Skriðuland í Saurbæ: Búið að opna á ný
Sambýlisfólkið Valgeir Þór Ólason matreiðslumeistari og Kristný María Hilmarsdóttir keypti fyrir nokkru verslunar- og veitingastaðinn gamalkunna Skriðuland í Saurbæ. Kristný á náin tengsl við þessar slóðir, afi hennar og amma eru hjónin Kristinn Jónsson og Þórunn Hilmarsdóttir búendur á Skarði á Skarðsströnd, systir hennar og mágur búa á Skarðsá þar rétt hjá og sjálf átti hún heima í Skuld í Saurbæ í nokkur ár. Hún er tvítug að aldri en Valgeir þrítugur og kemur af höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur unnið í fagi sínu á Lækjarbrekku og Vox á Nordica Hotel (nú Hilton Reykjavík Nordica). Sonur þeirra er Hilmar Óli Valgeirsson, sem varð tveggja ára snemma í vetur.
Skriðuland hefur verið lokað síðasta árið eða þar um bil. Þá hafði Dóróthea Sigvaldadóttir frá Hafrafelli rekið verslunina í mörg ár og var komin nokkuð á veg með byggingu hótelálmu með 28 gistiherbergjum, en ekkert þeirra var þó komið í gagnið. Þegar Dóra missti heilsuna var fótunum kippt undan rekstrinum hjá henni. Á undan Dóru var Jón Þór Kjartansson kaupmaður á Skriðulandi um árabil þangað til hann keypti búðina á Reykhólum og rak hana í allmörg ár. Þá hét hún Jónsbúð en ber nú nafnið Hólakaup. Fyrrum var kaupfélagsverslun á Skriðulandi.
Þau Valgeir og Kristný hyggja ekki síst til gistiþjónustu á Skriðulandi. Átta herbergi voru nánast tilbúin og stefna þau að því að taka þau í notkun eftir nokkrar vikur og vonandi fleiri fyrir sumarið. Ætlunin að ganga frá þeim sem þá eru eftir fyrir vorið 2015.
Þó að dagvöruverslunin á Skriðulandi hafi verið opin á ný undanfarnar vikur hefur jafnframt verið unnið að ýmsum breytingum og endurbótum þar innanstokks. Þegar þar er allt komið í kring er ekkert því til fyrirstöðu að hafa þar viðburði af ýmsu tagi, leigja salinn út og vera með veislur og hlaðborð eftir því sem tilefni gefast.
Auk verslunar- og veitingahússins á Skriðulandi og hótelálmunnar fylgdi íbúðarhúsið þar rétt fyrir ofan með í kaupunum.
Þau Kristný og Valgeir láta vel af viðtökum og segja að héraðsfólk sé mjög vinsamlegt og hjálplegt.
Síminn á Skriðulandi er núna annar en var áður eða 564 4844.
Eyvindur, mnudagur 24 febrar kl: 07:46
Til hamingju og gangi ykkur vel