Tenglar

1. mars 2011 |

Slátrun í Króksfjarðarnesi í undirbúningi

Króksfjarðarnes. Sláturhúsið er niðri við sjóinn. Ljósm. Árni Geirsson.
Króksfjarðarnes. Sláturhúsið er niðri við sjóinn. Ljósm. Árni Geirsson.
Komnar eru upp hugmyndir um að fara að slátra í sláturhúsinu í Króksfjarðarnesi á ný og undirbúningur vegna nauðsynlegra leyfa hafinn. Bergsveinn Reynisson á Gróustöðum er í forsvari fyrir eignirnar þar. „Á síðustu vikum og mánuðum hafa margir haft samband við mig og hvatt til þess að hugað verði að slátrun í Króksfjarðarnesi á nýjan leik. Sláturhúsið í Nesi fékk ekki úreldingu eins og flest önnur lítil sláturhús hringinn í kringum landið. Þess vegna fengum við heldur ekki þá úreldingarpeninga sem aðrir fengu. Kannski var það bara gott“, segir Bergsveinn í samtali við vefinn. „Eitthvað þarf nú samt að gera fyrir húsnæðið og allt kostar það peninga.“

 

Síðast var sauðfé slátrað í Nesi haustið 2007 en nautgripum var slátrað þar fram á árið 2008.

 

Ef þessar hugmyndir verða að veruleika, þá yrði það reyndar ekki með sama sniði og var, þegar menn voru að slátra þarna um tíu þúsund fjár á hverju hausti og selja í Bónus og aðrar stórverslanir, að sögn Bergsveins. Hér yrði fremur um það að ræða að slátra fyrir þá sem eru að huga að heimanýtingu afurða og selja beint frá býli. „Ef við næðum því að slátra tvö þúsund fjár yrðum við ánægðir. Þannig yrði slátrað í verktöku og menn tækju kjötið bara sjálfir, og helst allar afurðirnar með, hausa, mör og innmat, og sæju alveg um að koma þessu í verð.“

 

Bergsveinn segir að hugmyndin sé sú, að þeir sem gætu látið slátra í Króksfjarðarnesi væru bændur í Strandasýslu og Dölum auk Reykhólahrepps. „Ekki of langt að fara, þannig að menn gætu komið með sláturféð sjálfir.“

 

Hann segir að enn sé þetta samt allt á pappírsstiginu. „Það er ekkert einfalt eða fljótlegt að fá þau leyfi sem til þarf. Fyrir hendi eru bara orð enn sem komið er, en draumurinn er að þetta verði að veruleika sem allra fyrst, helst á komandi hausti. Það hittist líka vel á, því að um þessi mál hefur verið mikil umræða í þjóðfélaginu að undanförnu. Okkur veitir heldur ekkert af því að koma af stað einhverju atvinnuskapandi í héraðinu.“

 

E.t.v. kemur einhverjum á óvart að Kaupfélag Króksfjarðar (KKK) skuli enn vera á lífi. „Ég er svo óheppinn“, segir Bergsveinn og hlær, „að vera prókúruhafi bæði fyrir Kaupfélag Króksfjarðar og hlutafélagið sem á húsin þarna niður frá. Það heitir Húsmænir ehf. og er í eigu Kaupfélagsins. Af þessari ástæðu hvílir það á mér að finna einhver not af þessum eignum fyrir samfélagið hérna. Við áttum von á því að fá heilmikið af peningum frá Sambandinu gamla gegnum Gift, en það fór nú á annan veg.“

 

Fréttamennirnir Gísli Einarsson og Ægir Þór Eysteinsson heimsóttu Bergsvein Reynisson í gær og ræddu við hann vegna þessa máls. Gísli sagði að fréttin myndi koma í Sjónvarpinu í kvöld.

 

Sjá einnig:

09.02.2011  Ef til vill sláturhús í Reykhólahreppi á ný?

 

Athugasemdir

Einar Örn Thorlacius, rijudagur 01 mars kl: 20:40

Áfram Króksfjarðarnes og Beggi! Þetta var í gangi öll mín fjögur ár á Reykhólum og það myndi gleðja hjartað að sjá þetta endurvakið.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30