Tenglar

13. mars 2019 | Sveinn Ragnarsson

Skáldakynning á sprengikvöldi Lions

Aðalheiður Hallgrímsdóttir
Aðalheiður Hallgrímsdóttir
1 af 3

Saltkjötsveisla Lions á Reykhólum var á föstudagskvöldið.


Að venju var kynnt skáld úr héraðinu, að þessu sinni var það Aðalheiður Hallgrímsdóttir. Aðalheiður, eða Heiða eins og hún er oftast kölluð, ólst upp á Dagverðará á Snæfellnesi. Þar bjuggu foreldrar hennar, Helga Halldórsdóttir og Hallgrímur Ólafsson. Þau voru bæði hagmælt í betra lagi svo Heiða á ekki langt að sækja þennan hæfileika.


Heiða fann mannsefni hér í sveitinni ung að árum, Jón Snæbjörnsson frá Stað, ævinlega kallaður Manni. Hann var ráðsmaður í Tilraunastöðinni (það heitir Kötluland í dag) og þar bjuggu þau fyrstu árin, en keyptu svo Mýrartungu ll og bjuggu þar í rúm 20 ár, til 1988, en þá var heilsa Manna farin að bila svo þau seldu jörðina og fluttu suður.


Eins og á æskuheimili Heiðu, þar sem  foreldrar hennar og heimilisfólk ortu bæði vísur og kvæði, þá var áframhald á því á hennar eigin heimili, því Manni átti líka mjög létt með að setja saman vísur.  Þau Manni og Heiða gerðu dálítið af því að yrkja gamanbragi fyrir þorrablót og þar naut sín spaugsemin sem þeim var gefin í ríkum mæli.


Manni lést í janúar árið 2000 eftir langvarandi heilsuleysi. Heiða gaf út ásamt börnum þeirra, bók með kveðskap Manna árið 2011 og hún heitir einfaldlega; MANNI - kveðskapur Jóns Snæbjörnssonar. Árið 2017 gaf hún svo út bók með kveðskap foreldra sinna, Hallgríms og Helgu; Hugdettur og heilabrot.


Það er fleira en hagmælskan sem Heiðu er til lista lagt, hún hefur tónlistargáfu og yrkir gjarnan undir lög. Hún hefur fengist við söng og spilamennsku, og svo er hún bráðflink í höndunum.


Hún lét þess getið, að allan tímann sem hún bjó hér í sveitinni langaði hana til að yrkja ljóð til Reykhólasveitarinnar, en varð ekki af. Það var svo fyrir nokkrum vikum, þegar hún var í flugvél á leið til Tenerife í orlof, að hún leiðir hugann að þessu og ljóðið varð til.


Á skáldakynningunni voru dætur Heiðu með henni, þær Inga Hrefna, Ólína Kristín og Unnur Helga og sungu nokkur kvæða hennar, þar á meðal Reykhólasveit.


  

Reykhólasveit

Ort í flugvélinni á leiðinni til Tenerife, 26. febrúar, 2019

Texti: Aðalheiður Hallgrímsdóttir Lag:  Dag í senn

 

 Að koma hér, það kveikti í mínu hjarta

að kynnast öllu á himni, sæ og jörð.

Hér ég átti blíða ævi og bjarta

er blíðir straumar liðu um Breiðafjörð.

 

Fjöllin eru fagurlöguð smíði

sem faðminn breiða þreyttum gesti mót

fyrir utan fjörðurinn er víði

sem fjöldi eyja skreyta hafsins rót.

 

Hvergi finnst mér fegurra að búa

friðsæld brosir öllum hér í mót,

skógar, vötn og Vaðalfjöllin hlúa

að vegaþreyttum, göngulúnum fót.

 

Geitafellið löngum glatt mig getur

þar gekk ég forðum létt í sál og hug

þegar sólin sumar jafnt sem vetur

sendi geisla og rekur skugga á flug.

 

Ég óska þess að alltaf sólin bjarta

ylji og verndi það sem lifir hér,

að alltaf kærleik, ást og von í hjarta

öllum gefist. Það er ósk frá mér.

 

  

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2023 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30