Skýrsla um fornleifaskráningu í Skáleyjum
Komin er hér inn á vefinn skýrsla um fornleifaskráningu í Skáleyjum á liðnu sumri. Vestur komu til rannsókna fimm fornleifafræðingar frá Fornleifastofnun Íslands, sem nutu í ferðinni liðsinnis Björns Samúelssonar á Reykhólum og leiðsagnar Jóhannesar G. Gíslasonar í Skáleyjum. Skýrslan er um hundrað blaðsíður og í henni eru um 200 ljósmyndir og uppdrættir. Margar ljósmyndanna eru gamlar en þó eru enn fleiri nýjar af rústum og mannvirkjaleifum ásamt uppdráttum af þeim.
Eins og mestur hluti Breiðafjarðareyja voru Skáleyjar hluti af Flateyjarhreppi (Eyjahreppi), sem á sínum tíma var langfjölmennastur hreppanna fimm í Austur-Barðastrandarsýslu. Á 19. öld og fram yfir aldamótin 1900 voru búsettar þar vel á fimmta hundrað manneskjur en síðan fækkaði jafnt og þétt. Fyrir aldarfjórðungi sameinuðust hrepparnir fimm í einn undir nafni Reykhólahrepps. Þá var fólkið í hreppnum sameinaða allnokkru færra en var í Flateyjarhreppi einum á sínum tíma.
Í inngangsorðum að skýrslunni segir, að þegar vestur var komið hafi Björn Samúelsson beðið fornleifafræðinganna til að flytja þá út í Skáleyjar. Síðan segir þar:
Síðsumarsólin gaf kvöldinu mildan blæ og veður var stillt, ferðin út í eyjarnar var hin ánægjulegasta og menn í léttu skapi. Á bryggjunni í Skáleyjum tók Jóhannes Geir Gíslason á móti hópnum og bauð hann velkominn. Farangur ferðamanna var færður frá borði og komið fyrir á stórri kerru sem dregin var af dráttarvél.
Þegar komið var heim að bænum bauð Jóhannes okkur inn í Ljósheima, en svo heitir bærinn, stórt íbúðarhús reist 1981. Um leið og komið var inn var hafist handa að skoða örnefnaskrár og kort af eyjunum. Jóhannes var spurður út í fornleifar, örnefni, myndir og sögu Skáleyja, alveg þangað til menn gengu til náða.
Áður en hafist var handa morguninn eftir skiptu menn með sér verkum því að skráningunni þurfti að ljúka ekki seinna en á sunnudeginum, sem var heimfarardagur. Veður var gott á meðan dvölinni stóð og sem gerði vinnuna létta og takmarkið auðveldara.
Jóhannes bauð gestum sínum í selkjöt og svo fengu þeir örnámskeið í æðardúnshreinsun í skilnaðargjöf. Um nónbil á sunnudeginum 29. ágúst kom Björn Samúelsson aftur að bryggju í Skáleyjum og sótti mannskapinn. Það hafði aflast vel og nú átti bara eftir að vinna úr gögnunum. Hér að aftan má sjá afrakstur þessarar vinnu.
Jóhannes Geir Gíslason las yfir handrit að þessari skýrslu og kom með margar athugasemdir sem auðguðu skráninguna afar mikið og er honum hér fært innilegt þakklæti fyrir það og alla hans gestrisni. Þá er einnig þökkum komið til Björns Samúelssonar, sem sá um að flytja alla milli lands og eyja, og Ólafs Gíslasonar [bróður Jóhannesar] sem lánaði gamlar myndir til birtingar í skýrslunni.
Skýrsluna er að finna undir Byggð og saga - skýrslur í valmyndinni hér vinstra megin (Skáleyjar, fornleifaskráning, Fornleifastofnun Íslands 2012). Þar er einnig að finna margar aðrar skýrslur og óhætt að fullyrða, að þar er saman kominn geysilegur fróðleikur og mikilsverður bæði fyrir þá sem áhuga hafa á slíku nú um stundir og fyrir síðari tíma.
Myndirnar sem hér fylgja eru úr skýrslunni nema þrjár þær síðustu. Tvær þeirra eru af Jóhannesi Geir Gíslasyni og Birni Samúelssyni en á síðustu myndinni má sjá mannfjöldaþróun í hreppum Austur-Barðastrandarsýslu frá 1901 til 2010. Stækkið myndirnar með því að smella á þær.