Tenglar

24. desember 2016 | Umsjón

Snæbjörn í Hergilsey

1 af 5

Snæbjörn gekk til bæjar og bauð þegar til stofu, og var okkur þegar unninn beini. Kona bónda gekk um beina, en hún var Guðrún Hafliðadóttir frá Svefneyjum, mesta myndarkona eins og hún átti kyn til, því föðurafi hennar var Eyjólfur Einarsson dannebrogsmaður í Svefneyjum. Dóttir þeirra Hergilseyjarhjóna, Ólína, var þá heimasæta forkunnarfríð og myndarleg. Ólína varð síðar kona séra Jóns Þorvaldssonar á Stað á Reykjanesi, mesta mætiskona í sjón og raun.

 

Ofanritað er úr frásögn sem birtist í jólablaði dagblaðsins Vísis á aðfangadag jóla 1956 eða fyrir réttum sextíu árum. Yfirskrift hennar er Hjá Snæbirni í Hergilsey, endurminning frá aldamótum. Sjá allra neðst varðandi höfundinn.

 

Snæbjörn Kristjánsson í Hergilsey (1854-1938) var þjóðkunnur maður, kostamaður jafnt til sálar sem líkama – „búhöldur góður, sægarpur mikill og héraðshöfðingi“. Hann var fæddur í Hergilsey á Breiðafirði og alinn þar upp, sonur hjónanna Kristjáns Jónssonar og Ingibjargar Andrésdóttur. Snæbjörn var bóndi í Svefneyjum 1878-1895 og síðan í Hergilsey um fjóra áratugi og allt fram undir ævilok. Kona hans var Guðrún Hafliðadóttir Eyjólfssonar eyjajarls í Svefneyjum. Snæbjörn var hreppstjóri og amtsráðsmaður og annálaður sjósóknari, talinn einhver besti formaður við Breiðafjörð eftir Hafliða tengdaföður sinn.

 

Frásögnin í jólablaði Vísis forðum er í heild hér neðar, en áður verður rifjað upp smáræði varðandi Snæbjörn, að nánast öllu leyti úr hinum og þessum blöðum (sjá einnig myndir). Afkomendur hans búa enn á Stað á Reykjanesi (Stað í Reykhólasveit) og formenn Breiðfirðingafélagsins og Barðstrendingafélagins eru líka afkomendur hans, svo einhverra sé getið úr þeim frændgarði.

 

Sjálfsævisaga Snæbjarnar (Saga Snæbjarnar í Hergilsey, rituð af honum sjálfum) kom út í tveimur bindum árið 1930 og önnur útgáfa árið 1958.

 

 

Snæbjörn í Hergilsey á þökk skilið fyrir að hafa sagt oss ævisögu sína. Eru slíkar sögur mikils verðar, og gaman að sjá, hvað hinn gamli sjógarpur er slyngur rithöfundur. Mun af bókinni mega fá góða hugmynd um hið gagnorða mál, sem tíðkast í Breiðafjarðareyjum. Fágæt og eftirtektarverð er sagan af skipskaðanum, þar sem Snæbjörn er loks einn að velkjast í brimgarðinum; kunna fáir frá tíðindum að segja, sem í slíkt komast. Þá er ekki lítið fróðlegt það sem hann segir af fóstru sinni. Þessi hrausti framkvæmdamaður hefir einnig verið draummaður mikill og berdreyminn, líkt og sumir hinir fyrri Breiðfirðingar. Miðar slíkt að vísu mest til að angra menn, eins og enn er ástatt. En lengra fram mun auðnast að sjá svo glöggt fyrir, hvað verða muni, að afstýrt verði óhöppunum, sem til er stefnt.

Helgi Pjeturss 1930.

 

 

Snæbjörn í Hergilsey, sem enn líkist mest hinum fornu víkingum, kom hingað fyrir nokkru til að leita sjer lækninga við sjóndepru. Var hann hjer í spítala í 18 daga, og er þetta í þriðja sinn, sem hann lætur skera í sama augað á sjer. Á hinu er hann blindur. En þrátt fyrir háan aldur og sjóndepruna er líkaminn enn fullhraustur. Ætlar Snæbjörn nú vestur með Suðurlandinu í kvöld og gerir svo ráð fyrir að ferðast langt yfir heiðar, fjöll og firnindi. Slíkum mönnum er ekki fisjað saman.

Morgunblaðið 10. apríl 1934.

 

 

Snæbjörn Kristjánsson, fyrrum bóndi í Hergilsey, andaðist í Sjúkrahúsinu í Stykkishólmi í gær kl. 15, 83 ára að aldri. Hann var yfir 50 ár hreppstjóri í Flateyjarhreppi og lengst af bjó hann í Hergilsey, en síðustu árin dvaldi hann hjá tengdasyni sínum, séra Jóni Þorvaldssyni á Stað á Reykjanesi. Snæbjörn í Hergilsey var einn hinna merkustu Breiðfirðinga, allt í senn, búhöldur góður, sægarpur mikill og héraðshöfðingi.

Nýja dagblaðið 16. júní 1938.

 

 

Snæbjörn Kristjánsson hreppstjóri í Hergilsey var mjög þekktur maður á sinni tíð, afburða sjósóknari og þrekmaður andlega og líkamlega. Hann lenti m. a. í kasti við brezka veiðiþjófa, og segir hann frá þeim atburði í bók sinni, er Bretar rændu honum og Guðmundi Björnssyni sýslumanni og fluttu til Englands. Gerðist sá atburður árið 1910. Snæbjörn í Hergilsey segir skemmtilega frá, og er mikill fróðleikur saman kominn í bók hans. Formála að henni skrifar prófessor Sigurður Nordal, fyrrv. sendiherra. Þar segir hann svo um höfundinn: Snæbjörn Kristjánsson var mikilmenni í hinni gömlu og góðu merkingu, sem miðar við, hvað maðurinn er af sjálfum sér. Hann var þrekmenni að allri gerð, bæði til líkama og sálar, skapfastur, geðríkur og tilfinninganæmur, vel viti borinn og djarfur í hugsun. Að sumu leyti mátti kalla hann frumstæðan og fornan í skapi, því að hann stóð djúpum rótum í arferni ævagamalla uppeldishátta og lífsskoðunar. En honum varð ekki heldur skotaskuld úr því að átta sig á samtíðinni og nýjum viðhorfum, eftir því sem hann þurfti og taldi sér samboðið.

Íslendingur 12. september 1958.

 

 

Góður söngmaður var einnig Kristján Jónsson, bóndi í Hergilsey (dáinn um 1905); söng hann gömlu lögin með dillandi ringjum og dró þá mjög seiminn. Sonur hans, Snæbjörn í Hergilsey, hinn landskunni sjógarpur, var ágætur kvæðamaður, og söng oft í sig hita á sjóferðum sínum.

(Tónlistin – tímarit félags íslenzkra tónlistarmanna 1942).

 

 

Ég stóð á bökkunum og virti fyrir mér gömlu lendinguna á Sandi. Ég hugsaði um harmleikinn, sem þar gerðist 6. apríl 1876, þegar 4 ungir og vaskir sveitungar mínir drukknuðu þarna, en formaðurinn, sægarpurinn Snæbjörn í Hergilsey, komst einn af. Nú var sjórinn lognsléttur og örlaði varla við stein. „Hérna var það, sem Snæbirni barst á,“ sagði ég upphátt við sjálfan mig. „Já, hérna var það,“ heyrði ég sagt við hliðina á mér. Ég leit við og horfði beint í augun á gömlum sjómanni.

Andrés Straumland, klausa úr ferðasögu í Vikunni 3. apríl 1941.

 

 

Snæbjörn í Hergilsey er þjóðkunnur maður. Hann hefir meira en hálfa öld verið einn hinn mesti sægarpur við Breiðaf jörð, en þar hafa löngum verið hreystimenn miklir og afburða sjómenn. Hafa miklar sögur gengið af sumum þeirra. En Snæbirni er fleira vel gefið en sjómennskan. Hann hefir verið fyrirmynd annarra um margt og stoð og stytta sveitar sinnar. Hreppstjóri varð hann 1878, eftir föður sinn, og hefir verið það síðan, eða rúmlega hálfa öld. Munu honum hafa farist þau störf vel úr hendi og giftusamlega, eins og flest annað, sem hann hefir verið við riðinn. Snæbjörn er nú hniginn að aldri, f. 14. sept. 1854, og látinn af öllum svaðilförum, enda mun hann orðinn nálega blindur. Hann hefir verið hinn mesti fullhugi og æðrulaus jafnan, hvað sem að höndum hefir borið, afrendur að afli og segja svo kunnugir, að hann muni hafa verið með allra hraustustu mönnum, en aldrei beitt afli sínu öðruvísi en sjálfum sér og öðrum til gagns.

Upphaf ritfregnar í Vísi 27. mars 1930.

 

 

Snæbjörn Kristjánsson var mikilmenni ... vel vitiborinn og djarfur í hugsun ...

Dr. Sigurður Nordal í formála 2. útgáfu Sögu Snæbjarnar í Hergilsey, 1958.

 

 

En svo eignuðust Íslendingar á ný þá hetju í Hergilsey, er allir þekktu af orðspori. Það var Snæbjörn Kristjánsson, er þó varð fyrst þjóðfrægur af því atviki, er landhelgisþjófar fluttu hann nauðugan til Englands, ásamt Guðmundi sýslumanni Björnssyni. Snæbjörn í Hergilsey skráði ævisögu sína, og nú hefur Kvöldvökuútgáfan á Akureyri gefið hana út á ný með formálsorðum Sigurðar Nordals prófessors. Þetta er hetjusaga. Snæbjörn lifði í tveimur heimum, á athafnasviði samtíðar sinnar og í hugmyndaheimi sögualdar og var hetja, hvor mælikvarðinn sem á hann er lagður. Ævisaga Snæbjarnar er hressandi lestur í þjóðfélagi, þar sem fjöldi manna virðist helzt grúfa yfir þeim hugsunum hvernig þeir geti gert sjálfa sig með hægustu móti að féþúfu. Það sópar skemmtilega að þessum mikla sægarpi, sem strengdi heit að fornum sið, fór út og suður til þess að grafa í rústir í leit að minjum þeirrar aldar, sem hann unni mest og hafði að fyrirmynd, og mat sæmd sína mest alls upp á fornmannlega vísu. Tilsvar Ingjalds í Hergilsey mun lengi lifa enn. Snæbjarnar í Hergilsey mun líka lengi minnzt, og vísan, sem hann kvað af karlmannlegum þrótti við oflátunginn, lýsir honum vel: Ég hef reynt í éljum nauða jafnvel meira þér. Á landamærum lífs og dauða leikur enginn sér.

Jón Helgason, Frjáls þjóð 13. desember 1958.

 

 

Einnig má minna á þegar Guðmundur Björnsson sýslumaður á Patreksfirði og Snæbjörn Kristjánsson hreppstjóri í Hergilsey voru árið 1910 á ferð með flóabátnum Varanger frá Stykkishólmi, að þá komu þeir að breskum togara sem þeir töldu vera augsýnilega í landhelgi. Flóabáturinn lagði upp að togaranum og skipin sigldu samhliða nokkra stund, sýslumaður stökk þegar upp í togarann og Snæbjörn í Hergilsey á eftir honum. Skipstjórinn á togaranum hafði komið með reidda öxi, en látið hana falla niður, en Snæbjörn gripið til járnfleygs sem lá á þilfarinu. Síðan sigldi togarinn burt með sýslumann og Snæbjörn alla leið til Skotlands, en Snæbjörn sleppti aldrei tökum á járnfleygnum sem hann hafði tekið áður en til frekari aðfarar kom að þeim.

Jóhann Hafstein í þingræðu um landhelgismál 9. nóvember 1976.

 

 

 

Hjá Snæbirni í Hergilsey


Endurminning frá aldamótum

 

 

Skömmu fyrir aldamótin síðustu var ég staddur í Flatey á Breiðafirði, og þurfti að fá ferð upp yfir sundin að Brjánslæk á Barðaströnd. Þetta var í kauptíðinni. Allt iðaði af lífi og fjöri í eyjunum á þessum árstíma.

 

Döggin glitraði á hverjum blómknappi, því þetta var árla morguns; sól skein í heiði og hvergi sá ský á lofti. Morgunreykirnir stigu upp úr hverjum reykháfi í kaupstaðnum og karlmenn gengnir að slætti fyrir stundu. Stúlkurnar flekkjuðu og rifjuðu, sumar, aðrar sátu við að hreinsa dún eða gegna öðrum heimilisstörfum, og árvakra húsfreyjan gekk kvikum skrefum milli búrs og eldhúss og leit eftir öllu úti og inni.

 

Og þarna úti á sundunum voru fiskibátar að koma að landi, það blikaði á vot árablöðin við hvert áratog, og senn renndu þeir upp í fjöruna innan við Silfurgarðinn, og óðar en kenndi grunns stukku hálsmennirnir fyrir borð og brýndu bátnum lítið eitt. Húsfreyjurnar höfðu veður af þessu og komu óðara að fá sér glænýjan fisk í soðið. Inni á sundunum voru bátar landbændanna að koma, hlaðnir af ull og annarri sumarvöru í kaupstaðinn, og renndu nú hver af öðrum út í Hafnarsundið og lentu í Þýzkuvör rétt niður af verzlunarhúsinu.

 

Drengirnir þyrptust fram á bakkana við sundið og skýrðu bátana um leið og þeir runnu framhjá í logninu, svo heyra mátti orð eins og þessi: Þorskfirðingar á Gesti. Þetta er Jón Þórðarson á Skálmarnesmúla og þarna inni á sundinu er Vagninn frá Reykhólum og við stýri er Bjarni á Reykhólum. Þetta og annað eins mátti heyra til drengjanna.

 

Á stakkstæðunum fyrir innan verzlunarhúsin voru geysistórir flekkir af saltfiski, og fólk að breiða hann til þerris. Því allsstaðar var önn og starf.

 

Ég leit inn í búðirnar. Þar var blindös af fólki og allir vildu komast að sem fyrst. Búðarþjónarnir voru á þönum aftur og fram við afgreiðsluna, seildust í stranga uppi í hillunni, vörpuðu þeim á borðið og sögðu við blómarósirnar: Hvernig líkar yður þetta efni, þetta er nú nýtízku kjólaefni, og svo tóku þeir að mæla kramvörurnar, eins og það var kallað.

 

Í Flatey var þá engin sérverzlun, heldur varð verzlunin að hafa til allt sem viðskiptamennina vanhagaði um, allt frá saumnál og fingurbjörg, alla leið að trjá- og borðvið til húsabóta. Allt þetta þurftu menn að geta fengið hjá sínum kaupmanni, svo að vel væri; en út af þessu bar nú oft, og urðu rnenn þá að leita annað, og þá oft í fjarlæga verzlunarstaði.

 

Ég sá að hér var mér ofaukið að þessu sinni, og var líka annað í hug. Ég gekk því suður á eyjuna í nánd við kirkjuna þeirra Vestureyinga sem þar hefur nú staðið um aldaraðir. Er þaðan útsýni mikið og fagurt, og vítt til veggja alla vegu í góðu veðri. Í austri er Gilsfjörður, Skarðsströnd í suðaustri, Helgafell í suðri, og Snæfellsnes með jöklinum yzt í suðvestri, og þá hið mikla hlið fjarðarins allt að Siglunesi í vestri, og loks hin sólríka Barðaströnd. Innsveitirnar sáust óglöggt í bláma fjarlægðarinnar.

 

Hér, þar sem kirkjan stendur, er frjálslegast útsýni til allra átta í góðu veðri. Hallar hér eyjunni suður að sundinu, og þar stendur bærinn Hólsbúð, þar sem hinn mikli héraðshöfðingi Ólafur Sívertsen prófastur bjó (um miðja 19. öld) rausnarbúi að þeirrar tíðar hætti, og var um margt á undan samtíð sinni. Hér fyrir austan kirkjuna er lítið hús í 19. aldar stíl og er hér bókasafn eyjarmanna sem Ólafur prófastur var forustumaður um að stofna á sinni tíð, og á það ýmsar fágætar bækur.

 

Voru þá og ýmsir merkir menn í Flatey í þann mund, svo sem þeir Brynjólfur Benediktsen kaupmaður, Sigurður Johnsen kaupmaður, Gísli sagnritari Konráðsson, Eiríkur Kúld, og svo Jón Thoroddsen skáld, sem þá bjó í Haga, en var tíður gestur þeirra Flateyinga. Mun honum þá þegar hafa verið farið að þykja vænt um ef rýmkað var um svartan flöskuháls, og þá fer Matthías að syngja um velmegun og fegurð þessarar yndislegu eyjaparadísar:

 

Björt á firði breiðum

brosir Flatey við

eins og á eyðiheiðum

indælt hagasvið;

þar var glatt á góðri tíð,

flytur gleði, fjör og arð

fjaðrasveitin blíð.

 

Þá var blómlegt athafnalíf í eyjunum og dugandi forustumenn um fjörðinn, bæði á landi og í eyjum.

 

En þarna rennur bátur inn með Hafnarkletti. Það freyðir hvítu löðrinu um stefnið og mennirnir falla fast á árarnar og var auðséð að fast var sóttur róðurinn. Þetta mundi þó aldrei vera Snæbjörn í Hergilsey?

 

Ég hætti að láta mig dreyma um löngu liðnar hetjur Breiðafjarðar og gekk í skyndi niður til strandar, og þarna birtist þá víkingurinn í Hergilsey og menn hans. Ég sagði honum þegar frá áformi mínu. En hann kvað velkomið far með sér ef ég vildi þekkjast það, en gat þess um leið að hann mundi eigi geta greitt för mína samdægurs og lét ég það gott heita.

 

Eftir skamma viðdvöl í Flatey var Snæbjörn búinn að ljúka erindum sínum og sigldum við nú léttan byr til Hergilseyjar í glaða sólskini og bezta veðri. Þegar þar kom var fólk bónda á vellinum að þurrka töðuna, og önn mikil sem vænta mátti. Þá var í kaupavinnu hjá Snæbirni læknanemi, Sigurður Pálsson, síðar bóndi á Auðshaugi á Hjarðarnesi. Hann sló á vellinum rösklega en kvartaði um að illa biti á í þurrkinum. Snæbjörn brosti við og tók í orfið, og kvað eigi nýlundu, því nú væri æðarsandurinn sem gler fyrir egginni er svo væri þurrt.

 

Snæbjörn gekk til bæjar og bauð þegar til stofu, og var okkur þegar unninn beini. Kona bónda gekk um beina, en hún var Guðrún Hafliðadóttir frá Svefneyjum, mesta myndarkona eins og hún átti kyn til, því föðurafi hennar var Eyjólfur Einarsson dannebrogsmaður í Svefneyjum. Dóttir þeirra Hergilseyjarhjóna, Ólína, var þá heimasæta forkunnarfríð og myndarleg. Um hana mátti kveða það sem ort var um aðra breiðfirzka stúlku á líkum aldri [vísa eftir þjóðskáldið sr. Matthías Jochumsson frá Skógum í Þorskafirði]:

 

Há og grönn og hýr á brá.

Horskum mönnum vekur þrá.

Bein sem hvönn frá hvirfli að tá.

Hrein sem fönn af nýjum snjá.

 

Æskan sér ávallt æskuna gegnum gler – gegnum gler sinna fegurðardrauma. Ólína varð síðar kona séra Jóns Þorvaldssonar á Stað á Reykjanesi, mesta mætiskona í sjón og raun. Verkhög og vel mennt á allt kvenlegt handbragð.

 

Eftir veitingar heima á bænum skipaði bóndi fyrir verkum. Var hirt mikil taða um kvöldið enda var hinn bezti þerrir. Bað ég Snæbjörn að fá mér verk að vinna, en hann kvað það ekki vanda sinn, að fá gestum verk að vinna þótt þeir dveldu stund úr degi. „Nú fer ég heim til bæjar og geri að seglum mínum í kvöld því nú er þurrt og gott, og skulum við nú ræðast við meðan ég bæti seglin; en fyrst ætla ég að sýna þér það sem hér er að sjá markvert á eynni og eru menjar frá söguöld.“

 

Leiddi hann mig suður fyrir bæinn, og sýndi mér stað þann sem fylgsni Gísla Súrssonar var til forna, er hann dvaldi í skjóli Ingjaldar. Kvaðst hann hafa grafið þar til og fundið hleðsluna á byrgi Gísla. Gerði Snæbjörn það upp og var sem ávalur grasbali utan að sjá, en inn mátti skríða þar sem lítið bar á. Þaðan gengum við suður á Vaðsteinabjarg og sýndi Snæbjörn mér dæld þá sem sagt er að fíflið Ingjalds væri geymt í, sem segir í sögu Gísla Súrssonar. Ber Vaðsteinabjarg hátt yfir, og er þaðan víðsýnt til allra átta í björtu veðri, og nú glóðu sundin í sólskininu þar sem þeir Ingjaldur og Gísli voru á veiðum á tveimur bátum, en í sögu Gísla segir svo:

 

Nú sér Ingjaldur, að skip siglir sunnan og mælti: Skip siglir þar og hygg ég að þar muni vera Börkur hinn digri. Hvað er þá til ráða takandi? sagði Gísli, ég vil vita hvort þú ert svo hygginn sem þú ert drengur góður. Skjótt er til ráða að taka, sagði Ingjaldur, þó ég sé enginn vitur leikmaður, róum sem ákafast til eyjarinnar og göngum upp á Vaðsteinabjarg og verjumst þaðan meðan vér megum uppi standa. Nú fór sem mig varði, sagði Gísli, að þú mundir hitta það ráðið að þú mættir drengurinn af verða sem beztur, en verri laun sel ég þér þá fyrir liðveizluna en ég hafði ætlað, ef þú skalt fyrir mínar sakir lífið láta. Nú skal það aldrei verða, og skal annað ráð taka.

 

Síðan þetta gerðist hefur það þótt sem kynfylgja eyjarskeggja að vera drengskaparmenn og hjálpsamir með afbrigðum og mætti í því efni minna á gamla Eggert Ólafsson, sem barg 50 farandmönnum frá hungurdauða eitt vorið í harðindum úti í Oddbjarnarskeri, og öllum var kunnugt um drengskap Snæbjarnar við smælingja og vinum sínum hið mesta tryggðatröll. Einn af vinum hans kvað svo til hans:

 

Hraðskreitt líður loftsins fley,

léttur er vindsins þytur.

En hálfu fyrr í Hergilsey

hugurinn mig flytur.

 

Snæbjörn hafði alla ævi mikinn áhuga fyrir öllum sagnafróðleik, og var vel heima í Íslendingasögunum, og hvers konar karlmennsku, íþróttum og vopnfimi til forna. Á manndómsskeiði sínu var hann allra manna mestur og styrkastur, mikilúðlegur á yfirbragð, og engan hef ég séð víkingslegri, eftir því sem ég hef gert mér hugmynd um þá í öllum herklæðum. Og þarna stóð nú þessi mikli maður á Vaðsteinabjargi og skýrði fyrir mér allt um gang sögunnar þarna á stundum, og um forn kennileiti víðsvegar um fjörðinn. Það var engu líkara en sögulegri kvikmynd brygði fyrir augu mín. Svo vel var Snæbjörn heima í öllu sem varðaði söguna.

 

Að þessu loknu gengum við til bæjar og bóndi tók til við seglasauminn undir bæjarstafninum, og ræddum við um daginn og veginn. Fann ég að maðurinn var sögufróður og minnugur að sama skapi. Hafði hann og á takteinum fjöldann allan af dulrænum sögum og fyrirburðum, og sagði mætavel frá. Og það hygg ég að engum gesti hafi leiðst í Hergilsey meðan Snæbjörn, og þau hjón bæði, áttu þar húsum að ráða. Alltaf voru nýjar og nýjar sögur á takteinum, enda hafði ævi hans verið ærið viðburðarík, en aldrei þvarr kjarkur hans og áræði meðan honum entist líf og heilsa.

 

Ýmsum raunum átti Snæbjörn að mæta, eins og gerist og gengur, en tók þeim öllum með karlmannlegri ró. Einu sinni lenti hann í skipreika og missti þá af sér alla menn sína, en hann bjargaðist nauðuglega sjálfur. Til þeirrar reynslu hans lýtur þessi vísa hans sennilega:

 

Ég hef reynt í éljum nauða

jafnvel meira þér.

Á landamerkjum lífs og dauða

leikur enginn sér.

 

Daginn eftir var Snæbjörn árla á fótum, og flutti mig til strandar að Brjánslæk, en kom ekki heim á bæinn, en þá bjó þar einhver kærasti vinur hans, séra Bjarni Símonarson, síðar prófastur. En Snæbjörn fór þegar um hæl aftur. Ekki mátti ég koma við að borga honum farið. Það taldi hann móðgun við sig og sitt heimili.

 

Þetta var í fyrsta sinn, sem sá er þetta ritar naut stórmannlegrar gestrisni á heimili þeirra hjóna, en oft síðan með miklum myndarbrag og tilkostnaði, er sýslufundir voru haldnir þar, sem oft var. Var þá stundum fjölmennt í Hergilsey, en þá lék húsbóndinn á als oddi er flestir voru gestirnir, enda voru þau hjón samvalin um rausn og myndarskap og margur fátæklingurinn átti athvarf þar um bjargræði, er þá þraut, en bú þeirra hjóna í blóma, enda var húsbóndinn aðdráttasamur bæði til sjós og lands með afbrigðum.

 

Um skeið var Snæbjörn skipstjóri á skútu sem þeir frændur og mágar áttu saman og hét Sigurborg, var hann aflasæll og farnaðist vel með hana. Það var einhverju sinni meðan hann átti heima í Svefneyjum að hann sigldi inn flóann með 50 þúsund af þorski eftir túrinn, að Snæbjörn sá hval á reki út og vestur af Flatey. Hann gat komið festum á hvalinn og færði til Svefneyja. Var hvalurinn 33 álna langur, og fengust af honum 180 vættir af spiki og rengi, auk annars. Gefur þetta góða hugmynd um aflaföng hans, meðan þrek hans var enn óbilað, enda gnægð gæða vestur þar í eyjunum, sem dugandi menn kunnu þá vel að hagnýta sér.

 

Eins og ég hef tekið fram hér að framan var Snæbjörn vinum sínum mesta tryggðatröll, og ef einkenna ætti skapgerð hans mætti ef til vill gera það eitthvað á þá leið, er einn bezti vinur hans lét sér um munn fara:

 

Ég get ekki hugsað mér betri vin en hann, en vera má að andstæðingum hans hafi fundist anda svalt frá honum.

 

____________________________

 

 

Ofanrituð frásögn í Vísi fyrir sextíu árum, þar sem segir frá heimsókn til Snæbjarnar í Hergilsey líklega um sextíu árum fyrr, er undirrituð G.J. Ekki liggur fyrir hver það er eða hvort frásögnin hafði birst einhvers staðar áður. Fram kemur að oft hefði höfundur setið sýslufundi í Hergilsey. Nú er að sjá hvort lesendur vita hver G.J. var eða hafa einhverjar ágiskanir í því efni.

 

 

 

Lausavísur eftir Snæbjörn í Hergilsey

 

 

Enginn veit um ævilokin öðrum fremur;

enginn veit hver aftur kemur,

enginn veit hvar staðar nemur.

 

Hér er hvorki blek né blað,

böl er til að vita,

stökur gleymast af því að

ekki er hægt að rita.

 

Hún er að sá í holurnar,

hún er að gá í fræið;

hún vill fá það hér og þar;

hún kann á því lagið.

 

Hvar sem þig um hrjóstrugt hjarn

heimsins kann að bera,

Drottin með þér, blíðlynt barn,

bið þú ætíð vera.

 

Sköpum lúta margur má

með tilfinning ríka;

nú er úti sorta að sjá,

svona er inni líka.

 

Þegar ævi sígur sól

og syrtir í þessum geimi,

þá munu allir eilíf jól

eiga í betra heimi.

 

Athugasemdir

Bergsveinn G Reynisson, sunnudagur 25 desember kl: 11:37

Takk, Hlynur

Gunnar Sveinsson, rijudagur 27 desember kl: 08:42

Hátíðarkveðjur kæri Hlynur,
Það er alltaf gaman og skemmtilegt að rifja upp svona fróðleik af því fólki við Breiðafjörð sem gerði garðinn frægan en líka því fólki sem nafnlaust barðist við að halda sér á floti í amstri dagsins. Hollt er okkur nútímafólki að gæta vel slíkum frásögum, halda þeim til haga og birta svo börn okkar og afkomendur læri og viti um það sem áður var.
Gunnar í Eyjólfshúsi í Flatey

Dagbjartur G. Einarsson, fstudagur 29 ma kl: 23:52

Virkilega skemmtileg frásögn eftir óþekktan G.J.
Hef lesið stórbrotna ævisögu Snæbjarnar frá Hergilsey og uni vel.
Held sjálfur ásamt fríðu föruneyti til Svefneyja eftir helgi í árlega æðardúnstýnslu en Svefneyjar hafa verið í fjölskyldu minni siðastliðin 24 ár en eins og áður var hér skrifað bjó Snæbjörn þar hluta af ævi sinni.
Takk fyrir skemmtilega umfjöllun um Snæbjörn.
29. maí 2020
Dagbjartur Einarsson
Álftanesi

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31