Sólin tók virkan þátt í afmælisveislu Reykhólahrepps
Veðrið lék við gestina í afmælisgrillveislunni sem sveitarstjórn efndi til á 25 ára Reykhólahrepps hins nýja í Hvanngarðabrekku á Reykhólum í fyrrakvöld. Brekkan veit móti vestri og enginn bilbugur var á sólinni þrátt fyrir einstaka eljusemi lengi undanfarið. Hitinn eitthvað um fimmtán stig og nánast logn. „Þetta er nú bara eins og maður er vanur hér á sumrin,“ sagði einn heimavanur þurrlega við ferðalang eins og ekkert væri sjálfsagðara.
Reykhólahreppur í núverandi mynd varð til við sameiningu Geiradalshrepps, Reykhólahrepps, Gufudalshrepps, Múlahrepps og Flateyjarhrepps 4. júlí 1987.
Myndirnar frá grillveislunni sem fylgja þessari frétt eru aðeins nokkur sýnishorn - margfalt fleiri er að finna undir Ljósmyndir > Myndasyrpur í valmyndinni hér vinstra megin. Myndasmiðirnir eru Ingibjörg Birna Erlingsdóttir og Sveinn Ragnarsson. Síðasta myndin í syrpunni er að vísu ekki frá fagnaðinum á Reykhólum - hana tók Sveinn um kvöldið þegar hann var kominn heim að Svarfhóli og sólin var að halla sér, lúin en glöð eftir gott starf á fögrum degi.
Guðrún og Fanni, laugardagur 07 jl kl: 09:28
Takk fyrir okkur. Þetta var yndislegt kvöld : )