„Skelfilegt“ - „algerlega óviðunandi ástand“
„Þetta er algerlega óviðunandi ástand og ekki okkur bjóðandi sem hér búum“, segir Magnús Ólafs Hansson, atvinnuráðgjafi í Vesturbyggð, í pósti til Reykhólavefjarins. Þar á hann við ástand Vestfjarðavegar 60 um Gufudalssveit í Reykhólahreppi, sem er helsta vegtenging og flutningaleið sunnanverðra Vestfjarða. „Mér er kunnugt um það að í liðinni viku og einnig í fyrrinótt var flutningabíll í vandræðum með að komast upp hálsana vegna drullu og hálku. Í fyrra tilfellinu náði bóndinn í Djúpadal að draga flutningabílinn upp með öflugri dráttarvél en í fyrrinótt náðist það ekki, vélin hafði ekki afl til þess, þannig að það varð að bíða til morguns eftir tæki frá Vegagerðinni sem kom frá Búðardal.“
„Það er skelfilegt að búa við þetta árið 2012,“ sagði Helgi Auðunsson, eigandi flutningafyrirtækisins Nönnu á Patreksfirði, í samtali við Morgunblaðið, en flutningabíll frá fyrirtækinu sat fastur á Ódrjúgshálsi í alla fyrrinótt. Nanna sér um að flytja vörur í verslanir á Patreksfirði og fer úr Reykjavík síðdegis á hverjum degi. Fyrirtækið getur ekki nýtt sér þjónustu Breiðafjarðaferjunnar Baldurs nema á leiðinni suður, nema því aðeins að vera með fleiri bíla í notkun, sem þýðir aukinn kostnað.
„Þessi vegur er búinn að há okkur mikið í fjölda ára. Ég er margoft búinn að biðja um að vegurinn sé bara tekinn áfram. Hann er bara í vinkilbeygju í dag. Við þurfum eiginlega að stoppa til að komast upp því hallinn á veginum er svo mikill. Þetta er búið að vera mikið basl í vetur“, segir Helgi Auðunsson.