Skrugga: Kaffihús og leikþættir síðasta vetrardag
Leikfélagið Skrugga í Reykhólahreppi efnir til kaffihúss og sýnir fjögur örleikrit (gamanþætti) í íþróttahúsinu á Reykhólum annað kvöld, miðvikudag, síðasta vetrardag. Þættirnir Í bíltúr og Á heimilinu eru eftir Maríu Guðmundsdóttur og voru fyrst sýndir hjá Leikfélagi Mosfellssveitar fyrir fjórum árum, Hjónabandsmiðlunin er eftir óþekktan höfund en Amma í stuði með Guði er eftir Sólveigu Sigríði Magnúsdóttur (Sollu Magg), formann Skruggu, sem jafnframt er leikstjóri. Leikendur eru fimmtán auk gítarleikara en fleiri leggja hönd á plóginn.
Húsið verður opnað kl. 20.30 en gamanið byrjar kl. 21. Kaffi og meðlæti stendur til boða í hléi. Miðaverð er kr. 2.000 og enginn posi.
Æfingar hafa staðið síðan snemma í mars. Meðfylgjandi myndir voru teknar á einni þeirra.