Tenglar

2. janúar 2012 |

Sögur í snjónum - bardagi eða leikur?

Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli sendi myndirnar sem hér fylgja – með yfirskriftinni Sögur í snjónum. Hann rölti upp fyrir tún rétt fyrir áramótin og sá þessar slóðir. „Þarna hafa verið að minnsta kosti tvær tófur á ferðinni og krafsað hér og þar og svo hafa þær skilið eftir sig heljarmikið traðk. Ég er ekki nógu vel að mér um atferli refa til að vita hvort þarna hefur verið bardagi eða leikur. Svo hafði líka mús verið þarna á stökki“, segir hann.

 

Og því skal spurt: Hver er nógu tófufróður til að kveða upp úr með þetta? Bardagi eða leikur? Smellið á myndirnar til að stækka þær.

 

Athugasemdir

Ester Rut Unnsteinsdóttir, fimmtudagur 19 janar kl: 14:26

Þarna eru skemmtilegar sporamyndir og gaman að velta fyrir sér hvað þarna hefur gerst. Ef maður leyfir sér að giska út í bláinn dettur manni ýmislegt í hug. Til dæmis gæti tófa hafa legið og sofið þar sem dældin er og önnur komið skoppandi að henni. Þær gætu hafa þekkst og kannski hefur komið galsi og leiku í þær svo þær hafi hugsanlega stokkið að hvorri annari í leik. Þar sem mikið kraðak er á svæðinu er ekki líklegt að þarna sé bara ein tófa á ferð og hafi þær verið tvær er ekki að sjá nein merki um hörkuleg átök.
Myndin er ekki það skýr að hægt sé að sjá hvort sporin liggi að eða frá “kraðakinu” en mér sýnist eins og það séu tvö samliggjandi spor. Þau gætu verið eftir sama dýrið, annars vegar að koma og hins vegar að fara en myndin er tekin þannig að ekki sést hvort spor liggja út úr svæðinu til annara átta. Sá sem tók myndina veit þetta líklega.
Af myndinni með sporunum í kringum grasstráin er lítið hægt að segja annað en að þarna sé „hefðbundið“ snuðr en tófur geta eytt talsverðum tíma í að þefa og snuðra af tiltölulega litlu svæði. Þarna er enginn gulur blettur eða skítur sem gæfi til kynna þvagmerkingar þessarar eða annarar tófu og erfitt að sjá á myndinni hvort ein eða tvær tófur hafi verið þarna á ferð. Engin músa- eða fuglaspor eru sýnileg, né hræ eða neitt annað sést á myndinni svo þetta er líklega bara þvælingur og almennt snuðr.
Þar sem sporin skiptast í tvennt sést að „göngulagið“ er ólíkt sem gæti bent til að hér séu tvö mis-stór dýr á ferð en einnig gæti verið að um eitt dýr sé að ræða sem gengur fram og tilbaka og þá á ólíkum hraða. Ég hef heyrt frásagnir af tófusporum sem „hætta“ líkt og dýrið hafi lyft sér upp til flugs en ekki áður séð spor sem kvíslast í tvennt eða verða að einu, þetta er áhugavert en skýringin gæti allt eins verið einföld. Músasporin eru alltaf skemmtileg en þau virðast liggja annars staðar en hin sporin og maður veit ekki alveg hversu nálægt þau eru. Mýs þurfa að fara um á veturna til að ná sér í æti enda fátt um fæðugerðir sem hægt er að eiga í forðabúri yfir allan veturinn. Margar mýsnar lenda þá í refskjafti eða klóm ránfugla, því getur verið skeinuhætt fyrir mýslu að vera að þvælast á sama svæði og tófan. Tímasetning er óljós því snjórinn getur legið lengi, kannski slapp sú litla í þetta skiptið.
Já það er gaman að þessum vangaveltum en maður kemst oft lítið áleiðis inn í hugarheim lágfótu enda eru þær jafn ólíkar og þær eru margar. Ég hef aðgang að nokkrum mjög skemmtilegum myndskeiðum af tófum sem leika sér saman í snjó og kannast við að atgangur getur orðið þó nokkur, bæði í leik og af hörku. Mér sýnist á þessum myndum að leikurinn sé meiri en harkan í þessu tilfelli enda hverjum þykir ekki gaman að leika sér í snjónum.

Bestu kveðjur á Reykhóla
Ester Rut Unnsteinsdóttir, líffræðingur og forstöðumaður Melrakkaseturs.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30