Tenglar

31. mars 2011 |

Skelræktin verður til að frumkvæði heimamanna

Beggi á Gróustöðum sýnir gestum kræklinginn sinn á Ólafsdalshátíð 2008.
Beggi á Gróustöðum sýnir gestum kræklinginn sinn á Ólafsdalshátíð 2008.
Félagið Skelrækt, landssamtök skelræktenda, gengst fyrir ráðstefnu um skelræktarmál, sem haldin verður í Háskólanum á Akureyri á morgun undir heitinu Umhverfisvæn atvinnusköpun. Rektor skólans setur ráðstefnuna en síðan mun rúmur tugur vísindamanna og sérfræðinga flytja erindi. Um tuttugu ræktendur eru í Skelrækt, bæði fyrirtæki og einstaklingar. Formaður stjórnar Skelræktar frá 2009 og áður stjórnarmaður er Bergsveinn Reynisson á Gróustöðum í Reykhólahreppi, sem á og rekur Nesskel ehf. ásamt Signýju M. Jónsdóttur konu sinni. Bergsveinn hefur lagt stund á kræklingarækt frá 2007, aðallega í Króksfirði en einnig í Gilsfirði.

 

Skelræktendur innan félagsins eru misjafnlega langt á veg komnir og sumir að byrja ræktun. Þeir eru í mörgum byggðum á landinu vestanverðu, norðanverðu og austanverðu en suðurströndin er illa til slíks fallin. „Þetta er ekkert atvinnuátak sem er verið að búa til fyrir hinar dreifðu byggðir landsins“ segir Bergsveinn, „heldur verður þetta til að frumkvæði heimamanna.“

 

Bergsveinn segir að reiknað sé með um 200 tonnum af skel til uppskeru á þessu ári, aðallega hjá ræktendum í Stykkishólmi, á Drangsnesi og í Hrísey. Þar af gæti markaður innanlands tekið við kringum 30 tonnum en hitt verður að flytja út. „Söluhorfur eru góðar og skortur er á skel í helstu neyslulöndunum, sem eru í Evrópu“ segir hann.

 

„Íslensk skel er í hvað bestu formi á vorin, frá mars til júní, hrognafull og feit. Á þeim tíma er hún nýhrygnd í Evrópu og ekki góð til neyslu og það gefur markaðstækifæri. Hins vegar á eftir að finna út hvaða aðferð er best til að koma henni á markað og hvort hún verður flutt út lifandi. Þannig er eftirspurnin mest og verðið best. Á móti kemur að erfitt er að koma henni þannig á markað frá Íslandi og því er verið að skoða ýmsar aðrar leiðir. Þar er samt mikið starf óunnið. Menn binda líka vonir við að hreinn sjór gefi okkur svolítið forskot á evrópsku skelina, sem er stundum ræktuð í hálfgerðum drullupollum. En hverjum þykir sinn fugl fagur“ segir Bergsveinn Reynisson.

 

Skelrækt við strendur Íslands hefur verið í þróun síðustu 20 til 30 ár. Einkum hefur verið unnið að bláskeljarækt en fleiri skeltegundir eru taldar koma til greina.

 

Ræktun í sjó er í grundvallaratriðum ólík eldi að því leyti, að ekki er um fóðrun að ræða. Hvað hagkvæmni í rekstri varðar er þar um mikinn mun að ræða, vegna þess að í eldi fer um helmingur rekstrarkostnaðar í fóður og fóðrun. Sá þáttur er ekki fyrir hendi í ræktun þar sem lífveran nærir sig algerlega sjálf og lifir í raun eins og villt skel í náttúrlegu umhverfi.

 

Einnig er sá munur, að í eldi er skelinni haldið í einhvers konar lokuðu kerfi þar sem hrygningu og klaki er stjórnað. Í skelrækt er náttúrlegum lirfum safnað eftir eðlilega hrygningu. Lirfurnar safnast síðan á hengilínur á sama hátt og þær taka sér bólfestu á fjörugrjóti. Ræktunarskelin lifir því sama lífi og fjöruskelin nema hvað aðstæður á ræktunarbúnaði eru hagstæðari. Ræktunarskel vex hraðar en fjöruskel og laus við vandamál eins og sand og perlumyndun.

 

Vefur Skelræktar

 

Sjá einnig:

12.08.2010  Kræklingaverksmiðja komin í Reykhólahrepp

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30