Tenglar

4. maí 2014 | vefstjori@reykholar.is

Sjö daga mokstur á helstu leiðum í gildi í haust

Samgönguráð og fleiri við höfnina á Ísafirði. Nánar neðst í meginmáli.
Samgönguráð og fleiri við höfnina á Ísafirði. Nánar neðst í meginmáli.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri tilkynnti á fundi samgönguráðs með vestfirskum sveitarstjórnarmönnum á Ísafirði í vikunni, að í haust verði tekin upp sjö daga vetrarþjónusta á vestfirskum vegum, þar sem mörg undanfarin ár hefur aðeins verið sex daga þjónusta. Þannig hefur ekki verið mokað á laugardögum á helstu leiðum eins og um Ísafjarðardjúp, Steingrímsfjarðarheiði og Þröskulda og um sunnanverða Vestfirði. „Ég fagna því að Vegagerðin skuli vera búin að taka þessa ákvörðun, þetta hefur verið ófremdarástand að geta ekki ferðast alla daga vikunnar. Þetta hefur verið í umræðunni í allmörg ár, en núna í vetur var þetta sérlega slæmt. Frá næsta hausti munu flestir Vestfirðingar sitja við sama borð og þorri landsmanna,“ segir Birna Lárusdóttir á Ísafirði, formaður samgönguráðs.

 

„Þessi tilhögun á undanförnum árum hefur verið gagnrýnd og auðvitað valdið ýmsum erfiðleikum fyrir íbúana, atvinnulífið og ferðaþjónustuna,“ segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri.

 

Í samgönguráði eiga sæti, auk Birnu Lárusdóttur, sem er ráðherraskipaður formaður, forstjórar Vegagerðarinnar, Samgöngustofu og Isavia, sem sér um flugvellina. Birna tók við formennsku í ráðinu af Degi B. Eggertssyni borgarfulltrúa í Reykjavík á síðasta sumri.

 

Samgönguráð fyrst saman til fundar á Ísafirði og hélt síðan nokkurra klukkustunda fund með samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga og fulltrúum frá öllum sveitarfélögunum á Vestfjarðakjálkanum, þar á meðal nokkrum úr Reykhólahreppi. Sérlega vel var mætt á þann fund, að sögn Birnu. „Fundurinn var mjög góður og gagnlegur. Eins og venjulega þegar Vestfirðingar ræða samgöngumál, þá mæta þeir vel,“ segir hún, „enda eru samgöngurnar eitt af mestu hagsmunamálum þjóðarinnar.“

 

Samgönguráð er að vinna að gerð tólf ára samgönguáætlunar, sem gilda mun árin 2015 til 2026. „Fyrstu skrefin í þeirri vinnu voru að halda fundi með öllum landshlutasamtökum. Þessi fundaröð byrjaði nokkru fyrir páska og núna erum við búin að fara hringinn í kringum landið. Við höfum verið að safna í sarpinn fyrir áætlunargerðina, en við erum ábyrg fyrir gerð bæði fjögurra ára áætlunar og tólf ára samgönguáætlunar,“ segir Birna Lárusdóttir.

 

Ásamt fulltrúum í samgönguráði hefur Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður Fjarskiptasjóðs, verið með í fundaferðinni kringum landið. Sameiginlegir fundir eru liðir í því að samræma betur áætlanagerð ríkisins, en Fjarskiptasjóður og verkefnastjórn honum tengd er ábyrg fyrir gerð fjarskiptaáætlunar.

 

„Við höfum verið að fá áherslur sveitarstjórnarfólks og fulltrúa landshlutasamtaka og fá þeirra áherslur um það hvað sé brýnast að gera næstu tólf árin til að geta nýtt það í okkar vinnu við endurskoðun samgönguáætlunar. Við viljum gjarnan fá beint samband við íbúana og fulltrúa þeirra og vita hvað þeim liggur á hjarta varðandi samgöngumál nánustu framtíðar og nota það í okkar áætlanagerð,“ segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri.

 

Varðandi breyttar mokstursreglur segir Birna: „Það gengur ekki í nútíma samfélagi að hafa aðalvegi út frá stórum byggðakjörnum lokaða einu sinni í viku. Eins og forsvarsmenn Vesturbyggðar bentu á varðandi ferðaþjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum, þá er erfitt um vik þegar vegurinn er ekki opnaður á laugardögum, Breiðafjarðarferjan siglir ekki á laugardögum og ekkert er flogið á laugardögum.“ Auk þess nefndi Birna íþróttahópa, sem oft þurfa að komast milli landshluta einmitt á laugardögum. Þjónustuleysið hefur komið illa við þá eins og aðra.

 

Myndin sem hér fylgir var tekin eftir fundi dagsins þegar samgönguráð og fleiri sem fundi þess sátu höfðu farið í siglingu um höfnina á Ísafirði með bræðrunum Hallgrími og Davíð Kjartanssonum. Á myndinni eru, talið frá vinstri: Ásta Þorleifsdóttir, innanríkisráðuneytinu, Hermann Guðjónsson, forstjóri Samgöngustofu, Sigurbergur Björnsson, innanríkisráðuneytinu, Haukur Hauksson og Guðný Unnur Jökulsdóttir, Isavia, Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður Fjarskiptasjóðs, Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, Birna Lárusdóttir, formaður samgönguráðs, Hallgrímur Kjartansson og Davíð Kjartansson.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31