er á ábyrgð Vesturbyggðar og umhverfisráðuneytis.
Starfsemi Fjölmenningarseturs á Vestfjörðum verði tryggð
Starfsemi Fjölmenningarseturs verður tryggð með löggjöf um aðlögun innflytjenda. Starfsemin fagnar nú 10 ára afmæli og hefur verið á vegum stjórnvalda sem verkefnabundin starfsemi. Unnið er að gerð frumvarps um málefni innflytjenda og verður það lagt fram á vorþingi 2012. Málefni Fjölmenningarseturs eru á ábyrgð velferðarráðuneytis.
Melrakkasetur
Undirstöður Melrakkasetur Íslands á Súðavík tryggðar með þjónustusamningi og þar með eru rannsóknir og þekking á lífsháttum refs á Íslandi efldar verulega. Verkefni er á vegum umhverfisráðuneytis.
Framlög við liði III og IV sem sett verða í framkvæmd á árinu 2011 eru metin allt að 102 milljónum króna.