Tenglar

7. desember 2011 |

Skipulagsstofnun þversum gegn nýjum vegi

Skjáskot úr frétt Stöðvar 2.
Skjáskot úr frétt Stöðvar 2.

Stærsta verkið sem Vegagerðin hugðist hefja á næsta ári, þverun Kjálkafjarðar og Mjóafjarðar, að langmestu leyti í Múlasveitinni gömlu í Reykhólahreppi, fær afar neikvæða umsögn Skipulagsstofnunar. Menn höfðu vonast til að meðan leyst yrði úr deilunum endalausu um vegarstæði í Gufudalssveit yrði þó á næstu þremur árum unnt að endurbæta veginn vestar í héraðinu með því að leggja af 24 km langan varasaman malarveg um Kjálkafjörð og Kerlingarfjörð. Í staðinn kæmi 16 km malbiksvegur og 8 km stytting með brúm og fyllingum þvert yfir Kjálkafjörð og Mjóafjörð, sem er inn af Kerlingarfirði.

 

Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.

 

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, segir í samtali við vestfirska fréttavefinn bb.is á Ísafirði í morgun að niðurstaða Skipulagsstofnunar sé mikið áfall.

 

Áðurnefndur 24 km vegarkafli, sem ætlunin var að losna við, er mjór með kröppum beygjum og blindhæðum, fjórum einbreiðum brúm og snjóþungum köflum í fjarðabotnum.

 

Ögmundur Jónasson ráðherra samgöngumála hefur ítrekað heitið Vestfirðingum því að þetta skyldi verða forgangsverkefni. Í samgönguáætlun sem nú er verið að ganga frá á Alþingi er boðað að þessi endurbygging Vestfjarðavegar fái langstærsta framlagið á næsta ári, eða einn milljarð króna af þeim sex milljörðum sem verja á til nýframkvæmda á landinu.

 

Umsögn Skipulagsstofnunar, sem birt var í fyrradag, er hins vegar afar neikvæð. Þar segir að fyrirhugaðar þveranir fjarðanna muni verða mjög áberandi mannvirki og rýra gildi svæðisins. Áhrif á landslag og verndarsvæði verði verulega neikvæð og framkvæmdin myndi valda óbætanlegum skaða.

 

Þá gerir Skipulagsstofnun alvarlegar athugasemdir við áhrif á arnarvarp og segir að varpstaðir arna verði á einum kafla sýnilegri vegfarendum en áður. Það geti leitt til þess að forvitni vegfarenda verði vakin og umgangur við hreiður arnanna verði meiri en nú er. Þá staðhæfir Skipulagsstofnun að hávaði vegna vegavinnu geti styggt erni frá varpi.

 

Varðandi þessi ummæli Skipulagsstofnunar um áhrif vegagerðar á arnarvarp má bæta við eftirfarandi, sem fram kom hér á vef Reykhólahrepps í haust:

 

Á fréttavefnum visir.is í gær, þann 28. september, er rakið það sem fram kom í frétt á Stöð 2 þá um kvöldið. Þar segir að haförn hafi í fyrrasumar komið upp unga á miðju framkvæmdasvæði við austanverðan Vatnsfjörð austan Barðastrandar á sama tíma og sprengingar stóðu sem hæst nálægt hreiðrinu. Í fréttinni segir [þess má geta, að Þorleifur Eiríksson sem þar er vitnað til, forstöðumaður Náttúrufræðistofu Vestfjarða, hefur doktorsgráðu í dýrafræði]:

  • Forstöðumaður Náttúrufræðistofu Vestfjarða segir erni ekki hræðast bíla jafnmikið og gangandi fólk. Sumarbústaðir séu mun verri á arnarsvæðum heldur en vegir. Einn reyndasti leiðsögumaðurinn í Barðastrandarsýslum, Úlfar Thoroddsen á Patreksfirði, segir að þetta hafi litið illa út og mikið uppnám hafi orðið snemma sumars í fyrra og menn talið að umhverfisspjöll væru í uppsiglingu. Framkvæmdir höfðu, að því er talið var fyrir mistök, verið leyfðar á þeim tíma árs sem álitinn var sá viðkvæmasti fyrir arnarvarpið og var rætt um að stöðva vinnuna, þar sem ungi hafði uppgötvast í hreiðrinu.
  • „Það hafði gerst að örninn, sennilega bara í banni, leyfði sér að verpa oní miðju framkvæmdasvæðinu, þar sem sprengingarnar og djöfulgangurinn var mestur,“ segir Úlfar. Forstöðumaður Náttúrustofu Vestfjarða, Þorleifur Eiríksson, staðfestir að unginn hafi komist á legg úr umræddu hreiðri og framkvæmdirnar hafi engar afleiðingar haft fyrir varpið. Vitað sé að ernir láti tæki ekki trufla sig. Og örninn var enn á svæðinu í síðustu viku, þegar Stöð 2 var þar að mynda, og sat þá á steini í fjörunni nálægt þjóðveginum.
  • Úlfar segir að svipað hafi gerst þegar vegur var fyrst lagður þarna fyrir um fjörutíu árum. Umhverfissinnar og gæslumenn arnarins hafi þá risið upp og sagt að þetta gengi ekki. Vegurinn hafi samt verið lagður og flestir haldið að örninn yfirgæfi hreiðursvæðið. „Aðlögunarhæfni arnarins var nú mun meiri en það. Hann bara fór upp í næsta stall.“ Og hefur verið þar síðan, segir Úlfar. Sjálfur telur hann að aðlögunarhæfni arnarins sé margfalt meiri en almennt sé viðurkennt.

29.11.2011  Matsskýrsla Vegagerðarinnar vegna nýja vegarins í Múlasveit

04.10.2011  Múlasveit: Firðir brúaðir og mikil stytting

  

Álit Skipulagsstofnunar, birt 5. desember 2011

 

Athugasemdir

Einar Sveinn, mivikudagur 07 desember kl: 11:52

Hvað gengur skipulagsstofnun til. Ætli það sé ekki til vineskja um byggðina á sunnan verðum Vestfjörðum hjá stofnuninni.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31