Tenglar

23. desember 2011 |

Slysið: Strax farinn að rífa kjaft

1 af 2

„Hann er strax farinn að rífa kjaft rétt eins og venjulega og það er auðvitað góðs viti“, sagði Bergsveinn Reynisson (Beggi á Gróustöðum) síðdegis í gær kampaglaður um bróður sinn, Sævar Inga Reynisson, sem slasaðist við vinnu sína í bátnum Knolla BA í Reykhólahöfn í gær. Fólki á Reykhólum brá í brún þegar fyrst kom lögreglujeppi með bláum ljósum á gríðarlegri siglingu á flughálkunni, síðan björgunarsveitarbíll og loks sjúkrabíll, líka með bláum blikkljósum.

 

Björgunarsveitarmenn í Reykhólahreppi brugðust snarlega við og jafnvel elstu menn muna ekki eins mikinn flýti á þeim annars þó hvatlega manni Tómasi Sigurgeirssyni (Tuma bónda á Reykhólum) og svo alvarlegan svip á þeim annars glaðlega manni.

 

Beggi á Gróustöðum bróðir Sævars bað um að fram kæmi hér á Reykhólavefnum, að aðgerðin sem Sævar gekkst undir í gær hefði tekist vonum framar. Hann var útskrifaður um hádegisbilið í dag og vonir standa til að ekki verði mikil varanleg eftirköst af slysinu þó að hugsanlega verði um einhverja takmörkun hreyfigetu að ræða í fingrum. „Hann dvelur núna á „Hótel Mömmu“ í góðu yfirlæti og verður undir eftirliti lækna næstu daga“, segir Bergsveinn.

 

Sævar biður fyrir bestu kveðjur vestur með innilegu þakklæti til allra sem að hjálpinni komu.

 

Sævar Ingi er sonur Reynis Bergsveinssonar í Gufudal, bróður Kristins Bergsveinssonar í Görðum á Reykhólum. Á fyrri tíð var Sævar ungur atorkumikill þangsláttarmaður Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum en hefur í seinni tíð verið búsettur í Noregi.

 

Aðkoman að slysinu var ljót. Sævar missti mikið blóð. Slípirokkar eru voðaleg verkfæri ef eitthvað ber út af og skera stál eins og smjör væri.

 

Báturinn Knolli, þar sem Sævar var við vinnu, var þriðji bátur frá bryggju. Vegna flughálku alls staðar - sem átti sinn þátt í slysinu - var erfiðleikum bundið að koma hinum slasaða upp á bryggju. Til þess var gripið að nota krana og þá tók Þorleifur Reynisson meðfylgjandi myndir (Þorleifur er ekkert skyldur Sævari þótt Reynisson sé).

 

22.12.2011  Vinnuslys: Fór betur en á horfðist

24.04.2011  „Öreigaslippurinn“ í Reykhólahöfn kominn í gagnið (myndir af Knolla BA)

12.08.2010  Kræklingaverksmiðja komin í Reykhólahrepp (m.a. Sævar Reynisson)

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30