Skógræktarfélagið Björk: Allir velkomnir á fundinn
Allt áhugafólk um skógrækt, útivist og náttúru er velkomið á aðalfund Skógræktarfélagsins Bjarkar í Reykhólahreppi sem haldinn verður næsta mánudagskvöld, 19. janúar, hvort sem þar er um skráð félagsfólk að ræða eða ekki. Þeir sem vilja geta þá gengið í félagið. Fundurinn verður í föndursalnum í Barmahlíð, dvalarheimili aldraðra á Reykhólum, en skógræktarsvæði félagsins er á sjálfri Barmahlíð. Skógræktarfélagið Björk verður sextugt á næsta ári og félagsmenn eru 25-30 talsins. Formaður er Guðlaugur Theódórsson á Reykhólum.
Hinu mjúkláta landslagi í Reykhólahreppi fylgir gróðursæld svo af ber. Á leiðinni frá veginum milli landshluta og út að Reykhólum er Barmahlíð, gróðri vafin á sumrum og einstaklega skrúðfögur í haustlitunum.
Skáldið og sýslumaðurinn Jón Thoroddsen, frumkvöðull nútíma skáldsagnaritunar hérlendis (Piltur og stúlka, Maður og kona), sem fæddur var á Reykhólum, orti þannig um Barmahlíð þegar hann hugsaði til æsku sinnar:
Hlíðin mín fríða
hjalla meður græna,
blágresið blíða.
berjalautu væna.
Á þér ástaraugu
ungur réð ég festa.
Blómmóðir besta.
Myndirnar sem hér fylgja tók Viktoría Rán Ólafsdóttir í skóglendi Bjarkar á Barmahlíðinni í mars á liðnu ári. Þar sér austur yfir Berufjörðinn til Hafrafells og Borgarlands.