Tenglar

14. júlí 2013 | vefstjori@reykholar.is

Skráningar hafnar á viðburði Reykhóladaga

Stefán á Seljanesi á leiðinni á Reykhóladaga 2011. Á hátíðinni eru gömlu traktorarnir ómissandi.
Stefán á Seljanesi á leiðinni á Reykhóladaga 2011. Á hátíðinni eru gömlu traktorarnir ómissandi.

Dagskrá héraðshátíðarinnar (byggðarhátíðarinnar) Reykhóladaga 2013 sem verður fyrir og um aðra helgi liggur fyrir í meginatriðum og hafa Ingi Þór og Rósamunda tekið saman yfirlit sem birt er hér fyrir neðan. Undanfarin ár hefur mótast hefð sem ekki verður brugðið út af a.m.k. á þessu ári. Hins vegar koma inn nýjungar eins og alltaf og skerpt er á áherslum hvers dags. Hafa skyldi í huga að á hátíðum sem þessari er maður manns gaman.

 

Á byggðarhátíð á borð við Reykhóladaga fjölmenna jafnan ekki síst brottfluttir og fólk sem á einhver tengsl við héraðið. Margir fá inni hjá ættingjum og vinum en að öðru leyti fást á Upplýsingamiðstöð ferðafólks á Reykhólum (sími 434 7830, netfang info@reykholar.is) upplýsingar um gistimöguleika í héraðinu og annað sem máli skiptir.

 

 

 

Reykhóladagar 2013 - byggðar- og héraðshátíð 25.-28. júlí

 

Snyrting, skreyting og fegrun umhverfisins eru þema daganna fyrir sjálfa hátíðina. Skreytingarlitirnir eru þeir sömu og undanfarin ár, en um er að ræða höfuðliti og öllum frjálst að skreyta og fegra sitt umhverfi að vild. Litirnir eru þessir: Rauðan lit fær sveitabyggðin í Reykhólahreppi, appelsínugulan fær Reykjabrautin öll og Hellisbraut frá Læknishúsi að Grettiströð og fjólubláan fær Hellisbraut frá Grettiströð að Hólakaupum. Veglegir vinningar verða í boði fyrir flottustu skreytinguna en til að gefa svolitla vísbendingu, þá koma þeir vinningshafanum langt.

 

Miðvikudagurinn 24. júlí er skreytingardagur fyrir alla sem vettlingi geta valdið. Þá er leitast við að fá fólk hvarvetna í héraðinu til að skreyta umhverfi sitt, sem og þá staði sem eru „vegalausir“. Efni og annað sem til þarf verður hægt að nálgast á Báta- og hlunnindasýningunni kl. 18, þar sem sjálfboðaliðar verða einnig til aðstoðar þeim sem þess óska.

 

 

Fimmtudaginn 25. júlí ...

... eru kvikmyndasýningar á Báta- og hlunnindasýningunni. Núna stendur yfir kosning um myndir sem sýndar verða.

 

 

Föstudaginn 26. júlí ...

... eru fastir liðir, eins og hestarnir ljúfu og góðu fyrir utan Báta- og hlunnindasýninguna og boðið verður heim í súpu og annað góðmeti (og líka á laugardeginum). Þar þarf aðstoðar við frá heimamönnum og hafa þegar nokkrir boðið heimili sín og eldamennsku. Gaman væri ef fleiri gætu lagt hönd á plóg við þetta. Þeir sem vilja bjóða heim til sín gestum í súpu vinsamlegast sendi póst í netfangið reykholar2013@gmail.com.

 

Kassabílakeppnin er á sínum stað og eftir hana verður farið í þrautabraut litanna. Þar er þess vænst að litirnir mæti með fjóra fulltrúa sem keppa í þrautabraut þar sem reynir á gáfur, krafta og áræðni. Þar verða veitt verðlaun fyrir besta liðið (sú mæling er afstæð), frumlegustu búningana og fegurstu hrósin, sem og bestu hvatningarnar. Nú er um að gera að íbúar og gestir fari að ræða hverjir verði fulltrúar litanna í ár.

 

Eftir að þessum lið lýkur verður sameiginlegt grill í Hvanngarðabrekku þar sem allir mæta með sitt á grillið. Þar munu allir eiga ljúfa stund saman, farið verður í leiki og hver veit nema raddböndin verði þanin.

 

Að loknum snæðingi er hin margrómaða og spennandi spurningakeppni (þrír í liði) þar sem Gauti Eiríksson kennari frá Stað ber upp spurningar sínar. Eins og áður verður sr. Elína Hrund sóknarprestur honum til aðstoðar við dómgæsluna. Nú er um að gera að þeir sem hyggjast reyna að svara spurningum Gauta skrái sig í netfanginu reykholar2013@gmail.com.

 

 

Laugardagurinn 27. júlí ...

... er í raun skemmtun fyrir alla aldurshópa. Dagurinn byrjar snemma á þarabolta í Kvennó, en þar þarf að skrá sig í netfanginu reykholar2013@gmail.com. Heimboð í súpu og soddan eins og daginn áður, sjá nánar þar. Sveitamarkaður verður á sínum stað í matsal Reykhólaskóla. Þangað hafa nú þegar nokkrir boðað komu sína með vörur en ávallt er hægt að bæta við fleiri áhugasömum. Kvenfélagið verður með sitt rómaða kaffi og veitingar til sölu á sama stað og fyrir utan verður margt um að vera fyrir unga sem aldna.

 

Dráttarvélar sem hafa séð tímana tvenna og jafnvel þrenna munu aka um byggðina áður en akstursfimi á þeim hefst við Báta- og hlunnindasýninguna. Að fiminni lokinni tekur við dagskrá fyrir yngri kynslóðina, en barnaleikrit frá Kómedíuleikhúsinu verður í boði og söngatriði frá Elínu og Katarinu sem og leikir og þrautir. Grillaðar pylsur og meðlæti í boði fyrir ungviðið.

 

Á kvöldskemmtuninni í íþróttahúsinu er hátíðarkvöldverður ásamt skemmtiatriðum, en þar verður fram borinn matur sem á eftir að koma verulega á óvart. Veislustjórn verður í öruggum höndum Ingvars Jónssonar skemmtikrafts. Forsala á miðum verður auglýst síðar, sem og aðgangseyrir á skemmtunina.

 

Á eftir verður dansleikur þar sem aldurstakmark verður 18 ár. Hljómsveitin Nýja band keisarans heldur uppi fjörinu.

 

 

Sunnudaginn 28. júlí ...

... verður sundlaugarfjör í Grettislaug fyrir hádegi þar sem verður farið í leiki og annað sprell. Léttmessa verður í Reykhólakirkju eftir hádegið þar sem flutt verður hugvekja og tónlistaratriði. Eftir messu verður leikrit frá Kómedíuleikhúsinu.

 

 

Nánari dagskrá Reykhóladaganna 2013 með tímasetningum og staðsetningum verður birt á Reykhólavefnum núna í vikunni sem er að ganga í garð og jafnframt verður henni dreift inn á hvert heimili í Reykhólahreppi og Dalabyggð.

 

Skráningar til þátttöku í viðburðum hátíðarinnar fara fram í gegnum netfang hennar, reykholar2013@gmail.com. Þar er líka hægt að senda athugasemdir og ábendingar, sem eru vel þegnar, og biðja um nánari upplýsingar um einstaka liði dagskrárinnar. Athugasemdum og ábendingum mætti auðvitað ekki síður velta upp hér fyrir neðan. Þá gætu fleiri lagt þar orð í belg varðandi það sem um er rætt.

 

Fylgist líka með á Facebooksíðu Reykhóladaga 2013 og á vefsíðunni Visit Reykhólahreppur.

 

Vinsamlega deilið sem allra víðast!

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30