Tenglar

6. júní 2009 |

Skákhátíð í Árneshreppi á Ströndum 19.-21. júní

Guðmundur í Stóru-Ávík og Hrafn Jökulsson skákfrömuður í Trékyllisvík.
Guðmundur í Stóru-Ávík og Hrafn Jökulsson skákfrömuður í Trékyllisvík.

Jóhann Hjartarson stórmeistari, stigahæsti meistari íslenskrar skáksögu, verður meðal keppenda á Minningarmóti Guðmundar Jónssonar frá Stóru-Ávík, sem haldið verður í Djúpavík á Ströndum laugardaginn 20. júní. Athygli er vakin á því, að Minningarmót Guðmundar tekur aðeins einn dag en skákhátíðin í Árneshreppi stendur frá föstudegi til sunnudags. Mótið er öllum opið og þátttaka ókeypis. Keppendur eru hvattir til að skrá sig sem fyrst.

 

Dagskráin hefst í Djúpavík föstudagskvöldið 19. júní með setningu og tvískákarmóti, sem er mjög skemmtilegt listform þar sem tveir eru saman í liði. Laugardaginn 20. júní kl. 12 hefst síðan aðalviðburður helgarinnar í Djúpavík: Minningarmót Guðmundar Jónssonar í Stóru-Ávík. Mótinu lýkur síðdegis með verðlaunaafhendingu og grilli. Verðlaun eru glæsileg.

 

Auk 100 þúsund króna verðlaunapotts er fjöldi góðra vinninga. Þar má nefna skúlptúr eftir Guðjón frá Dröngum, listmun eftir Valgeir í Árnesi, siglingu fyrir tvo norður að Horni, silfurnisti eftir Jóhönnu í Árnesi, gistingu í Norðurfirði, Hótel Djúpavík og sundlaugarhúsinu Krossnesi, landsins besta lambakjöt frá Melum, slæður frá Persíu og Arabíu, hannyrðir Selmu á Steinstúni, málsverð fyrir tvo í Kaffi Norðurfirði, og bækur frá Forlaginu og Skugga.

 

Á sunnudeginum kl. 13 er svo komið að hraðskákmóti í Kaffi Norðurfirði. Allir eru hjartanlega velkomnir, hvort sem er til að tefla eða sýna sig og sjá aðra. Þátttaka er ókeypis.

 

Með hátíðinni að þessu sinni er ætlunin að heiðra minningu Guðmundar Jónssonar í Stóru-Ávík, sem jafnan var hrókur alls fagnaðar á skákþingum eins og öðrum mannamótum. Guðmundur í Stóru-Ávík, sem fæddur var árið 1945, var mikill og ástríðufullur skákáhugamaður og tók meðal annars þátt í hátíðinni á síðasta ári. Hann lést núna hinn 25. apríl og með hátíðinni vilja vinir hans og félagar heiðra minningu góðs drengs.

 

Skipuleggjendur ætla sér að leiða saman heimamenn og gesti, stráka og stelpur, mjóa og feita, unga og gamla. Allt í samræmi við kjörorð FIDE og Hróksins: Við erum ein fjölskylda.

 

Sett hefur verið upp Facebook-síðan Skákhátíð í Árneshreppi á Ströndum.

 

Upplýsingar og skráning: Róbert Lagerman, chesslion@hotmail.com, sími 696 9658, og Hrafn Jökulsson, hrafnjokuls@hotmail.com, sími 451 4026.

 

Á myndinni er Guðmundur heitinn í Stóru-Ávík að fræða Hrafn Jökulsson skákfrömuð og rithöfund í Trékyllisvík um héraðið. Reykjaneshyrnan í baksýn.

 

Meira hér, svo sem varðandi gistingu og fleira.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30