Tenglar

8. október 2014 | vefstjori@reykholar.is

Snilldarmyndir frá Sveini á Svarfhóli

Horft yfir Þingeyri til norðurstrandar Dýrafjarðar - Dyrafjarðar?
Horft yfir Þingeyri til norðurstrandar Dýrafjarðar - Dyrafjarðar?
1 af 11

Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli var einn af fulltrúum Reykhólahrepps á Fjórðungsþingi Vestfirðinga á Þingeyri fyrir nokkrum dögum. Hann notaði ferðina og gekk á Sandafell fyrir ofan plássið og tók myndir í allar áttir og líka niður, hverja annarri betri. Haustið var búið að setja svip sinn á landið eins og myndirnar bera með sér.

 

Sandafell dregur nafn sitt af Söndum handan við, þar sem fyrrum var kirkjustaður og prestssetur. Núna eru Sandar einkum kunnir fyrir hestamennsku og varaflugvöllinn fyrir norðursvæði Vestfjarða, sem er orðinn að mestu ónothæfur sakir skorts á viðhaldi.

 

Séra Ólafur Jónsson (um 1560-1627) á Söndum var á sínum tíma eitt af höfuðskáldum Íslendinga og hugsanlega tónskáld að auki. Hann safnaði kvæðum sínum í eitt handrit, sem var skrifað upp mörgum sinnum eftir hans tíð. Núna er vitað um 25 eftirrit kvæðabókar séra Ólafs á Söndum en handrit hans sjálfs er glatað. Við mörg af kvæðum Ólafs eru settar nótur og talið að hann hafi jafnvel samið sum lögin sjálfur.

 

Löngum var það almenn skoðun að Dýrafjörður bæri nafn Dýra landnámsmanns af Sunnmæri í Noregi, sem getið er í Landnámabók. Þórhallur Vilmundarson prófessor bar brigður á þetta, líkt og margar aðrar skýringar á örnefnum, þegar hann kynnti náttúrunafnakenningu sína fyrir nokkrum áratugum (sjá m.a. hér). Þegar siglt er inn í Dýrafjörð blasa við stök fjöll hvort til sinnar handar, Mýrafell vinstra megin og Sandafell hægra megin, og mynda eins konar hliðstólpa eða dyr. Þetta taldi Þórhallur rót nafnsins, sem verið hefði í öndverðu Dyrafjörður.

 

Kaldbakur í fjallgarðinum mikla milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar er hæsta fjallið á Vestfjarðakjálka, 998 metra hátt samkvæmt gamalli mælingu, sem ekki er víst að sé alveg nákvæm. Þar gæti skakkað fáeinum metrum til eða frá. Hvað sem því líður, þá er flatur toppur Kaldbaks í rétt um það bil eins kílómetra hæð frá sjávarmáli. Sandafell telst hins vegar 367 metra hátt.

 

Athugasemdir

Eyrún Guðnadóttir, sunnudagur 12 oktber kl: 11:24

Kondu sæll Sveinn þar sem ú ert með flottar myndir af þingeyri þá er Flugvöllurinn á Hólalandi en sandanir eru fyrir neðan Sandafell og svo koma Bæinir sem til heira ekki söndum eins og Kirkjuból og Hólar og svo er ekki Nautahvílt það er Hólahvílt ég er búinn að vera þarna frá því árið 1982 svo ég tel að ég þekki svoldið til. kveðja Eyrún

Eggert Stefánsson, sunnudagur 12 oktber kl: 18:12

Það er rétt hjá Eyrúnu að flugvöllurinn er í landi Hóla.
Svo má nefna að yst á Sandafelli er Sandakelling, - hár klettadrangur, um Sandalandið rennur Sandaá til sjávar um Sandasand.

Svenni, mnudagur 13 oktber kl: 23:38

Þakka þér fyrir ábendingarnar Eyrún, örnefnin tók ég upp af korti en greinilega ekki vandað mig nóg, og láðist að nefna Hóla og Hólahvilft og margt fleira, en Naustavík er þarna.
Það er mjög gott að fá ábendingar og leiðréttingar frá kunnugu fólki.
Kveðja, Svenni.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31