Skipaviðgerðir í hirðingjatjaldi
Bátasmíðar og bátaviðgerðir er ekki nein sérstök nýlunda á Reykhólum, en aðallega hafa það þá verið súðbyrtir trébátar, trillur og skektur.
Aðstaða til viðgerða á stærri bátum er eiginlega ekki fyrir hendi og ekkert húsnæði sem rúmar þá. Þörungaverksmiðjan hefur að vísu aðstöðu og húspláss til viðhalds á þangsláttuprömmum og öðrum tækjum sem hún á.
Þeir félagar Kári Geir Jensson og Játvarður Jökull Atlason létu það ekki aftra sér að ráðast í töluvert mikla skrokkviðgerð á bát sínum Sunnu BA, sem er 16 brt. stálbátur. Þeir tóku bátinn á land og byggðu yfir hann skýli, timburgrind klædda dúk og aflögðum þangnetum. Það minnir ef til vill svolítið á mongólsk hirðingjatjöld í útliti, en þarna hafa þeir skjól og þokkalega vinnuaðstöðu.
Sunnu nota þeir við þangskurð, sem dráttarbát og hafast við í henni þegar þeir eru að slá. Hún er heppileg til þess, rúmgóð og fer vel í sjó. Sunna var smíðuð í Hollandi 1988, var svo seld til Noregs, þaðan kom hún hingað til lands um síðustu aldamót og var þá þjónustubátur við fiskeldi á Patreksfirði. Fyrir vestan hét báturinn Jörundur, þaðan var hann seldur austur á Breiðdalsvík, þar fékk hann nafnið Sunna SU 77 og var gerð út sem fiskibátur.
Fyrir austan keyptu þeir félagar svo bátinn og fékk hann að halda nafninu. Eftir allt þetta flandur var kominn tími til að skipta um liðlega fjórðung af botninum og ýmsa álagsfleti.
Eftirfarandi athugasemd við þessa grein kom frá Jörundi Garðarssyni, þar sem hún er birt á bb.is:
„Gunnar Karl Garðarsson á Bíldudal flutti bátinn inn frá Noregi skömmu eftir aldamótin og var hann notaður við kræklingarækt. Þar fékk hann nafnið Jörundur BA 40. Síðan seldur til Patreksfjarðar.“
Kærar þakkir fyrir þessar upplýsingar.