Snjóplógur af Ströndum á Reykhóla
„Þetta hefur gengið fínt og verkefnin verið nóg“, segir Brynjólfur Smárason verktaki á Reykhólum (Bolli frá Borg í Reykhólasveit). Eftir hrunið hafa almennt orðið mikil umskipti hjá verktökum, samdráttur og jafnvel algert verkefnaleysi þar sem áður var bullandi góðæri. Stórveldi í þessum geira hafa skroppið saman í nánast ekki neitt og sum farið í þrot eins og t.d. vestfirska fyrirtækið KNH sem var með stór verkefni hér og þar um landið. Litlu verktakarnir hafa sumir sloppið miklu betur og Brynjólfur kvartar ekki.
Árið 2007 keypti hann ársgamalt fyrirtæki fyrir sunnan, Verklok ehf., og hefur rekið það síðan og yfirleitt verið eini starfsmaðurinn með tvær gröfur og einn vörubíl. Núna fyrir nokkrum dögum fékk hann myndarlegan snjóplóg á aðra gröfuna.
Plóginn fékk Brynjólfur af traktor á Bassastöðum á Selströnd í Strandasýslu. Myndirnar tók Jón Kjartansson í fyrradag þegar Brynjólfur var að ryðja Grettiströðina niður að Grettislaug á Reykhólum.
Varðandi útlitið fram undan hvað verkefni varðar segir hann: „Þetta kemur alltaf, en maður veit svo sem ekkert fram í tímann.“ Brynjólfur segir að stærsta verkið hjá honum hingað til sé væntanlega dýpkun hafnarinnar á Stað á Reykjanesi í Reykhólasveit.