Tenglar

25. mars 2015 |

Sóley Vilhjálmsdóttir lætur af bankastörfum

Ágúst Már, Ingibjörg Birna, Sóley með blómvöndinn og Arnór maður hennar.
Ágúst Már, Ingibjörg Birna, Sóley með blómvöndinn og Arnór maður hennar.
1 af 2

Síðasti vinnudagur Sóleyjar Vilhjálmsdóttur í Króksfjarðarnesi hjá Landsbankanum var í dag, en hún er komin á aldur, eins og kallað er. Hún hafði þá unnið við bankastörf í héraðinu samanlagt á fjórða áratug, eða allt frá 1981. Þá byrjaði hún í útibúi Samvinnubankans í Króksfjarðarnesi, sem stofnað hafði verið tæpum áratug fyrr.

 

Síðar var útibúið í eigu ýmissa bankastofnana, fyrst Landsbankans, síðan Eyrasparisjóðs á Patreksfirði, svo Sparisjóðs Vestfirðinga, því næst Sparisjóðs Keflavíkur, síðan SpKef og loks Landsbankans á nýjan leik. Útibúinu í Nesi var lokað fyrir tæpum þremur árum en frá þeim tíma hefur Sóley verið með afgreiðslu fyrir bankann á Reykhólum einu sinni í viku, bæði í Barmahlíð og í húsakynnum Reykhólahrepps.

 

Fyrstu tvö árin eða 1981-1983 var Sóley í fullu starfi í útibúinu í Króksfjarðarnesi. Þá fór hún í barneignarleyfi en vann þar svo næstu þrjú sumur. Síðan var hún í fullu starfi næstu 25 árin eða frá 1987 og allt þangað til rekstri bankaútibús í Króksfjarðarnesi var hætt í lok maí 2012. Í ársbyrjun 2007 tók Sóley við stöðu útibússtjóra af Halldóri D. Gunnarssyni, sem gegndi því starfi í Nesi frá stofnun bankaútibús þar hinn 5. júní 1972 og til ársloka 2006, þegar hann fór á eftirlaun.

 

Núna þegar Sóley hefur látið af störfum tekur Ágúst Már Gröndal við afgreiðslu Landsbankans á Reykhólum. Hún verður með sama hætti og verið hefur.

 

Fyrri myndin var tekin við lokun afgreiðslunnar í dag þegar Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri færði Sóley blómvönd sem þakklætisvott fyrir hönd fólksins í Reykhólahreppi. Með þeim eru Ágúst Már, arftaki Sóleyjar í afgreiðslu Landsbankans á Reykhólum, og Arnór Grímsson, eiginmaður hennar. Á seinni myndinni tekur Ágúst Már við þeim lyklum sem starfinu fylgja úr hendi Sóleyjar og þar með eru starfslok hennar eftir alla þessa áratugi í bankaþjónustu í héraðinu innsigluð.

 

Sóley biður fyrir kærar þakkir til viðskiptavinanna fyrir samstarfið öll þessi ár.

 

Athugasemdir

Málfríður Vilbergsdóttir, mivikudagur 25 mars kl: 20:26

Sóley Takk kærlega fyrir alla góðu þjónustuna í bankanum gangi þér allt í haginn.
Þú ert frábær :)

Eyvindur, mivikudagur 25 mars kl: 22:27

Ofboðslega gott að leita til þín Sóley, margir snúningar og símtöl sem þú hefur sparað fólki í gegnum tíðina með lipurð þinni, takk og takk

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31