Skuggalegir leikhúsgaldrar á Ströndum
Um þessar mundir setur Leikfélag Hólmavíkur upp leiksýninguna Sweeney Todd – morðóði rakarinn við Hafnargötuna. Leikstjóri er Eyvindur Karlsson og í leikarahópnum er góð blanda yngri og annarra reyndari áhugaleikara. Þessi magnaða sýning býður upp á ferðalag um allan tilfinningaskalann – blóð, svita og tár! Athygli er vakin á því að sýningin hentar ekki ungum börnum né viðkvæmum sálum. Börn yngri en 12 ára skulu vera í fylgd með fullorðnum.
Þannig hefst fréttatilkynning frá Leikfélagi Hólmavíkur. Síðan segir:
Áhugi Strandamanna fyrir leiklist er rómaður og hefur Leikfélag Hólmavíkur staðið fyrir metnaðarfullum leiksýningum um margra ára bil. Þar fá ungir sem aldnir tækifæri til að stíga á stokk og spreyta sig í þeirri merku list að koma fram á sviði. Grunnskólanemendur á staðnum kynnast leiksviðinu snemma og fá mörg tækifæri til að koma fram, sem skilar sér í öflugum leikhóp og eftirminnilegum sýningum. Enda er kjörorð Leikfélags Hólmavíkur. Það er svo gaman að leika!
Sýnt verður 21., 23. og 28. febrúar í Félagsheimili Hólmavíkur og hefjast sýningarnar kl. 20. Fleiri sýningar verða auglýstar síðar á Facebooksíðu Leikfélags Hólmavíkur. Miðapantanir hjá Ester í síma 693 3474.
Við hlökkum til að taka vel á móti þér hér á Ströndum!