Skilaboð Vestfirðinga til ráðherra voru skýr
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra ferðaðist um Vestfirði í síðustu viku, heimsótti fjölda fyrirtækja og fundaði með sveitarstjórnum. „Það dylst engum sú mikla uppbygging og sóknarhugur sem á sér stað á Vestfjörðum, sér í lagi hvað varðar fiskeldi og ferðaþjónustu. Skilaboð Vestfirðinga voru skýr; ríkisvaldið þarf að tryggja að íbúar Vestfjarða sitji við sama borð og íbúar annarra landshluta varðandi samgöngur, orkumál og aðra innviði samfélagsins. Þá munu þeir eflast og dafna og treysta þjóðarhag,“ segir í ítarlegri umfjöllun ráðuneytisins um ferð ráðherrans.
Tveir þingmenn NV-kjördæmis voru með ráðherra í för, Einar Kristinn Guðfinnsson, forseti Alþingis, og Haraldur Benediktsson, fyrrv. formaður Bændasamtakanna. Komið var víða við í ferð ráðherra og föruneytis. Í Súðavíkurhreppi var fundað með sveitarstjóra og oddvita um þau mál sem efst eru á baugi á þeirra heimavelli, sem og samskipti þeirra og stjórnvalda. Þá fundaði ráðherra jafnframt með forsvarsmönnum Fjórðungssambands Vestfirðinga, Markaðsstofu Vestfjarða og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða.
Ráðherra heimsótti Fjarðalax á Patreksfirði, Dýrfisk í Tálknafirði og Arnarlax á Bíldudal og lögðu forsvarsmenn fyrirtækjanna þunga áherslu á að öll stjórnsýsla varðandi greinina yrði styrkt og leikreglur skýrðar. Þá væri mjög brýnt að framkvæma nauðsynlegar rannsóknir á því hve mikið fiskeldi hver fjörður þyldi án þess að það kæmi niður á náttúrunni.
Þá heimsótti ráðherra ásamt föruneyti sínu m.a. Norðursalt á Reykhólum, Villimey á Tálknafirði, Westfjords Adventures og Fosshótel Vestfirði á Patreksfirði, Hótel Breiðavík, Fossadal á Ísafirði og Örnu ehf. og True West í Bolungarvík. Ráðherra kynnti sér einnig starfsemi Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum og Kalkþörungaverksmiðjunnar á Bíldudal og nýsköpunarfyrirtækið Hafkalk.
„Sjávarútvegur er vitanlega grunnstoðin á Vestfjörðum og fundaði ráðherra með forsvarsmönnum Hraðfrystihússins Gunnvarar, sem er stærsta fyrirtækið á Vestfjörðum og á sér 70 ára sögu. Samhliða sjávarútveginum blómstrar ýmis iðnaður og nýsköpun og heimsótti ráðherra m.a. vélsmiðjuna Loga á Patreksfirði, sem er elsta fyrirtækið í bænum, 3X-Technology á Ísafirði, sem er í fremstu röð í heiminum í smíði alls kyns tækja og tæknilausna fyrir sjávarútveginn, og Kerecis á Ísafirði, sem framleiðir lækningavörur úr þorskroði,“ segir enn fremur í umfjöllun ráðuneytisins.
„Þá var einkar áhugavert að kynnast hugmyndafræði forsvarsmanna Borea Adventures sem leggja áherslu á göngu-, kajak-, skíða- og seglbátsferðir með fámenna hópa, sem njóta fyrir vikið töfra Vestfjarða á hinn eina sanna hljóðláta hátt. Og ekki má gleyma þeirri fjölbreyttu – og frábæru – flóru veitingahúsa sem er að finna um alla Vestfirði,“ segir þar að lokum.
Sjá einnig:
► Iðnaðar- og viðskiptaráðherra og föruneyti í heimsókn á Reykhólum