Tenglar

24. september 2016 | Umsjón

Sitkagrenitréð á Barmahlíð ekki hæst öllu lengur?

Grenilundurinn á Barmahlíð, hæsta tréð er einnig sverast.
Grenilundurinn á Barmahlíð, hæsta tréð er einnig sverast.
1 af 4

Í fyrravor birtist hér á vefnum frétt um kapphlaupið upp í 20 metrana milli hæstu trjáa á Vestfjarðakjálkanum, sitkagrenis á Barmahlíð*) í Reykhólasveit og alaskaspar í Miðbæ í Haukadal í Dýrafirði. Núna á miðvikudag mældi hópur sérfræðinga tréð á Barmahlíð og reyndist það 19,6 metra hátt að vaxtarsumrinu 2016 loknu. Mælinguna gerði 15 manna hópur starfsfólks Landshlutaverkefna í skógrækt, sem var samankomið á Reykhólum á miðvikudag og fimmtudag.

 

Nokkru áður höfðu starfsmenn Skjólskóga á Vestfjörðum mælt öspina í Miðbæ og nú virðist hún hafa tekið fram úr greninu og var orðin 19,7 metrar. Víst má þó telja þau jafnhá, þar sem skekkjumörk eru einhver með hornamælingum eins og notaðar voru í báðum tilfellum.

 

Niðurstöður mælinganna voru þessar:

 

 

Vor 2015

Haust 2016

Sitkagreni, Barmahlíð

  19,0 m

   19,6 m

Alaskaösp, Haukadal

  18,3 m

   19,7 m

 

Þvermál grenisins í brjósthæð er 43 cm en þvermál asparinnar 33 cm.

 

Samkvæmt þessu hefur grenitréð á Barmahlíð bætt við sig 30 cm í hæð á ári síðustu tvö vaxtarsumur og má hafa sig allt við að ná tuttugu metrunum á næsta sumri. Öspin í Haukadal hefur hins vegar bætt við sig 70 cm á ári og ætti því að slá í 20 metrana eitthvað um miðjan júlí á næsta ári ef ekkert kemur fyrir, en það gerist nú reyndar oftar hjá öspinni en greninu.

 

Hafa verður einnig í huga að grenitréð „á inni“ ef svo má segja gæði vaxtarsumarsins 2016 og notar þau gæði sumarið 2017, en öspin hefur þegar nýtt sér það góða sumar. Á sama hátt galt vöxtur grenisins núna í sumar fyrir heldur lélegt tíðarfar á síðasta ári.

 

Upplýsingar og myndir:

Sæmundur Kr. Þorvaldsson, Lyngholti í Dýrafirði, framkvæmdastjóri Skjólskóga á Vestfjörðum.

 

Sjá einnig:

 

Hver veit um aldur trésins?

(16. maí 2015). Í athugasemdum við þessa frétt eru mörg fróðleg innlegg frá lesendum.

 

Hæsta tré Vestfjarða á Barmahlíð: Forskotið minnkar

(15. maí 2015).

 

Hæsta tré Vestfjarðakjálkans er í Reykhólasveit

(16. ágúst 2011).

 

*) Ýmist er sagt „á Barmahlíð“ eða „í Barmahlíð“ og ber skilríku fólki ekki saman um hvort sé „réttara“. Enda altítt að málvenjur séu misjafnar, sumir hafi vanist einu, aðrir vanist öðru. Þarf þá ekki eitt að vera „réttara“ en annað.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30