Skírnarfontur Beckmanns í Reykhólakirkju
Í fordyri Reykhólakirkju var núna fyrir skömmu settur upp upplýsingaskjöldur um listamanninn sem skar út skírnarfontinn í kirkjunni, Wilhelm E. Beckmann. Afhending skjaldarins fór fram í kirkjunni og tók sóknarpresturinn, sr. Hildur Björk Hörpudóttir, við honum úr hendi stjórnarformanns Stofnunar Wilhelms Beckmann, Jóns Þórs Þórhallssonar. Stofnunin hefur það að markmiði að kynna listsköpun og verk listamannsins, en hann á m.a. verk í ellefu kirkjum víða um landið. Þá eru verk eftir hann í einkaeigu ýmissa einstaklinga og fyrirtækja innanlands og erlendis.
Með Jóni Þór í för var Hrafn A. Harðarson, fræðimaður og ljóðskáld og listaverkagæslumaður Stofnunar Wilhelms Beckmann.
Sr. Hildur Björk sagði að margir gestir heimsæktu kirkjuna og fengur væri í upplýsingum um helgigripina þar. Auk skjaldarins liggur frammi bæklingur á þremur tungumálum með frekari upplýsingum um listamanninn og verk hans.
Wilhelm Beckmann var íslenskur listamaður af þýskum uppruna, myndhöggvari og myndskeri, fæddur í Hamborg 1909, dáinn í Reykjavík 1965. Hann lærði útskurð og myndhöggvaralist í Hamborg og lauk námi 1927. Hann setti síðan upp eigin vinnustofu auk þess sem hann kenndi við Listaháskóla Hamborgar.
Wilhelm var félagi í þýska jafnaðarmannaflokknum og átti í útistöðum við þýska nasistaflokkinn og varð að flýja land, fór fyrst til Danmerkur og þaðan til Íslands 1935. Í Danmörku tóku danskir jafnaðarmenn á móti honum og höfðu síðan samband við Alþýðuflokkinn (Stefán Jóhann Stefánsson þingmann sem varð litlu síðar formaður flokksins og enn síðar forsætisráðherra), sem greiddi götu hans hér. Á Íslandi bjó Wilhelm til æviloka, kvæntist íslenskri konu og eignaðist tvö börn. Hann var félagi í Alþýðuflokknum og gerði mörg veggspjöld fyrir hann.
Wilhelm Beckmann var mjög fjölhæfur listamaður. Allt lék í höndum hans. Hann skar út í tré, hjó í stein, málaði myndir og smíðaði skartgripi. Þekktastur er hann fyrir kirkjulistaverk sín, en verk hans, skírnarfontar og ljósasúlur, prýða á annan tug kirkna á Íslandi. Hann varð íslenskur ríkisborgari 1946, var fyrsti bæjarlistamaður Kópavogs 1954 og hlaut listamannalaun Alþingis 1960.
Árið 2013 komu ættingjar hans og Kópavogsbær á fót Stofnun Wilhelms Beckmann. Hlutverk hennar er að varðveita minningu hans, halda úti sýningum á verkum hans og styðja unga myndhöggvara til náms. Stofnunin heldur þegar úti sýningum í Bókasafni Kópavogs, í Prímus kaffi á Hellnum á Snæfellsnesi og í Menningarmiðstöðinni á Eskifirði. Unnið er að ritun ævisögu hans.
Frekari upplýsingar er að finna á vef stofnunarinnar (www.wilhelm-beckmann-foundation.eu) þar sem á annað hundrað verk hans eru skráð og í Ársriti Héraðsskjalasafns Kópavogs 2006-2007.
Skírnarfonturinn í Reykhólakirkju sýnir Maríu með Jesúbarnið og er letrað á hann Í nafni guðs föður og heilags anda en á fótinn er skráð Reykhólakirkja 1961 auk fangamarks listamannsins. Fonturinn var gefinn til minningar um Jóhönnu Hákonardóttur.
Hátíðarmessan á 50 ára vígsluafmæli Reykhólakirkju (Reykhólavefurinn 7. september 2013).
Tvö kirkjufok og búferlaflutningar Reykhólakirkju (Reykhólavefurinn 25. desember 2012).
Myndir af kirkjunum tveimur á Reykhólum (Reykhólavefurinn 25. nóvember 2012).