Tenglar

13. ágúst 2009 |

Símaskráin 2009 - Flateyjarbók hin nýja

Símaskrá Flateyjar 2009 er komin út í sjöunda sinn, stærri og efnismeiri en fyrr og stútfull af áhugaverðum upplýsingum og lesefni sem allir unnendur Flateyjar og Breiðafjarðareyja yfirleitt verða að lesa. Ef til vill kemur einhverjum á óvart að gefin skuli vera út sérstök símaskrá fyrir eyju þar sem einungis fimm manns á tveimur heimilum búa árið um kring, í Læknishúsinu og Krákuvör. Og það með meira en 700 símanúmerum og rúmlega 300 netföngum, en þau tengjast húsum og fólki í Flatey, Hvallátrum, Svefneyjum, Sviðnum og Skáleyjum. Naumast þarf að taka fram, að allar þessar eyjar og eyjaklasar tilheyra Reykhólahreppi eins og langmestur hluti Breiðafjarðareyja.

 

Enda þótt einungis fimm manns eigi fasta búsetu í Flatey og raunar í öllum Breiðafjarðareyjum árið um kring er Flatey iðandi af mannlífi allt sumarið. Nærfellt fjörutíu hús eru í eynni, sem mörg hver hafa verið gerð upp í sinni upprunalegu mynd með miklum glæsibrag. Sum þeirra eru reyndar ekki aðeins notuð til sumarveru heldur kemur fólk einnig þangað til dvalar á öðrum tímum árs í sívaxandi mæli.

 

Í símaskránni 2009, sem fremur mætti telja alfræðirit en símaskrá, er meðal annars hægt að lesa um alla bátana í Flatey og nálægum eyjum, um höfðinglega gjöf til væntanlegrar heimasíðu Flateyjar, um bæja- og húsakönnun í Flatey, umhverfisverðlaun Framfarafélagsins, legstaðaskrá fyrir Flateyjarkirkjugarð, stýrishúsið af Konráði BA 152 og um velunnara Flateyjar.

 

Líka má lesa um leyndarhjúpinn, baktjaldamakkið og flýtinn við lokun á pósthúsinu í Flatey núna í snemma í sumar - minnsta og merkilegasta pósthúsinu á Íslandi. Einnig um væntanlega uppbyggingu á frystihúsinu í Flatey, um fornleifaskráningu og rannsóknastaði í Hergilsey og Oddbjarnarskeri sem nú fer fram, um biskupsmessu í Flatey og áhugaverðar fréttir af sveitarstjórnarmálum sem tengjast framkvæmdaglöðum Flateyingum.

 

Í símaskránni er líka áhugaverð og ljóslifandi leiðsögn Guðmundar Stefánssonar á Myllustöðum um Flatey, þar sem gengið er með lesandanum um eyna frá frystihúsinu og alla leið út á Lundaberg. Sagan og umhverfið verða ljóslifandi og lesandann þyrstir í enn meiri fróðleik. Þá er nærtækt að lesa líka samantektir um Flateyjarkirkju eftir Guðmund og um húsin í Flatey eftir Gunnar Sveinsson.

 

Þarna kemur einnig fram hver er að taka gullfallegar myndir í Flatey og birta á vefsíðu sinni. Birtar eru slóðir 27 áhugaverðra heimasíðna sem áhugafólk um Flatey verður að skoða, vilji það fylgjast með.

 

Svarað er spurningum á borð við: Hver er sveitarstjóri Reykhólahrepps? Hver er bæjarstjóri í Stykkishólmi? Hver er sóknarprestur Flateyjar? Hver er umsjónarmaður eldvarna í Flatey? Hverjir sitja í stjórn Framfarafélags Flateyjar? Vatnsveitu Flateyjar? Teinæringsvogsfélagsins? Hverjir eru í sóknarnefnd Flateyjarkirkju? Hverjir eru í áhöfn Baldurs? Hvernig er áætlun Baldurs? Hver er komu- og brottfarartími Baldurs til og frá Flatey? Hvenær er vínbúðin í Stykkishólmi opin? Bakaríið í Stykkishólmi? Bensínstöðin í Stykkishólmi? Er hægt að fá sendar vistir úr Hólminum í Flatey?

 

Allt þetta og miklu fleira má lesa í símaskrá Flateyjar 2009 enda er hún nú orðin 65 blaðsíður af áhugaverðu efni.

 

Þeir sem vilja eignast símaskrá Flateyjar geta lagt eitt þúsund krónur (auk 150 króna póstburðargjalds) inn á reikning fjáröflunarnefndar Flateyjarkirkju hjá Nýja Kaupþingi (0313-22-000836, kennitala 211149-4859), eigandi Kirkjusjóður Flateyjarkirkju (fjáröflunarnefnd), og hún verður send um hæl. Símaskráin er einnig til sölu hjá Gunnari Sveinssyni ritstjóra hennar (824 5651, 567 2155), í Flatey á Hótel Flatey, í Læknishúsi hjá Línu og í Krákuvör hjá Svönu. Í Stykkishólmi er hún seld hjá Dagbjörtu í versluninni Sjávarborg að Hafnargötu 4.

 

Útgefandi símaskrár Flateyjar 2009 er fjáröflunarnefnd Flateyjarkirkju, en hana skipa Guðmundur Stefánsson, Myllustöðum, Guðrún Halldórsdóttir, Strýtu, og Gunnar Sveinsson, Eyjólfshúsi (ritstjóri).

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31