Skammvinnt geislaflóð um vetrarsólstöður
Vetrarsólhvörf (vetrarsólstöður) eru í dag. Þá er sólin lægst á lofti á norðurhveli jarðar en síðan tekur daginn að lengja á nýjan leik um eitt hænufet í senn. Að íslenskum tíma voru sólhvörfin að þessu sinni fjórar mínútur yfir klukkan tólf á hádegi. Rétt hádegi eða þegar sólin er í hásuðri og hæst á lofti var litlu síðar eða laust fyrir klukkan hálftvö. Á öðrum og þriðja tímanum gægðist sólin eldbjört til Reykhóla þar sem hún skreiddist með fjallgarðinum upp af Skarðsströndinni. Myndin er tekin kl. 13.13 þegar dagstjarnan lét geislum bregða á litla þorpið á Reykhólum eins og til að minna á bjartari tíma í vændum.
____________________________________
Þennan dag árið 1844 orti Jónas Hallgrímsson vísuna alkunnu hér fyrir neðan. Síðan dó hann um vorið.
Enginn grætur Íslending,
einan sér og dáinn.
Þegar allt er komið í kring
kyssir torfa náinn.