Sláttur að komast í fullan gang í Reykhólahreppi
Sláttur er hafinn eða um það bil að hefjast á hverjum bænum á fætur öðrum í Reykhólahreppi. Þetta er nokkru seinna en venjulega enda hefur veður lengst af verið kalt og þurrt. Eftir því sem best er vitað var Gústaf Jökull fyrstur til að hefja slátt á Miðjanesi á fimmtudag. Á laugardaginn byrjaði sláttur a.m.k. á Stað og Gróustöðum en margir telja góða venju að byrja á laugardegi. Að sögn Stefáns bónda á Gróustöðum er ágætlega sprottið og grasið komið langt upp fyrir hvítu röndina á gúmmískónum. Reyndar eru túnþjófarnir farnir að hverfa í háliðagrasið sem Sumarliði Guðmundsson afi hans sáði í þetta tún upp úr 1960. Háliðagras getur verið mjög snemmsprottið.
Eins og sjá má á myndinni frá Gróustöðum er túnið í miklu brattlendi og liggur því vel við sól.