Tenglar

4. janúar 2014 | vefstjori@reykholar.is

Skuldir innan við þriðjungur þess sem heimilt er

Greinargerð sveitarstjóra vegna fjárhagsáætlunar Reykhólahrepps fyrir árin 2014 til 2017 er komin hér inn á vefinn. Þetta er nýmæli; slík greinargerð hefur a.m.k. ekki verið birt á seinni árum. Þarna eru útskýrðar ýmsar forsendur fjárhagsáætlunarinnar, samanteknar helstu niðurstöður fyrir árið 2014 og síðan fjallað um hvern lið fyrir sig, bæði í A-hluta og B-hluta. Gert er ráð fyrir því að samstæðan skili á þessu ári afgangi upp á ríflega 24 milljónir króna.

 

Sveitarstjórnarlög kveða á um að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum sveitarfélaga megi ekki vera hærri en 150% af reglulegum tekjum. Skuldahlutfall Reykhólahrepps í árslok 2014 er áætlað um 48% eða innan við þriðjungur af því sem heimilt er.

 

Fræðslu- og uppeldismál eru stærsti útgjaldaliðurinn eða um 70% af skatttekjum sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir að 136 millj. kr. fari í þann málaflokk á þessu ári, þar af eru laun 97 millj. kr. Hér er um 5% hækkun að ræða frá árinu áður og munar þar mest um áætlaðar launahækkanir. Á þessu ári er einnig gert ráð fyrir auknu starfshlutfalli í Reykhólaskóla sem nemur einu og hálfu stöðugildi. Iðjuþjálfi mun koma til starfa í skólanum og aukið verður í við leikskóladeildina vegna fjölgunar barna.

 

Gert er ráð fyrir verulega auknum kostnaði vegna sorpmála á milli ára. Hins vegar er gert ráð fyrir að til atvinnumála fari 2,6 milljónir á móti 2,9 milljónum á síðasta ári. Undir þann lið falla framlag til Fjórðungssambands Vestfirðinga, fjallskiladeild, tjaldsvæði við Grettislaug, rekstur upplýsingamiðstöðvar og ferðamál.

 

Eignasjóður fer með allar fasteignir sveitarfélagsins og innheimtir innri leigu af aðalsjóði fyrir notkun þeirra. Gert er ráð fyrir að tekjur sjóðsins nemi um 54 millj. kr. á árinu 2014. Sjóðurinn yrði rekinn með afgangi sem nemur um 25 millj. kr. og eru áætlaðar fjárfestingar um 9 millj. kr. á þessu ári.

 

Tekjur Reykhólahafnar eru áætlaðar um 7 millj. kr. á þessu ári og rekstrarafgangur um 1,7 millj. kr. Gert er ráð fyrir að fjárfesta fyrir 1 millj. kr. í lýsingu á hafnargarði.

 

Tekjur Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Barmahlíðar eru að stærstum hluta daggjöld úr ríkissjóði. Gert er ráð fyrir að tekjur á þessu ári verði 117 millj. kr. og launakostnaður um 73 millj. kr. eða 62% af heildartekjum. Gert er ráð fyrir um 7 millj. kr. rekstrarafgangi, sem varið verður í framkvæmdir á borð við nýtt bjöllukerfi og lagfæringu á baðaðstöðu.

 

Á næstu þremur árum er gert ráð fyrir rekstrarafgangi hjá samstæðunni upp á 22 milljónir árið 2015, 25 milljónir árið 2016 og 27 milljónir króna árið 2017.

 

Að öðru leyti vísast í greinargerð sveitarstjóra sem sækja má hér. Hana er einnig að finna undir StjórnsýslaÁrsreikningar og áætlanir í valmyndinni hér til vinstri. Þar er líka að finna fjárhagsáætlunina sjálfa, sem og eldri fjárhagsáætlanir og ársreikninga.

 

Athugasemdir

Einar Örn Thorlacius fyrrv. sveitarstjóri Reykhólahrepps, laugardagur 04 janar kl: 14:09

Gott hjá Ingu Birnu sveitarstjóra og hreppsnefndinni. Ég held að ég og þáverandi hreppsnefnd hafi skilað ágætu búi árið 2006 og "síðan eru liðin mörg ár" og allt er í góðu lagi. Og verður vonandi áfram.

Ingvar Samuelsson, laugardagur 04 janar kl: 23:26

Glæsileg frammistaða hjá þér Inga Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri til hamingju

Bylgja Hafþórsdóttir, sunnudagur 05 janar kl: 08:52

Stolt af stelpunni. :)

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Febrar 2024 »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29