Tenglar

4. janúar 2015 |

Sjö íbúðarhús í smíðum á Reykhólum ...

Reykhólakirkja tekin ofan árið 1975. Nánar neðst í meginmáli.
Reykhólakirkja tekin ofan árið 1975. Nánar neðst í meginmáli.

Hér fyrir neðan má lesa fréttabréf frá Sveini Guðmundssyni, bónda og kennara á Miðhúsum í Reykhólasveit, sem birtist í Morgunblaðinu í ársbyrjun 1975 eða fyrir fjörutíu árum. Sveinn var um langt árabil einhver ötulasti fréttaritari Morgunblaðsins og jafnan ómyrkur í máli um það sem honum þótti betur mega fara heima í héraði. Sitthvað má telja fróðlegt í þessum pistli Sveins núna fjórum áratugum síðar, og kannski ekki síst vegna þess tíma sem liðinn er.

 

Margir bíða á Reykhólum eftir flugfari suður. Er einhverjum enn tamt að tala um Mjólkurvelli? Sveinn víkur að skipulagi heilbrigðismála, rafmagnsöryggi í héraðinu, frammistöðu Ríkisútvarpsins, hrakningum Vilhjálms mjólkurbílstjóra á Miðjanesi um jólin, framkvæmdum á Reykhólum, Bakkusarblótum, nýstofnuðu Alþýðubandalagsfélagi og snjóflóðum.

 

 

 

Áramótaspjall

 

Tíðarfar yfir hátíðarnar hefur verið mjög rysjótt og því minni hreyfing á fólki en ella. Þegar þetta er skrifað er snjóhríð og bíða um 20 farþegar á Reykhólum eftir flugfari suður.

 

Á jóladag var messað á Reykhólum. Sóknarpresturinn séra Sigurður Pálsson vígslubiskup predikaði, en mjög hefur honum gengið erfiðlega að komast á annexíurnar vegna óveðurs og ófærðar. Á fjórða í jólum héldu Ungmennafélagið og Kvenfélagið jólatrésskemmtun á Mjólkurvöllum, en hún hófst með helgistund í Reykhólakirkju. Í þeirri guðsþjónustu var skírt eitt barn.

 

Heilsufar virðist hafa verið sæmilegt, en þó er hettusótt að ganga hér. Læknishéraðinu er nú þjónað úr Búðardal og er það gert eins og hægt er. Við hér eigum fyrrverandi heilbrigðismálaráðherra það að þakka, að Reykhólahérað virðist hafa verið strikað út af skrá sem sjálfstætt læknishérað. Læknamiðstöðvar eiga að vera í Stykkishólmi og Búðardal og síðan ekki söguna meir fyrr en á Patreksfirði. Þessi þróun virðist vera harla einkennileg, þar sem stefnt er að vaxandi fólksfjölgun í byggðarlagi. Nema staðreynd sé að okkar þingmenn séu ekki eins duglegir og þingmenn Vesturlandskjördæmis?

 

Rafmagn hefur verið mjög óstöðugt hér um slóðir, en hverjar orsakir eru veit ég ekki um, því sjaldnast er tilkynnt um það fyrirfram hvenær rafmagnið eigi að hverfa. Mér kæmi samt ekki á óvart að við ættum Íslandsmet í þessu og þurfum ekki einu sinni að miða við höfðatöluna góðu.

 

Mér er ekki kunnugt um að Ríkisútvarpið hafi hér starfandi fréttaritara. Mér er ekki heldur kunnugt um að nokkru sinni hafi stigið fæti sínum hingað fréttamenn frá Ríkisútvarpinu. Þess vegna er ekki nema eðlilegt að sjaldan heyrist fréttir héðan í stærsta og öflugasta fjölmiðli landsins.

 

Mjólkurflutningar ganga stirðlega hér, en eins og kunnugt er, þá flytjum við mjólk til Búðardals í mjólkurbúið þar. Mjólkurbíllinn verður að aka mjög viðsjárverða leið og er Gilsfjörður með hættumestu vegarköflum vegna snjóflóða, sem þar oft falla.

 

Á Þorláksmessu fór mjólkurbíllinn héðan í leiðindaveðri og komst suður í Búðardal, en fékk sig ekki afgreiddan og varð að bíða fram á aðfangadagsmorgun. Að þessu sinni munaði því litlu að Vilhjálmur Sigurðsson mjólkurbílstjóri, en hann er jafnframt bóndi á Miðjanesi, yrði að halda jól í mjólkurbílnum. Hann yfirgaf bílinn við Ólafsdal og lagði á stað gangandi fyrir Gilsfjörð, en með hjálp góðra manna og snjóbíls komst hann heim til sín eftir miðnætti á jólanótt. Á slíkum stundum er ekki hægt að leiða hugann frá giftuleysi okkar, en við eigum hálfklárað mjókurbú á Reykhólum, sem við höfðum ekki manndóm til þess að gera að veruleika.

 

Byggingaframkvæmdir hafa verið mjög miklar á Reykhólum í sumar og munar mestu um framkvæmdir Þörungaverksmiðjunnar h/f, en hún er að láta byggja 1.600 fermetra verksmiðjuhús auk hafnargarðs og nýs vegar út í Karlsey, en hún er í um þriggja km fjarlægð frá Reykhólum. Vegagerð þessi er mikið mannvirki og varð meðal annars að leggja veginn yfir flæðilandið frá Karlsey og til lands.

 

Sjö íbúðarhús eru í smíðum á Reykhólum. Þar af er hreppurinn að láta byggja 4 leiguhúsnæði. 2 borholur voru boraðar á Reykhólum í sumar og munu þær gefa um 50 til 60 sek/lítra af um 100 stiga heitu vatni. Langt er komið að leggja hitaveituna út í Karlsey.

 

Veitingahúsið í Bjarkalundi var starfrækt í sumar eins og áður. Ef til vill hafa Barðstrendingar ekki gert sér ljóst hve mikið við eigum núverandi hótelstjóra, Svavari Ármannssyni, að þakka, en hann gekk manna mest og best fram í því að friða verslunarmannahelgina, en hún var orðin eitt herjans Bakkusarblót. Það vill stundum gleymast sem vel er gert. Hótel Bjarkalundur hefur ætíð verið velvirt fyrirtæki, enda sýnist mér rekstur hans góður.

 

Nýlega var stofnað Alþýðubandalagsfélag hér í byggð og munu félagsmenn vera rúmur tugur. Stjórnina skipa Friðgeir Snæbjörnsson, skólanefndarformaður, Stað, Gísela Halldórsson, húsfrú, Hríshóli, og Jens Guðmundsson, kennari, Reykhólum.

 

Ég vona að mér fyrirgefist þó að ég fari nokkrum orðum um snjóflóðið í Neskaupstað. Þegar snjóflóð fellur losnar úr læðingi ógnarkraftur, sem fátt fær staðist, og hefur ekkert verið fundið upp ennþá, sem stöðvar eða fyrirbyggir tilkomu þeirra. Á meðan svo er verðum við að taka þeim eins og hverju öðru böli. Eftir því sem ég kemst næst mun þetta vera annað mannskæðasta snjóflóð hér á landi á þessari öld. Snjóflóðið í Hnífsdal sem féll 18. febrúar 1910 varð 20 manns að bana.

 

Ég minnist þess að eldri menn í Norðfirði töldu mikið hættusvæði frá Shellportinu og allt að Bjargi og töldu varhugavert að nokkuð yrði byggt á þessu svæði. Ég man eftir því, að afi minn, Sveinn Guðmundsson bóndi á Kirkjubóli í Norðfirði, fæddur 1867, mundi eftir ógnar snjóflóði, sem féll á þessu svæði, en það varð engum að fjörtjóni vegna þess að þetta svæði var þá óbyggt og engin umferð. Þetta snjóflóð gæti hafa fallið fyrir síðustu aldamót, en afi minn var úti á Nesi fjármaður um árabil. Hins vegar vilja slíkar sagnir ekki ætíð vera teknar of alvarlega, þegar æskan er annars vegar og reynsluna skortir til þess að meta á raunsæjan hátt allar aðstæður, en engu að síður var ég alltaf hálfsmeykur við að fara um þetta svæði í snjó og dimmu.

 

Þegar þessar línur eru ritaðar dvelur hugur minn á æskustöðvum og fyrst og fremst hjá þeim er sárt eiga um að binda. Ég veit að allir Norðfirðingar taka þátt í uppbyggingunni og þegar samhugur ríkir er mikið hægt að gera.

 

Ég óska lesendum þessa fréttabréfs árs og friðar.

 

Miðhúsum, 4. janúar 1975.

Sveinn Guðmundsson.

 

________________________________________________

 

Myndin sem hér fylgir er frá þeim tíma þegar gamla kirkjan á Reykhólum var tekin ofan árið 1975. Aftan á henni stendur: Mynd af grind Reykhólakirkju, allir grindarviðir eru 6 tommu tré, og er ilmandi lykt úr þeim ef þeir eru særðir. Myndin er úr fórum Ara Ívarssonar frá Melanesi á Rauðasandi og varðveitt á Ljósmyndasafninu á Ísafirði. Hún tengist pistli Sveins á Miðhúsum ekki að öðru leyti en því hvað aldurinn varðar.

 

Sjá einnig:

Tvö kirkjufok og búferlaflutningar Reykhólakirkju (Reykhólavefurinn á jóladag 2012)

 

Athugasemdir

Sigurbjörn Sveinsson, sunnudagur 04 janar kl: 12:29

Minnst er bæði á heilbrigðismál og heiðurskonuna Gíselu Halldórsdóttur á Hríshóli. Við gerð frumvarps til laga um heilbrigðisþjónustu sem samþykkt voru 1973 var ætlun stjósnvalda að læknir yrði hvorki í Búðardal né á Reykhólum. Heimamenn á báðum stöðum tóku til varna og þegar ljóst var að einmenningur yrði á hvorugum staðnum varð niðurstaðan tveggja lækna heilsugæslustöð í Búðardal. Það gekk auðvitað ekki átalaust að ná þessari skynsamlegu niðurstöðu. Gísela Halldórsdóttir talað einarðlega fyrir henni á borgarundi Í Bjarkarlundi og hefur mér verið agt, að hún hafi með öðrum ráðið úrslitum um þessa ráðstöfun.

Maria Játvarðardóttir, sunnudagur 04 janar kl: 16:15

Þessi áramót eru mér minnisstæð. Ég fór vestur að Kletti í Kollafirði að heimsækja nöfnu mína og hennar fjölskyldu. Fór með snjóbíl frá Bjarkalundi og vestur, við vorum fimm tíma á leiðinni. Dvaldi þar í viku. Til baka að Króksfjarðarnesi ásamt fleiri gestum sem verið höfðu á Kletti. Við vorum veðurteppt í tvo daga í Króksfjarðarnesi, gistum hjá Sumarliða Karlssyni og Valdísi konu hans í góðu yfirlæti. Summi og Matti óku snjóbílnum ef ég man rétt. Ekki komst rútan vestur og loks komumst við út að Reykhólum og þaðan suður með flugvél en þá var áætlunarflug að Reykhólum. Ég man að það var mikið verk fyrir það sem það unnu að moka snjó af flugvellinum en fannfergi var mjög mikið. Á leiðinni vestur þurfti snjóbíllinn alltaf að keyra upp í hliðarhallann og rann svo alltaf mikið niður. Hvergi sá á dökkan díl.

Sigurbjörn Sveinsson, mnudagur 05 janar kl: 09:50

Þessi snjóbíll var manndrápsdolla, einhvers konar útgáfa af fólksvagni á beltum. Það pústaði gjarnan inn og var mannskapurinn meira og minna meðvitundarlaus eftir ferðalög með þessu farartæki.
Herdís gamla Zakaríasdóttir í Djúpadal vissi lengra en nef hennar náði og harðneitaði að fara með bílnum á kjörstað í Skálanesi í í alþingiskosningunum í apríl 1983. Við það frestaðist talning í gjörvöllu Vestfjarðakjördæmi þar til gata hennar hafði verið greidd með öðrum hætti undir miðnætti á kjördag. Það má því segja að snjóbíllinn í Króksfjarðarnesi hafi ráðið meiru um gang Íslandssögunnar en efni stóðu til.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Mars 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31