Tenglar

16. nóvember 2011 |

Slökkviliðið rýmir Reykhólaskóla á æfingu

Brunaæfing var haldin í Reykhólaskóla í gær og komu þar við sögu auk Slökkviliðs Reykhólahrepps nemendur og kennarar bæði grunnskólans og Leikskólans Hólabæjar. Liðlega tugur öflugra manna búinn ágætum tækjum skipar Slökkvilið Reykhólahrepps en slökkviliðsstjórinn er Guðmundur Ólafsson á Grund. Sérstök tæki voru notuð til að búa til „gervireyk“ í húsnæði skólans en slíkur reykur er búinn til úr lífrænni paraffínolíu og veldur ekki reykeitrun eða neinum skaða. Hins vegar fór viðvörunarkerfið í skólanum í gang við þennan reyk og var þá gripið til fyrirfram ákveðinna ráðstafana.

 

Allir fóru strax út úr skólanum sem gátu en ýmsum varð að hjálpa út eða hjálpa niður utan á húsinu eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Sumir komu hins vegar ekki í leitirnar við talningu og nafnakall. „Þetta gekk mjög vel eins og alltaf áður“, segir Guðmundur slökkviliðsstjóri á Grund. Eins og gengur kannski í alvöru og við æfingar fundust ekki allir krakkarnir strax enda höfðu nokkrir einmitt fengið það hlutverk að fela sig. Reykkafarar slökkviliðsins fundu þá fljótlega.

 

Reykhólaskóli er miðstöð hjálparstarfs Almannavarna á Reykhólum og þangað skal fólk leita ef í nauðir rekur. En þar sem skólinn var í þessu tilviki miðpunktur hættuástands og þar með sjálfkrafa úr leik var bæði nemendum og kennurum vísað í Reykhólakirkju rétt fyrir ofan skólann.

 

Guðmundur Bergsson eldvarnaeftirlitsmaður hjá Eldstoðum í Reykjavík og sérfræðingur í þessum málum var fenginn Slökkviliði Reykhólahrepps til ráðuneytis. Æfingar af þessu tagi eru haldnar á hverju ári í sérstakri eldvarnaviku í skólum á Íslandi.

 

Á eftir var bæði yngri sem eldri kynntur búnaður slökkviliðsins og þar fengu allir að prófa að stýra vatnsbyssunum stóru eða a.m.k. að fylgjast með bununum sem náðu hálfa leið upp í himininn eða því sem næst.

 

Meðfylgjandi myndir tók Júlía Guðjónsdóttir skólastjóri Reykhólaskóla. Margar fleiri myndir frá þessum atburði er að finna undir Ljósmyndir > Myndasyrpur > Brunaæf. Rhskóla 11.2011.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31