Tenglar

27. desember 2015 |

„Sjást ekki lengur seglin hvít“

Breiðfirzkur bátur á siglingu. Teikning: Eysteinn G. Gíslason.
Breiðfirzkur bátur á siglingu. Teikning: Eysteinn G. Gíslason.
1 af 3

Greinin um breiðfirska bátasmíðalist sem hér fer á eftir birtist í jólablaði Ísfirðings árið 1966. Eysteinn G. Gíslason í Skáleyjum vissi af eigin reynslu og ættmenna sinna og annarra eyjamanna hvað hann söng í þeim efnum. Teikningarnar sem fylgdu greininni í blaðinu og fylgja hér líka eru eftir hann sjálfan.

 

 

 

Eysteinn G. Gíslason


„Sjást ekki lengur seglin hvít“

 

 

Fyrir nokkrum árum var ég þar staddur sem langt að komnir ferðamenn lögðu lykkju á leið sína, þeirra erinda að skoða gamalt breiðfirzkt áraskip sem stóð í nausti, að loknu ævistarfi. Álitu þeir að Breiðfirðingar hefðu verið öðrum snjallari bátasmiðir og breiðfirzk skip borið af fyrir fallegt lag og mikla sjóhæfni. Og eftir að hafa skoðað nægju sína virtust þeir ennþá styrkari í sinni trú.

 

Fyrir þann sem hafði trúað því í bernsku að smíði slíkra farkosta væri hámark mannlegrar verksnilli voru þetta að vísu engar stórfréttir, en þær létu þó þægilega í eyrum heimagangsins, á svipaðan hátt og það lætur í eyrum mörlandans að frétta að Friðrik hafi mátað Larsen. Það voru sem sagt fleiri en Breiðfirðingar sjálfir sem álitu að á þessu sviði hefðu þeir kunnað betur til verka en margir aðrir.

 

Nú skal ekki fullyrt að álit þessara ágætu ferðalanga hafi verið einhver stórisannleikur í þessu máli, hins vegar má vel vera að þeir hafi haft á réttu að standa, og eðlilegar ástæður valdi því að bátasmiðir á þessum slóðum hafi náð langt í sínu fagi.

 

Ari fróði segir frá því að sumarið 985 eða 986 hafi floti 25 skipa úr Breiðafirði og Borgarfirði haldið áleiðis vestur um haf, með landnema innanborðs, þótt ekki kæmust þau öll á leiðarenda.

 

Nú hefir Lúðvík Kristjánsson fært að því sennileg rök, að ekki hafi þetta allt getað verið innflutt hafskip. Slíkur skipastóll hafi af eðlilegum ástæðum ekki legið á lausu á þessu svæði, heldur hafi hér að miklu leyti verið um að ræða heimasmíðuð flutningaskip, af svipaðri stærð og gerð og síðan voru notuð af landsmönnum fram undir okkar daga. Bendir Lúðvík á að sigling til Grænlands að sumri til, á slíkum fleytum, þurfi ekki að hafa verið meiri goðgá en að halda þeim til hákarlaveiða á djúpmið hér við land á harðasta tíma ársins, eins og þó var gert.

 

Sé þetta rétt, má ljóst vera að bátasmíðar á þessum slóðum hafa staðið með blóma þegar á 10. öld.

 

Vafalaust hefir fiskigengd verið mikil á Breiðafirði til forna, enda getið verstöðva þar í fornsögum, og þannig mun það hafa verið um allar aldir síðan. Fjölmennar verstöðvar, byggð í eyjum og samgöngur á sjó kröfðust stöðugra skipasmíða.

 

Í eyjunum hefur báturinn þó orðið snarari þáttur í lífi fólksins en annars staðar. Þar var hann þarfasti þjónninn en ekki hesturinn. Hann var þar ekki aðeins fiskiskip, heldur alhliða farartæki; líftaug heimilanna. Á sama hátt og gæðingurinn var stolt eiganda síns norður í Skagafirði hefir gott og fallegt sjóskip verið það eyjabóndanum. Enda vita það kunnugir að smíði þeirra, viðhald og meðferð, var mótuð af þeirri afstöðu. Aðstæður ýmsar hafa valdið því að bátalag þróaðist á mismunandi vegu eftir byggðarlögum. Jens Hermannsson telur að Breiðfirðingar hafi notað meira segl á bátum en annars staðar var gert, og lagt því meir upp úr að þeir færu vel undir seglum. Einnig er líklegt að veðurfar og sjólag hafi valdið nokkru um gerð báta á hverjum stað.

 

Á Breiðafirði er oft stormasamt. Grunnsævi og harðir sjávarfallastraumar valda þar vægast sagt vondu sjólagi víða. Það sem hér hefur verið upptalið hefir vafalaust allt haft áhrif á að þróa það bátalag sem kennt hefir verið við Breiðafjörð, þó að það yrði svo aftur breytilegt innbyrðis í höndum hinna ýmsu smiða.

 

Í fábreytni íslenzkra atvinnuhátta, þar sem allt miðaðist við að hafa í sig og á, voru ekki æði mörg störfin sem kröfðust hagleiks og verksnilli. En vegna þess að sköpunarþrá er mörgum í blóð borin, má ætla að þau störf sem gáfu henni tækifæri til að njóta sín hafi verið mörgum kærkomin tilbreyting frá öðru striti. Húsagerð var hér lengst af það frumstæð að hún hefur veitt hagleiksmönnum takmörkuð viðfangsefni. Þar var þá frekar um að ræða smíði ýmissa búsáhalda og innanstokksmuna. En er fráleitt að álykta að það hafi verið á sviði bátasmíðanna sem þjóðhagarnir komu mest við sögu, og þar hafi verkmenning okkar kannske risið hæst?

 

Það er vafalaust að margir þessara góðu, gömlu smiða hafa gert þær kröfur um útlit og gerð bátanna sem þeir smíðuðu, við frumstæðustu skilyrði og með lélegum verkfærakosti að sjálfsögðu, að þær hafa ekki eingöngu verið hagnýts eðlis, heldur líka fagurfræðilegar.

 

Gömlum Breiðfirðingum mun koma saman um það, að sjónarsviptir hafi orðið að því þegar ferðir seglbátanna lögðust niður um fjörðinn með tilkomu bátavélanna. Þeir minnast með ánægju landferðanna á haustin þegar eyjamenn sóttu fé sitt til lands, og „krusandi“ skipin voru um allan sjó. Og ætla má að þeim sem muna svo langt að bátarnir skiptu tugum í sumum verstöðvum hafi orðið hugstætt þegar þeir flotar stefndu til miða í góðum byr.

 

Sú tíð er liðin og kemur aldrei aftur. Það sem kveðið var um Dritvík hefur orðið að niðurlagsorðum þúsund ára langrar sögu:

 

Sjást ekki lengur seglin hvít sjóndeildarhringinn tjalda.

 

Það er langt orðið síðan að góðir menn hófust handa um að bjarga frá glötun þjóðlegum verðmætum. Nægir að benda á handritin í því sambandi. Slíkt er vitanlega skylda hverrar þjóðar við sögu sína og fortíð. Og það er skylda okkar við framtíðina að halda til haga sýnishornum af því sem okkar ágætu framfarir dæma úr leik.

 

Við ættum að taka til varðveizlu síðustu leifar árabátaaldar, hvar sem til þeirra næst og allstaðar að af landinu. Það er vel, að þegar hefur verið sýnd nokkur viðleitni í þá átt, og má minna þar á Engeyjarskipið á Þjóðminjasafni, Pétursey í Skógum, Ófeig á Reykjum og sexæringinn á Byggðasafni Ísafjarðar, sem þó er nýsmíði. En ekkert breiðfirzkt skip hefur ennþá komist undir þak sem safngripur, til dæmis að taka. Að vísu er líkan af einu slíku á Þjóðminjasafni ásamt fleiri slíkum líkönum, en ég býst við að gamlir Breiðfirðingar mundu vera sammála um að sú eftirlíking mætti vera betri. Reyndar eru enn á lífi menn sem gætu gert þar betur, og ættu að gera.

 

Og enn er ekki allt um seinan í þessu efni. Það eru enn við lýði nokkur breiðfirzk skip.

 

Ákveðið mun vera að byggja yfir Egil frá Hvallátrum og hafa til sýnis. Er það vel ef af því getur orðið, þetta er stór teinæringur, og mestur þeirra skipa sem við lýði eru þar um slóðir.

 

Hitt er ekki rétt sem sást á prenti nýlega, að hann sé eina skipið sem eftir er.

 

Það hefur hlíft Agli, að enginn hefir viljað verða til þess að eyðileggja þennan líklega síðasta fulltrúa teinæringanna, þótt nú sé aldarfjórðungur liðinn frá því hann var í notkun.

 

Ef rétt er munað lét Bjarni í Vigur þá skoðun í ljós fyrir nokkrum árum, að flutningaskip hans, Breiður, sem hann var þá hættur að nota, hafi verið síðastur í notkun hinna gömlu áttæringa landsmanna. Hann sá réttilega sögulegt gildi þess, en ályktun hans var ekki rétt. T.d. var á þeim tíma ennþá í fullri notkun flutningaskip Skáleyinga, áttæringurinn Svanur. Hvort hann hefir nú lokið sínu skeiði eða hvort hann hefir haldið það lengst út, skal hvort tveggja ósagt látið. En hann er enn við lýði og sjófær, óbreyttur að kalla frá því hann var smíðaður; upp úr síðustu aldamótum, og hefur verið í notkun allan þann tíma. Get ég ekki látið hjá líða að nefna þennan fornvin minn í þessu sambandi, þar sem öðrum hefur a.m.k. tvisvar sést yfir tilveru hans, samkvæmt framansögðu. Svanur hefur verið afburðavel smíðaður í upphafi, en veikviðaður og léttur í sjó.

 

Í bókinni Breiðfirzkir sjómenn eftir Jens Hermannsson stendur á einum stað eftirfarandi:

 

Gömul sögn er um það, að Bogi Gunnlaugsson í Flatey hafi siglt skipi Sigurðar prests Jenssonar, „Leifi heppna“, á 5 stundum frá Bjarneyjum og út á Sand. Leifur var stór áttæringur, „siglari“ ágætur og hin fríðasta fleyta í hvívetna. Hafi þessi sögn við rök að styðjast, er þetta hin hraðasta sigling á opnu skipi, sem um getur í allri sögu breiðfirzkrar siglingar. „Leifur heppni“ er enn við lýði. Nú, að sögn, uppskipunarskip í Salthólmavík.

 

Þetta segir Jens Hermannsson 1953. Við þetta er því að bæta, að nú er hlutverki Leifs fyrir nokkru lokið sem uppskipunarskips. Sá ég hann fyrir nokkrum árum þar sem hann hvolfdi á sjávargrundinni í Salthólmavík. Er hann þar vonandi enn, og bíður þess tíma að verða til sýnis með rá og reiða sem handhafi „bláa bandsins“ úr sögu breiðfirzkra seglbáta.

 

Góðir lesendur. Þessar hugleiðingar eru skrifaðar til að minna á það að við eigum fleiri verðmæti úr okkar sögu en handritin ein. Þau liggja kannske við fætur okkar án þess að okkur sé það Ijóst, frekar en forfeðrum okkar, sem eru skammaðir fyrir að hafa étið skinnbækur.

 

Þótt ég hafi gert breiðfirzka báta að umtalsefni gildir það sama um flest það sem nútíminn er að dæma úr leik.

 

Sá tími kemur væntanlega aldrei aftur að sjá megi sjóndeildarhringinn tjaldaðan hvítum seglum. Enn síður eigum við eftir að líta augum fleyturnar sem fluttu fyrstu hvítu landnemana til Vesturheims sumarið 985, en kannske eru það síðustu afkomendur þeirra, ef svo má að orði komast, sem nú eru að berja nestið suður við Breiðafjörð.

 

Eysteinn G. Gíslason.

 

________________________

 

23. ágúst 2012  Eysteinn G. Gíslason (1930-2012), æviágrip og ýmsir tenglar þar fyrir neðan

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30