Tenglar

26. janúar 2015 |

Snjóflóðið á Grund: „Þá komumst við ekki heim“

Kristín Ingibjörg Tómasdóttir.
Kristín Ingibjörg Tómasdóttir.

Þess var minnst hér á vef Reykhólahrepps á sunnudaginn fyrir rúmri viku, 18. janúar, að þá voru 20 ár liðin frá snjóflóðinu mikla og óvænta á Grund í Reykhólasveit. Þar fórst Ólafur Sveinsson bóndi en Unnsteini Hjálmari syni hans var bjargað eftir að hann hafði legið nærri hálfan sólarhring djúpt undir snjófarginu. Kristín Ingibjörg Tómasdóttir frá Reykhólum, hálfsystir Lilju Þórarinsdóttur húsfreyju á Grund og mágkona Ólafs, var á þessum tíma forstöðumaður Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Barmahlíðar. Fyrir tveimur árum færði hún í letur minningar um þennan atburð og sitthvað kringum hann, og fer frásögn hennar hér á eftir.

 

 

Snjóflóðið á Grund í Reykhólasveit

18. janúar 1995

 

Það er 18. janúar 1995. Veður hafa verið vond undanfarna daga, hvasst og snjókoma. Vindur NNV og erfitt að gera sér grein fyrir snjóalögum. Ég starfaði þá sem forstöðumaður Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Barmahlíðar á Reykhólum. Kom þar til starfa árið 1993. Var áður vel kunnug staðnum og umhverfi, enda alin upp á Reykhólum. Mundi samt ekki eftir svona langvarandi veðri og sérlega mikilli snjókomu. Það voru nýkomnar fréttir af snjóflóðinu í Súðavík og mannsköðum þar. Þennan dag, 18. janúar, var veður með alversta móti. Það sást ekki út úr augunum fyrir stórhríð.

 

Ég fór í vinnuna um morguninn og einhvern veginn tókst að koma því fólki til vinnunnar, sem ekki bjó í Dvalarheimilinu sjálfu. Við vorum orðin hrædd um að rúður mundu brotna og jafnvel eitthvað meira ske og undirbjuggum okkur eftir því sem hægt var. Ekki var um vaktaskipti hjá fólkinu að ræða, þeir sem voru á vaktinni urðu einfaldlega að halda áfram.

 

Um kl. 8 um kvöldið sátum við nokkur inni á vakt, þar á meðal Gústaf Jökull Ólafsson. Hann var að bíða eftir hringingu frá Guðmundi Ólafssyni á Grund, en þeir höfðu ætlað að komast í vararafstöðina fyrir Reykhólaþorpið.  Kl. 8 hringir síminn, Guðmundur spyr bara um mig. Ég í símann, og þá segir hann: „Það féll snjóflóð á útihúsin [en þar var allur bústofn fjölskyldunnar á Grund] og pabbi og Unnsteinn bróðir eru ekki komnir heim. Mamma [Lilja systir mín á Grund] biður þig að koma.“

 

Ég segi bara já, en þrautin er þyngri að komast þennan stutta spöl, ca. 2 km spöl, og gjörsamlega óstætt úti. Ég hringi í Tómas Sigurgeirsson frænda minn og spyr hann hvort hann komist þetta. Það tókst, og við komumst að Grund. Skyggni var svo til ekkert, og ekkert að sjá nema snjó og svartan nautkálf, sem brölti út úr flóðinu þar sem það náði lengst niður á túnið. Sjálft flóðið hafði farið um 30 metra vestan við íbúðarhúsið og niður á túnið en stoppað ca. 4 metra frá húsinu að norðan.

 

Ekki var þetta álitlegt, allt ófært nema niður að Reykhólum. Strax var haft samband við sveitarstjórann, Bjarna P. Magnússon, og alla sem gætu hjálpað til. Fólk barðist áfram í óveðrinu, safnaði prikum og skóflum og byrjaði að grafa. Enginn á staðnum hafði áður lent í neinu þvílíku, en séð fréttirnar frá snjóflóðinu í Súðavík tveim dögum áður. Það vildi okkur til happs, að stór veghefill var á staðnum svo hægt var að lýsa upp svæðið með honum.

 

Og svo var mokað og mokað. Lilja taldi nokkuð víst að feðgarnir hefðu verið í mjólkurhúsinu, eftir tímanum að dæma. Þó gat verið að Unnsteinn hefði verið í fjárhúsinu. En allt var á kafi nema austasta fjárhúsið að hálfu leyti, þannig að um 60 ær björguðust og þrír hvolpar, hvolpamamman og einn hundur. Nærfellt allur annar bústofn fórst, hestar, nautgripir (að örfáum geldneytum undanskildum), kindur og hænsni, einnig mjólkur- og heyvinnslutæki.

 

En það voru mennirnir sem við vorum að leita að. Fyrst var mokað bæði í áttina að fjárhúsum og fjósi, en þar sem líklegast var talið að þeir hefðu verið komnir í mjólkurhúsið á þessum tíma beindist leitin að því. Lilja vildi helst hafa mig hjá sér, en sem betur fór kom séra Bragi Benediktsson, og ætlaði auðvitað að fara moka með öðrum. En ég bað hann að vera hjá Lilju, því ég varð að fara að huga að því hvað gera skyldi, ef feðgarnir kæmu lifandi í hús.

 

Læknirinn var veðurtepptur í Búðardal, og Ingibjörg Kristjánsdóttir héraðshjúkrunarfræðingur var líka veðurteppt heima hjá sér. Bæði reyndu að leggja af stað, en urðu að snúa við eins og fleiri, sem vildu koma til hjálpar. Aðstoð frá næstu bæjum tók þó að berast þegar líða tók á nóttina. Fólk skiptist á um að moka og hvíla sig og fá sér hressingu, og alltaf var nóg á borðum fyrir alla, en það sáu konurnar í þorpinu um. Ég tel að um 15 manns hafi verið að alla nóttina.

 

Eftir að presturinn kom fór ég að huga að því, sem mín biði. Hafði samband við lækna og hjúkrunarfólk, sem vissi hvað gera skyldi, og fór að viða að mér því sem þurfa þótti þegar taka þarf á móti köldu fólki úr snjó. Það var ótrúlegt að sjá dugnaðinn í konum og körlum, allir unnu sem einn maður.

 

Eftir ellefu stunda leit – kl. 7 að morgni 19. janúar – fundust þeir feðgar. Ólafur látinn, hafði lent ofar í flóðinu og í spýtnabraki. Talið var, að hann hefði látist samstundis. Unnsteinn Hjálmar var dýpra í snjónum. Tvær kindur lágu við fætur hans. Hann lá á bakinu og annar handleggur hans hafði lent yfir andlitið. Ég var sótt þegar hann fannst til að hjálpa til við að koma honum heim. Hann svaraði mér þegar ég talaði til hans.

 

Þeir feðgar höfðu verið í mjólkurhúsinu þegar flóðið kom og ætlað að fara að klæða sig í kuldagalla, en það varð ekki af því. Unnsteinn sagði: „Það er að koma snjóflóð“, og Ólafur svaraði: „Þá komumst við ekki heim“ (haft eftir Unnsteini). Síðan varð allt svart. Unnsteinn sagðist alltaf hafa verið viss um að sér yrði bjargað og sagðist hafa sofið að mestu. Ég gerði síðan það sem mér hafði verið ráðlagt. Hélt fyrst að hann væri axlarbrotinn, en þegar honum fór að hlýna kom í ljós að hann var óbrotinn en með ljótt sár á fæti, sem var lengi að gróa. Hann var orðinn mjög kaldur og hitinn kominn niður í 29 gráður.

 

Um hádegi rofaði til og þyrla kom að sunnan ásamt lækni og aðstoðarfólki og sótti Unnstein og Lilju. Seinna mundi hann ekkert eftir sér fyrr en hann kom á Borgarspítalann, þar sem hann var í nokkra daga. Skip kom frá Stykkishólmi um svipað leyti og flugvélin og flutti lík Ólafs suður. Þá fórum við Guðmundur heim að Reykhólum til að hvíla okkur. Um kvöldið hittust allir sem gátu í kirkjunni og séra Bragi sagði nokkur falleg orð og við ræddum málin, sem var gott.

 

Ekki urðu fleiri slys, en mörg smá flóð féllu víða úr Reykjanesfjalli þennan vetur og ekki var talið óhætt að íbúar Skerðingsstaða, Miðjaness og Hamarlands væru heima hjá sér nema til að sinna um búfénað. Mannskapur kom líka næstu daga til aðstoðar á Grund. Leitað var að fleiri dýrum, en án árangurs.

 

Þetta vonda veður hélst mikið til það sem eftir var vetrar. Mikil hvassviðri en minni snjókoma, ófærð og erfiðleikar. Fjölskyldan á Grund dvaldi hjá mér á Reykhólum fram í maí. Um vorið hófst síðan uppbygging á Grund.

 

Það kemur illa við lítið sveitarfélag og hefur áhrif á allt samfélagið þegar svona hamfarir og slys verða. Þeir sem upplifa slíkt gleyma því aldrei. Allir sem komu að hjálparstarfinu eiga miklar þakkir skilið fyrir sín óeigingjörnu störf.

 

Skrifað í febrúar 2013 eftir minnispunktum og samtali við Guðmund Ólafsson á Grund.

- Kristín Ingibjörg Tómasdóttir.

 

► 18.01.2015 Tuttugu ár frá snjóflóðinu á Grund

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31