20. ágúst 2022 | Sveinn Ragnarsson
Smá hvalreki
Jóhannes Geir Guðmundsson fór í göngu á dögunum með heimilishundinn Kleinu Karen, þá rákust þau á þennan fallega hnísukálf rekinn hérna á Reykhólum.
Annað slagið sjást hvalir hér inni á fjörðum, lítil háhyrningavaða sást í Berufirðinum fyrir fáum árum, og í vor í Þorskafirði.
Að öllum líkindum eru þeir að elta æti.
Flestir hvalirnir fara þegar þeir hafa lokið erindum en sumir eru ekki jafn heppnir. Fyrir nokkrum árum gekk ferðafólk fram á háhyrningskálf uppi í fjöru innarlega í Þorskafirði og var smá klausa um það hér á síðunni þegar Borgarbræður hjálpuðu honum á flot. Seinna um sumarið fannst svo samskonar kálfur rekinn utar í firðinum hjá Hlíð og mjög líklegt að það hafi verið sama dýrið. Hann var ekki mjög heppinn.