26. mars 2010 |
Söngleikurinn Grease á Hólmavík
Söngleikurinn Grease, sem ekki síst John Travolta gerði frægan, var frumsýndur í Félagsheimilinu á Hólmavík í gærkvöldi. Að uppfærslunni standa Leikfélag Hólmavíkur, Grunnskólinn á Hólmavík og Tónskólinn á Hólmavík. Næstu sýningar verða í kvöld, föstudag, og á morgun, laugardag, og hefjast kl. 20. Verkið er í leikstjórn Jóhönnu Ásu Einarsdóttur en tónlistarstjóri er Stefán Steinar Jónsson.
Leikendur eru flestir ungir að árum eða í efstu fjórum bekkjum Grunnskólans og sama gildir um hljómsveitina sem spilar undir, sviðsmenn og fleiri. Nokkrir leikarar og fjölmargir sem unnið hafa að umgjörð sýningarinnar koma svo frá Leikfélagi Hólmavíkur og þannig vinna kynslóðirnar saman að þessari skemmtilegu leiksýningu, segir á vefnum strandir.is.
Miðaverð er 2.000 krónur fyrir fullorðna og 1.000 krónur fyrir 16 ára og yngri. Miðapantanir í síma 690 2011 en líka eru seldir miðar við innganginn.