Tenglar

26. júní 2016 |

Síðbúin fjallkona ...

Fjallkonan Aðalbjörg Egilsdóttir.
Fjallkonan Aðalbjörg Egilsdóttir.
1 af 13

Nei, fjallkonan var alls ekki síðbúin á þjóðhátíðina í Reykhólahreppi, heldur þessar myndir og frásögn hér á vefinn. Hátíðin var í Bjarkalundi eins og endranær en skipulag hennar var í höndum Lionsfólks. Fjallkonan að þessu sinni var Aðalbjörg Egilsdóttir, fimmtán ára stúlka á Mávavatni, sem flutti ávarp og síðan ljóð við hæfi.

 

Búningur Aðalbjargar var glæsilegur og líka við hæfi á þessari hátíðarstund. Hún klæddist peysufötum frá afasystur sinni, Kristínu Ingibjörgu Tómasdóttur (Dídí), en var með slifsi, svuntu og svuntupör frá Ólínu heitinni á Kinnarstöðum, sem Steinunn Magnúsdóttir á Kinnarstöðum ömmusystir hennar lánaði henni.

 

Í ávarpi sínu bauð Aðalbjörg þjóðhátíðargesti velkomna í Bjarkalund á þessum hlýja og bjarta sumardegi. Síðan minntist hún ársins 1944, þegar 17. júní var valinn stofndagur lýðveldisins á fæðingardegi Jóns forseta. Sá dagur varð sameiningartákn íslensku þjóðarinnar og fangaði þann anda bjartsýni sem knúði áfram sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Síðan flutti hún ljóðið Ísland eftir skáldið Jón Thoroddsen frá Reykhólum.

 

 

Ísland

 

Ó, fögur er vor fósturjörð,

um fríða sumardaga,

er laufin grænu litka börð

og leikur hjörð í haga

en dalur lyftir blárri brún

mót blíðum sólar loga

og glitrar flötur glóir tún

og gyllir sunna voga.

 

Og vegleg jörð vor áa er

með ísi þakta tinda,

um heiðrík kvöld að höfði sér

nær hnýtir gullna linda,

og logagneistum stjörnur strá

um strindi, hulið svellum,

en hoppa álfar hjarni á

svo heyrist dun í fellum.

 

Þú fósturjörðin fríð og kær

sem feðra hlúir beinum

og lífið ungu frjóvi fær

hjá fornum bautasteinum,

ó, blessuð vertu fagra fold

og fjöldinn þinna barna,

á meðan gróa grös í mold

og glóir nokkur stjarna!

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31