Tenglar

17. janúar 2013 | vefstjori@reykholar.is

Síminn orðinn að hálfgerðu ómenningartæki

Sveinn Guðmundsson, bóndi og kennari á Miðhúsum í Reykhólasveit, var fréttaritari Morgunblaðsins í áratugi og einn af þeim ötulustu í þeim hópi. Fyrir 50 árum ritaði hann ítarlegt yfirlit um viðburði liðins árs í héraðinu og kennir þar ýmissa grasa. Mjólkurbúið á Reykhólum var steypt upp og útibyrgt að mestu, Kaupfélagið opnaði mjög fullkomna verslun í Króksfjarðarnesi, ein ný jeppabifreið var keypt í sýsluna, rafmagn lagt á marga bæi, skyldunám barna hér styttra en almennt gerðist, bændaklúbbur í Reykhólasveit, símaþjónustan bágborin og síminn orðinn að hálfgerðu ómenningartæki. Annál (fréttabréf) Sveins í Morgunblaðinu um árið 1962 má lesa í heild hér fyrir neðan.

 

 

MIÐHÚSUM, 7. janúar. - Árið 1963 hefur boðið góðan dag og er því ekki úr vegi að líta snöggvast til liðna ársins 1962.

 

Árið 1962 verður að teljast undir meðallagi hér hjá okkur. Síðastliðinn vetur var gjafafrekur, vorið var kalt og þar af leiðandi var spretta á túnum langt undir meðallagi, en spretta á úthaga var mjög góð.

 

Sumarið var sólarlítið, en nýting heyja var yfirleitt góð. Heyskapur þó minni en venjulega. Haustið var úrfellissamt og vetur byrjaði snemma, en mildaðist aftur og má segja að í nóvember og desember hafi verið öndvegis tíðarfar.

 

Selveiði var yfirleitt minni en venjulega og dúntekja langt fyrir neðan meðallag og stafar það af kuldunum og rokinu í vor, en svo fer allskonar vargur sífellt vaxandi í varplöndum hér og mátti teljast til undantekningar að sjá stálpaða æðarunga er fór að koma fram á sumarið, en geta má þess að víðast hvar eru varplönd varin eftir beztu getu.

 

Sláttur byrjaði seinna hér en venjulega, en gekk þó vel og munu dilkar hér vera um meðallag.

 

Byggingarframkvæmdir hér um slóðir eru sízt minni en undanfarandi ár.

 

Nýtt mjólkurbú

 

Samkvæmt almanaki Þjóðvinafélagsins var byrjað á Mjólkurbúi á Reykhólum 1961, en þar sem Sveinn Tryggvason ræðir um þessi mál í 3. hefti Árbókar landbúnaðarins 1962 gleymir hann alveg að minnast á þessa byggingu og er sú gleymska gerð af mikilli hógværð, því að hann gerði allar frumteikningar af mjólkurbúinu, en síðan fullgerði Teiknistofa landbúnaðarins þær. Í sumar var mjólkurbúið steypt upp og útibyrgt að mestu.

 

Skömmu fyrir jólin opnaði Kaupfélagið mjög fullkomna verzlun í Króksfjarðarnesi og er það væntanlega fyrirboði þess, að Kaupfélagið endurskipuleggi þjónustu sína alla, því að það er eini aðilinn sem rekur verzlun hér á stóru svæði.

 

Á Bakka í Geiradal var íbúðarhús smíðað á árinu og á sama bæ og á Valshamri var tekin í notkun rétt fyrir jólin ný 16 kw rafstöð. Einnig hafa hér í héraðinu verið byggð gripahús og hlöður.

 

Ein ný jeppabifreið hefur verið keypt inn í sýsluna á árinu og stafar það meðal annars af því, að tiltölulega skammt er síðan að vegir komu um héraðið og hefur því uppbygging öll verið seinni á ferðinni, og eru nú margir bændur í óða önn að byggja upp og rækta jarðir sínar, svo að fjármagn verður ekki afgangs til bifreiðakaupa, og er það mjög bagalegt, því að segja má að bíllinn hafi komið í stað hestsins í sveitum landsins.

 

Rafmagnið var lagt á flesta bæi í innsveit Reykhólahrepps og út yfir Barmahlíð að Reykhólum og á næsta ári er ákveðið að rafmagnið verði lagt út að Árbæ á Reykjanesi.

 

Ýta undir flóttann úr sveitunum

 

Ábúendaskipti urðu á einni jörð í Reykhólasveit og í því sambandi má minnast á hinn öfgafulla áróður ýmissa Framsóknarmanna, sem virðist vera gerður til þess að ýta undir flóttann úr sveitunum, en gæta þess ekki að ástand það, sem ríkir í sveitum landsins er á ábyrgð þeirra sjálfra, því hverjir hafa meirihlutann í Stéttarsambandi bænda, hverjir stjórna búnaðarsamböndunum, og svo er pólitík þeirra hörð að jafnvel búnaðarráðunautarnir eru ráðnir eftir pólitískum litarhætti. Svo er nú riddaramennskan ekki meiri en það, að Framsóknarmenn vilja koma öllum sínum afglöpum yfir á núverandi landbúnaðarráðherra.

 

Ég fullyrði, að vart er hægt að gera bændastéttinni nú meiri bjarnargreiða en sá áróður forkólfa Framsóknarmanna, að hvetja bændur til þess að hætta búskap og flytja til Faxaflóa. Ég held að rétta leiðin sé sú, að sameina bændur í baráttunni fyrir bættari kjörum, bæði á veraldlega og andlega vísu.

 

Vaxandi ferðamannastraumur

 

Sjaldan hefur verið meiri umferð hér um sveitir en í sumar. Hótel Bjarkalundur byggði stóra álmu út úr aðalhúsinu og eru þar staðsett mörg stór og vistleg gistiherbergi, sem hafa nú bætt úr brýnni þörf. - Frú Ingigerður Guðjónsdóttir var hótelstýra í sumar, eins og undanfarið, við sömu vinsældir og áður. Í haust tók svo frú Ingigerður við skólastjórn á húsmæðraskólanum á Staðarfelli í Dalasýslu og er það almenn ósk hér til þeirra hjóna að þeim takist að leysa úr dróma Staðarfellsskólann.

 

Barnaskólar eru hér í öllum hreppum sýslunnar og má segja að hér sé á ferðinni mjög úrelt skipulag, því ekki er hægt í þessum skólum að veita þá fjölbreytni í fræðslu, sem nauðsynleg er til þess að börn hinna dreifðu byggða dragist ekki aftur úr börnum þéttbýlisins, og þar að auki er þeim ætlað mun styttra skyldunám en hjá öðru æskufólki.

 

Slæm símaþjónusta

 

Símaþjónusta er hér mjög bágborin, þó ekki sé um að kenna starfsfólki á símastöðinni í Króksfjarðarnesi, því að það hefur gert miklu meira en skyldu sína.

 

Hér í Reykhólahreppi er t.d. hrúgað saman yfir 20 símtækjum á eina línu og er því oft erfitt að komast að á vissum tímum dagsins og þar ofan í kaupið er annað hvert langlínusímtal hálfónýtt, vegna þess hve talsambandið er lélegt. Á sínum tíma var það mikið þrekvirki að koma síma á flest sveitabýli landsins, en tæknin heldur áfram. Þess vegna á að stefna að því, að hver sveitabær fái einkasíma, því eins og nú er, þar sem mörgum taltækjum er hrúgað saman á sömu línu, er síminn orðinn að hálfgerðu ómenningartæki.

 

Félagslíf var árið 1962 með svipuðum hætti og áður. - Í Reykhólasveit og Geiradal eru starfandi kvenfélög og ungmennafélag. Bændur í Reykhólasveit héldu uppi bændafélagi (klúbbi). Kirkjusókn var með svipuðu móti og undanfarin ár. Haldið er áfram með kirkjubygginguna á Reykhólum og vonir standa til að kirkjan verði vígð á sumri komanda. Starfandi er skógræktarfélag í Reykhólahreppi og á það skógargirðingu inni á Barmahlíð og eru sum barrtrén þar að verða efnileg.

 

Gleðilegt ár!

 

Sveinn Guðmundsson.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31